05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

8. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég vil aðeins segja í tilefni af ummælum mínum um byggðalínuna, að það mun hafa verið ofsagt hjá mér, að það sé búið að taka ákvörðun um að fresta þessum framkvæmdum. Það mun hins vegar hafa verið í athugun, hvort sé ekki alveg eins hægt að framkvæma þetta í byrjun næsta árs eins og nú í haust. Endanlegar ákvarðanir um það eru enn ekki teknar, og má vel vera, að það reynist rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að þetta sé ekki framkvæmanlegt öðruvísi en tefja framkvæmdirnar, og þá verður það að sjálfsögðu ekki gert. En þetta hefur verið í athugun.

Ég held, að ég leiði hjá mér flest þau atriði eða flest þau skeyti, sem að mér hefur verið beint í þessum umr. En ég ætla aðeins að segja það í tilefni af því, sem mínir gömlu samherjar í fjh.- og viðskn. hafa beint að mér, að það er ekki ég, sem hef snúist, eins og þeir halda fram, heldur eru það þeir, sem hafa gert það. Við vorum fullkomlega sammála um það á síðasta þingi, ég og þessir stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar, að það þyrfti að hækka söluskattinn um 2%. Það liggur skjalllega fyrir. Ég hef ekki skipt neitt um skoðun í því máli. Ég tel það nauðsynlegt nú alveg eins og þá, til þess að hægt sé að halda uppi hæfilegum framkvæmdum og samneyslu, að ríkið afli sér þessara tekna. Og ég tel, að að mörgu leyti sé það rangt, þegar er verið að tala um skatta, að það sé verið að kalla það álögur á almenning og það sé verið að þrengja kjör manna, því að megninu af þeim sköttum, sem ríkið innheimtir, er ráðstafað aftur til þess að jafna kjör manna. Hér er ekki um annað en eðlilega og réttláta tilfærslu að ræða, en ekki skattaálögur, nema þá þannig, að það er í þessum tilfellum tekið af þeim, sem betur hafa, og dreift til hinna, sem miður mega sín. Þetta er sannleikurinn um stóran hluta skattanna, þeir eru tilfærsla á milli stétta til þess að koma á auknum jöfnuði og réttlæti, en ekki til þess að þrengja kost, a.m.k. ekki þeirra, sem lakar eru settir.

Við vorum sammála um það líka, ég og Karvel Pálmason og Gils Guðmundsson, á síðasta þingi, að það væri rétt að hækka bensínskattinn um nokkrar kr. til þess að afla meira fjár til vegaviðhalds og vegaviðgerða. Mín skoðun er óbreytt í þessum efnum enn. Þeir hafa hins vegar skipt um skoðun.

Við vorum sammála um það einnig á síðasta þingi, ég og þessir hv. þm., að það væri rétt að leggja 13% verðjöfnunargjald á raforkuna til að bæta aðstöðu þeirra rafveitna, sem lakasta hafa aðstöðuna, og jafna þannig kjör manna í landinu. Þeir voru meira að segja fylgjandi þessu fyrir nokkrum dögum, því að frv. um þetta efni var lagt fram sem stjfrv. af vinstri stjórninni. Nú hafa þeir skipt um skoðun, en mín skoðun er óbreytt.

Ég stend í nákvæmlega sömu sporum í öllum þessum málum og ég stóð á síðasta þingi og fylgi fram þeirri stefnu, sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir þá til að tryggja auknar framfarir og meiri samneyslu. Það eru þeir, sem hafa snúist. Nú standa þeir móti þessum málum. Ég vil nota þetta tækifæri til að benda þeim á, að þeir eru komnir hér inn á mjög hættulega braut. Þeir eru að snúast gegn þeirri stefnu framfara og samneyslu, sem vinstri stjórnin fylgdi fram. Það er kannske rétt, að ég rifji aðeins upp lítið dæmi til að sýna þeim fram á, á hvaða leið þeir eru.

Jón Þorláksson hefur skrifað einhverja bestu grein sem skrifuð hefur verið sem lýsing á íhaldsmönnum. Hann gerði það, þegar hann kom sem ungur verkfræðingur til landsins 1908, fullur af framfaraáhuga, vildi leggja vegi, auka sjósamgöngur, jafnvel leggja járnbraut og var meira segja á því, að það ætti að þjóðnýta vatnsaflið. Þá skrifaði hann fræga grein í Lögréttu, lýsingu á íhaldsmönnum. Hann segir: „Íhaldsmenn eru á móti framförum, en íhaldsmenn segja ekki, að þeir séu á móti framförunum, vegna þess að þeir vita, að það er óvinsælt. Þess vegna þykjast þeir vilja vegi og bættar sjósamgöngur o.s.frv., en meina ekkert með því. Íhaldsmenn segja aftur á móti: Við erum á móti sköttum, og þeir berjast á móti sköttum, og það er vegna þess, að þeir vita það, að ef skattar eru ekki lagðir á, þá er ekki hægt að halda framkvæmdum uppi.“ Barátta þeirra á móti framförum er fólgin í því að vera barátta á móti sköttum. Og það er þessi barátta, sem liðsmenn Alþb. og SF hafa nú tekið upp á Alþ. Þeir hafa tekið. upp baráttu á móti sköttum, sem þeir sjálfir töldu nauðsynlega á síðasta þingi til að halda uppi hæfilegum framförum og samneyslu. Það eru þeir, sem eru komnir inn á íhaldsbraut, en ekki ég.

Góðu heilli hefur Sjálfstfl. skipt um skoðun og fylgir nú fram þeirri stefnu, sem hann var á móti á síðasta þingi. Ég tel hann lofsverðan fyrir það.