28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti, góðir landsmenn. Samstaða fulltrúa allra þingflokka um flutning þáltill. á þskj. 1 um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um ellefu hundruð ára búsetu þjóðarinnar í landinu hefur nú verið ítrekuð með einróma áliti þeirrar sérstöku nefndar, sem kjörin var til að fjalla um málið, að samþykkja beri tillöguna eins og hún liggur fyrir.

Fagna ber þeim einhug, sem ríkir á Alþingi um þetta mál. Fleira gat komið til greina, þegar ákveðið var, hvert verkefni skyldi velja hátíðarfundi Alþingis á Lögbergi þjóðhátíðardaginn í minningu ellefu alda byggðar í landinu. En það er eindregin skoðun mín, að ekki hafi verið bent á neitt verkefni nándar nærri jafnverðugt og viðeigandi til ákvörðunar þingheims á þessum fornhelga bletti og stórátak þjóðarinnar til að hrinda í framkvæmd heildstæðri áætlun um landbætur ásamt rannsóknum á gróðurfari og landnýtingu, sem þurfa að fylgja.

Kólnandi veðurfar um nokkur undanfarinna ára eftir allangt hlýviðrisskeið ætti að hafa fært okkur Íslendingum heim sanninn um, hve gróðurlendi landsins er viðkvæmt fyrir hvers konar breytingum á gróðurskilyrðum og vandmeðfarið til búsnytja. Kalskemmdir á ræktarlandi í heilum héruðum og jafnvel landsfjórðungum eru ekki einar til sannindamerkis um åhrif af nokkurri lækkum meðalhita á gróðurfar og þar með afkomu allra landsmanna, en þó bænda sér í lagi. Auk þess þykir einnig ásannast, að haglendi þoli lakar beit búfjár í köldum árum en hlýjum og gróðureyðing af völdum höfuðskepnanna fari í vöxt. Þessi reynsla ætti að hafa kennt mönnum, að nú er einmitt tímabært að hefjast handa og leggja gróðuröflun náttárunnar rækilegar lið en gert hefur verið hingað til.

Eins og tækni og þekking er nú háttað, er engin afsökun fyrir því að láta skeika að sköpuðu, hversu gróðri og gróðurlendi vegnar. Og að svo miklu leyti sem á skortir viðhlítandi þekkingu sæmir ekki annað en að gera það, sem gera þarf, til að afla hennar. Þekkingargrundvöllurinn á gróðurlendi landsins og gróðrarskilyrðum þarf að vera svo traustur, að menn geti að staðaldri fylgst með viðgangi eða hnignun gróðurfars og gripið hvenær sem þörf gerist til þeirra úrræða, sem vænlegust þykja, til að færa út endimörk gróðurríkisins á hagfelldasta hátt eða hefta háskalega gróðurskerðingu með sem minnstum tilkostnaði. Í þessu efni eins og öðrum er það öflun og beiting undirstöðuþekkingar á viðfangsefninu, sem er forsenda árangursríkra vinnubragða.

En jafnframt því að afla aukins þekkingarforða er brýn ástæða til að hefjast handa af myndarskap við að nýta þá vitneskju og reynslu, sem þegar er tiltæk, í mun stærri stíl en hingað til. Skýrslur kunnugustu manna í hverju héraði um sig og niðurstöður af athugunum fræðimanna á stærri svæðum ber að sama brunni. Þessi gögn í heild benda eindregið til, að þrátt fyrir ötult starf þeirra stofnana, sem að landgræðslu vinna, fari gróðri á viðlendum svæðum hrakandi, landeyðingin virðist, þegar á heildina er litið, vega salt við landgræðsluna.

Reynsla, þekking og tækni eru til taks að snúa vörn fyrir gróðurlendið í sókn á hendur auðninni. Það, sem á skortir til að gera mun betur en unnt hefur verið til þessa, er aukið fjármagn. Úr því á að bæta næsta hálfan áratug með þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu.

Þrátt fyrir óyggjandi vitnisburð sögulegra heimilda og rannsókna á náttúrunni gætir þess enn, að sumir menn kveinka sér við að láta sér skiljast, að það er maðurinn og búpeningur hans, sem eiga meginþáttinn í stórfelldri rýrnun íslensks gróðurlendis frá því land byggðist. Slík hvumpni við staðreyndir er í senn ástæðulaus og viðsjárverð: Ástæðulaus sökum þess, að enginn fær með nokkrum rétti áfellst liðnar kynslóðir, sem hvorki höfðu skilyrði til að heyja sér vistfræðilegan skilning né önnur ráð til að bjarga lífi sínu og sinna, en ganga á gróðrarforða landsins. Viðsjárverð fyrir þá sök, að afneitun staðreynda af tilfinningaástæðum gerir menn ómegnuga að taka viðfangsefni raunhæfum tökum.

Minningu forfeðranna er sýnd sönnust rækt með því að sýna vit og vilja til að nota efnin, sem okkur hafa áskotnast, til að grynna á skuldinni, sem þeir stofnuðu til við landið. Til hennar var efnt, svo að okkur, sem gefið er að lifa þennan dag, yrði lífs auðið. Séum við þakklát fyrir það, hljótum við að fagna því að eiga þess kost að sýna lít á að greiða fósturjörðinni brot af fósturlaunum kynslóðanna, sem á undan okkur hafa sporað íslenskan svörð.