28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Forseti (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti Íslands og forsetafrú, ríkisstjórn, alþingismenn, erlendir gestir, Íslendingar. Enn kemur Alþingi saman til fundar á Þingvelli, á Lögbergi við Öxará. Fundarsalurinn getur naumast glæstari verið. Grundvöllur hans er gróður og hraun, veggirnir eru fagur fjallahringur og háir hamrar, kraftaverk, sem aðeins guð og eldur gátu gert. Loftið er sjálfur himinninn í allri sinni dýrð, heimkynni þess almættis, sem kraftaverkið vann.

Fyrir næstum tíu og hálfri öld var Alþingi stofnað á þessum stað. Um leið var komið á fót ríki, sem var einstætt á miðöldum. Sjötíu árum síðar var kristni lögtekin á Þingvelli. Um það bil sjö áratugum áður hafði landnám Íslands hafist. Þess er nú minnst hér í dag, á þeim stað, sem er helgastur í hugum Íslendinga.

En Þingvellir eru ekki aðeins heilög jörð vegna þess að hér hafi gerst örlagaatburðir í sögu þjóðarinnar. Segja má með sanni, að á þessum stað hafi þeir útlendir menn, sem smám saman námu þetta land, orðið Íslendingar. Þegar Alþingi hið forna kom hér saman til að semja lög og dæma dóma, var hér ávallt samtímis haldin þjóðhátíð, þar sem ættarbönd voru treyst og vinabönd bundin, þar sem flutt var hin fegursta list og glæst íþrótt iðkuð. Hér var grundvöllur íslensks þjóðlífs lagður Um íslenska þjóð má með sanni segja, að hún hafi fæðst á Þingvöllum. Þess vegna er enginn staður jafnvel til þess fallinn og Þingvellir, að þar sé minnst 1100 ára búsetu í landinu. Hér færa Íslendingar fósturjörð sinni gjöf í minningu þess, sem þeir hafa af henni þegið í ellefu aldir. Sú gjöf verður gefin af þakklátum huga, af auðmýkt hjartans, af ást til landsins.

Alþingismenn! Verður nú rætt eina málið, sem er á dagskrá þessa fundar, till. til þál. um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun.