28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti, góðir áheyrendur. Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, er flutt af öllum flokkum á Alþingi. Hin sérstaka þingnefnd, sem kosin var í sameinuðu Alþingi til að fjalla um þetta mál, hefur skilað áliti. Í nefndarálitinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur fjallað um till. til þál. um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun. Telur hún vel við eiga að minnast 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu með því, að Alþingi taki í umboði þjóðarinnar ákvörðun um, að varið skuli ríflegu fjárframlagi á næstu fimm árum til að græða upp landið og vernda gróður þess. Nefndin er sammála um að leggja til, að tillagan verði samþykkt.“

Efni tillögunnar er það, sem nú skal greina: Alþingi ályktar, að á árunum 1975–79 skuli framkvæma áætlun um landgræðslu og gróðurvernd og verja í því skyni samtals einum milljarði króna. Þessi áætlun skiptist í fjóra höfuðþætti, en þeir eru: landgræðsla, skógrækt, rannsóknir og aðrar aðgerðir.

Markmiðin eru einkum þessi: að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu og hefta sandfok; að græða örfok og ógróið land; að hlynna að skóglendi, sem fyrir er og leggja grundvöll að nýjum skógum; að efla rannsóknir og tilraunir, svo að framkvæmdir hvíli á traustum grunni.

Svo telja fróðir menn, að á landnámsöld hafi meira en hálft landið verið þakið gróðri, en nú, 11 öldum síðar, er gróinn aðeins fjórðungur landsins. Meira en helmingur gróðurlands hefur tapast á þessum tíma. Hverjar eru orsakir þessarar eyðingar? Náttúruhamfarir, eldgos, öskufall, veðurhamur, sandfok, skriðuföll, ágangur vatna, álag á beitilönd, skógarhögg og margar fleiri. Náttúruöflin leikast á og kalla fram þessar undarlegu andstæður, sem eru auðkenni íslenskrar náttúru. Sömu öflin eyða og byggja upp. Vatnið gerir hvort tveggja að brjóta land og lífga. Frost og fannir deyða og skýla á víxl. Og jafnvel eldsumbrotin leggja líkn með þraut og láta gosefnin græða sárin.

Ari fróði segir svo í Íslendingabók um landnám Íslands: „Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru.“ Þar sem nú er aðeins einn hundraðasti hluti landsins skógi vaxinn, hafa sumir vefengt orð Ara. Nýjustu rannsóknir leiða í ljós, að á landnámsöld muni birkiskógar og kjarr hafa náð yfir 30–40 sinnum stærra landssvæði en nú. Sú reynsla, sem fengin er af friðun og ræktun birkiskóga, er, að gróðurfar batnar á þeim slóðum, trjágróður bindur og bætir jarðveginn. Skógurinn skapar öðrum gróðri skjól, hann er til nytja og fegrunar, auðgar náttúruna, gerir fuglalíf fjölbreytt.

„Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,

og skógar glynja, skreyttir reynitrjám,“

kvað Jónas Hallgrímsson.

Það átak, sem nú er fyrirhugað, er undirbúið af landnýtingar- og landgræðslunefnd. Það, sem þessi tillaga felur í sér, þarf að gera í góðri samvinnu við bændur landsins og félagssamtök þeirra.

Því er líkt farið um gróður landsins og menningu þjóðarinnar, að hollt er að byggja á því, sem íslenskt er og stendur föstum fótum í íslenskum jarðvegi. En forfeður okkar kunnu þá list að frjóvga íslenska menningu með þeim erlendu áhrifum og straumum, sem að henni féllu og gátu samlagast henni, án þess að hún biði tjón af. Eins er um íslenskan gróður. Það getur verið gagnlegt að leita þess frá öðrum löndum, sem fellur vel að íslenskum staðháttum og samlagast náttúru landsins.

Svo segja reyndir menn, að þótt ýmsar erlendar urtir og fræ reynist vel við stöðvun uppblásturs og landgræðslu, dugi þó ekkert eins vel og melgrasið íslenska.

„Séð hef ég skrautleg suðræn blóm

sólvermd í hlýjum garði,

áburð og ljós og aðra virkt

enginn til þeirra sparði;

mér var þó löngum meir í hug

melgrasskúfurinn harði,

runninn upp þar, sem Kaldakvísl,

kemur úr Vonarskarði.“

Margar eru þær köldu kvíslir, sem grandað hafa gróðri á umliðnum öldum.

En nú skal spyrna við fótum. Nú skal segja eyðingaröflunum stríð á hendur og herða bæði sókn og vörn.

Við stöndum í Vonarskarði. Við berum í brjósti þá von, að sá, er sólina hefur skapað, haldi verndarhendi yfir landi og þjóð. Og við stöndum nú á þeim stað, „er við trúnni var tekið af lýði.“ Og trúnni skulum við halda, trúnni á forsjón og framtíð þessa fagra lands.