05.09.1974
Neðri deild: 19. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

Starfslok neðri deildar

Forseti (Gils Guðmundsson):

Þar sem þetta verður síðasti fundur þessarar hv. d. fyrir þingslit, vil ég við það tækifæri þakka þdm. öllum fyrir ágæta samvinnu og fyrir umburðarlyndi við mig þann tíma, bæði nú og áður, sem ég hef stýrt fundum þessarar d. Að þessu sinni er sérstök ástæða til að þakka varaforsetum d. störf þeirra, en vegna fjarveru minnar, sem verið hef einn af fulltrúum Íslands á öðru þingi.

í fjarlægri heimsálfu verulegan hluta þessa þingtíma, hefur stjórn funda á aukaþinginu nú að mestu fallið í þeirra hlut. Skrifstofustjóra Alþingis og starfsliði öllu vil ég flytja bestu þakkir fyrir samstarfið við mig og fyrir velunnin verk í þágu þinghaldsins.

Ég vil af sérstöku tilefni láta þess getið, og ég hygg, að ég mæli þar fyrir hönd allra, sem hlut eiga að máli, að næstu dagar verða notaðir til að ganga að fullu frá þeirri endurskoðun á kjörum starfsfólks Alþingis og röðun fastra starfsmanna í launaflokka, sem af ýmsum ástæðum hefur dregist lengur en skyldi að ljúka.

Að svo mæltu árna ég hv. þdm. alls góðs og læt í ljós þá von, að við megum öll hittast hér í þessum sal, þegar Alþ. kemur saman að nýju nú á haustdögum.