05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

10. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessu óvenjulega sumarþingi fer nú senn að ljúka. Eftir að þingið hafði setið langa hríð svo til aðgerðalaust og beðið eftir myndun ríkisstj., kom stjórnin, og henni hefur legið mikið á að afgreiða ýmis mál á skömmum tíma. Afgreidd hafa verið svo að segja eingöngu þau mál, sem ríkisstj. leggur áherslu á, og verður ekki annað sagt en stjórnarandstaðan hafi að því leyti sýnt henni fyllsta tillit og kurteisi.

Þingið hefur aðeins afgreitt þessi mál ríkisstj., sem hafa það öll sameiginlegt að vera stórfelldar álögur á almenning í landinu, það er athyglisvert einkenni á þinginu, að sterkasta stjórn, sem setið hefur á Íslandi um langa hríð, eina tvo áratugi, er svo illa komin, að hennar eigið lið mætir ekki til starfa og dag eftir dag getur hún ekki komið málum sínum fram, nema stjórnarandstaðan veiti henni aðstoð, Það hefði ekki þurft meiri tilviljun en svo, að stjórnarandstæðingar færu í kaffi nokkurn veginn um sama leyti, til þess að Alþ. yrði algerlega óstarfhæft, þó að ríkisstj. elgi að hafa 2/3 hluta þm. eða þar um bil á bakvið sig.

Nú vill ríkisstj. fá tóm til að átta sig og búa sig undir hlutverk sitt á næstunni, undirbúa mál til þess að leggja fyrir Alþ. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að ný ríkisstj. þurfi á slíku tómi að halda. En að þessu sinni höfum við séð það dag eftir dag, að núv. ríkisstj. er brýn nauðsyn á því. Það liður ekki svo dagur, að það þurfi ekki að gera meiri eða minni hlé á störfum, svo að stjórnarflokkarnir geti hlaupið til þess að reyna að komast að einhverju bráðabirgða skyndisamkomulagi um mál, sem varða mörg hundruð millj. eða jafnvel mörg þús. millj. álögur á þjóðina.

Í stjórnarsáttmálanum eru ýmis loforð eða fyrirheit um aðgerðir, sem eiga að vega eitthvað örlitið á móti þeim álögum, sem nú hafa verið samþykktar eða eru um það bil að fá samþykki þingsins, — eitthvað, sem gerir láglaunafólki auðveldara að bera þessar byrðar, eitthvað, sem hjálpar launþegum almannatrygginga til þess að komast af. Viðræður um þessi mál eru nú að hefjast á milli ríkisstj. og fulltrúa frá launþegasamtökunum,

Við Alþfl.-menn höfum tekið þá afstöðu að láta það afskiptalaust, að þingfrestun verði lengri en eðlilegt mætti teljast. En við gerum það um leið og við mótmælum enn einu sinni þeim álögum, sem ríkisstj. þurfti ekki tíma til að hugsa sig um eða undirbúa. Við gerum það í trausti þess, að það verði lögð rík áhersla á að ná skjótlega samkomulagi við launþegasamtökin, svo og að þær ráðstafanir, sem þar næst samkomulag um og eiga að vega upp á móti þeim álögum, sem hér hafa verið samþykktar, komi þá þegar til framkvæmda. Ef ekki er hægt að gera það með brbl., þá verður að kalla þingið saman. Þær ráðstafanir, sem eiga að vega á móti álögunum fyrir láglaunafólkið, geta ekki beðið fram í nóv.

Ég endurtek, að það er algerlega í trausti þessa og í trausti á skýr loforð hæstv. forsrh. í yfirlýsingum hans fyrir hönd stjórnarinnar um samráð við launþegasamtökin og ráðstafanir til að vega á móti álögunum, að við látum þetta mál afskiptalaust og greiðum ekki um það atkv.