18.07.1974
Sameinað þing: 1. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Varamaður tekur þingsæti

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason):

Ég vil leyfa mér að bjóða alla hv. alþm. velkomna til starfa svo og starfslið Alþingis.

Borist hefur eftirfarandi bréf um fjarveru eins þingmanns:

„Reykjavík, 2. júlí 1974.

Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Reykjaneskjördæmi, Karl G. Sigurbergsson skipstjóri, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.

Gils Guðmundsson, 3. þm. Reykn.“

Kjörbréf Karls G. Sigurbergssonar mun verða rannsakað með kjörbréfum annarra hv. þm.

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara Lárus Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., og Jón Skaftason, 4. þm. Reykn.

Þessu næst skiptust þingmenn í kjördeildir og urðu í:

1. kjördeild:

AJ, EðS, EBS, GS, GHG, GÞG, HFS IG, JHelg, JGS, LárJ, MÓ, OÓ, PP, RA, SigurlB, StJ, StG, TÁ, ÞS.

2. kjördeild:

AG, BGr, EÁ, FÞ, GH, GuðlG, GF, HÉS, IngJ, JónÁ, JSk, KP, MK, MÁM, ÓlJ, PS, SighB, StH, SvH, ÞK.

3. kjördeild:

ÁB, EggÞ, EKJ, GeirG, KGS, GTh, HÁ, IT, JóhH, JÁH, JónasÁ, LJós, MB, ÓE, PJ, RH, SV, SvJ, VH, ÞÞ.

Fyrir lá að rannsaka kjörbréf allra alþingismanna. Skiptu kjördeildir með sér kjörbréfum svo sem lög mæla fyrir, þannig að 1. kjördeild hlaut til rannsóknar kjörbréf þeirra þm., sem voru í 3. kjördeild, 2. kjördeild kjörbréf þm. í 1. deild og 3. kjördeild kjörbréf þm. í 2. deild.