08.08.1974
Efri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál ber að með nokkuð sérkennilegum hætti að því leyti, að lög þau, sem frv., sem hér er til umr., er til breytingar á, tóku ekki gildi fyrr en einum degi eftir að átti samkvæmt þeim að gefa út happdrættisskuldabréf. Mér þykir rétt, að það komi hér fram, að þetta var ekki vegna þess, að málið hafi komið seint fram á síðasta þingi, né að það hafi ekki verið áhugi á að flýta því hjá flm. frv. og þeim öðrum, sem að því stóðu. Frv. að lögum nr. 48 frá 1974 var borið fram á síðasta þingi af öllum þm. Vestf. í hv. Nd., þeim Hannibal Valdimarssyni, Matthíasi Bjarnasyni og Karvel Pálmasyni. En við þm. Vestf., sem áttum sæti í þessari hv. d., stóðum að þessu frv. einnig. En það, hvað dróst að afgreiða þetta mál, hygg ég að stafi að nokkru leyti af því, hve seint tillaga um vegáætlun kom fram. Vegamálastjóri hafði lagt til, að það yrði dokað við með afgreiðslu þessa máls á síðasta þingi, þar til nánar lægi fyrir um vegáætlun. Við þekkjum allir þá sögu, hver dráttur varð á því, að þáltill. um vegáætlun kæmi fram. Hún kom svo seint fram, að hún var ekki afgreidd á síðasta þingi, svo sem kunnugt er. Ég tel rétt, að þetta komi fram hér.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að frv. að lögum nr. 48 frá 1974 var samþ. sem lög frá Alþ. 6. maí s.l., en það hlaut ekki staðfestingu forseta fyrr en 10 dögum siðar eða 16. maí. Ég skal ekki gera það hér að neinu ádeiluefni. En ég get ekki varist þeirri hugsun; að það hefði mátt flýta staðfestingu á þessum lögum, þar sem efni þeirra krafðist þess, að þau væru komin í gildi fyrir 15. maí. Það fórst fyrir hjá hæstv. ríkisstj. að sjá um það.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um mikilvægi þess máls, sem frv. þetta fjallar um, eða þýðingu Djúpvegarins. Það er mál, sem er svo alkunnugt og viðurkennt, hver þörf er fyrir að flýta því verki að ljúka lagningu Djúpvegar. Þetta hefur verið mikið áhugamál og hagsmunamál byggðanna við Ísafjarðardjúp, jafnt í sveit og kauptúnum og Ísafjarðarkaupstað. En málinu hefur þokað mjög hægt áleiðis, og það hefur stundum verið sagt, að hér sé um nokkurs konar eilífðarmál að ræða. Málið tók þó skyndilegum breytingum til hins betra með setningu vegáætlunar fyrir 1972–1975, þegar ákveðið var, að verja skyldi 25 millj. kr. í 4 ár til þess að ljúka lagningu Djúpvegar og þá var átt við veginn frá Hjöllum í Skötufirði að Eyri í Seyðisfirði. Hér var um 100 millj. kr. að ræða, og var þá gert ráð fyrir samkvæmt lauslegri áætlun, að verkið mundi kosta um 100 millj. kr.

Nú hefur raunin orðið allt önnur. Kostnaðurinn verður miklu meiri en 100 millj. kr., og í þáltill. að vegáætlun, sem lögð var fram á síðasta Alþingi, er tekið fram í aths., að til þess að ljúka Djúpveginum muni þurfa um 151 millj. kr. Það þýðir, að kostnaður við þessa framkvæmd er hækkaður úr 100 millj. í 200 millj., því að þegar greint er frá þessu í grg. með þáltill. um vegáætlun, er þegar búið að verja 50 millj. í þetta verk, þ.e.a.s. kostnaðurinn hefur hækkað um helming. En sagan er ekki öll sögð með þessu, því að þá er miðað við verðlag eins og það var í mars s.l. Nú er okkur öllum kunnugt um það, að verðlagið hefur stórum hækkað frá þeim tíma, vegagerðarvísitalan hefur hækkað, vegaviðhaldsvísitalan og vísitala brúargerða, allt hefur hækkað. Þessu þurfum við að gera okkur grein fyrir, þegar við ræðum um það að ljúka þessu verki.

Í bréfi, sem vegamálastjóri ritaði samgn. Nd. í nóv. s.l., segir hann, að rýrnun á fjárveitingum áranna 1972 og 1973 til Djúpvegar nemi um 10 millj. kr. og rýrnun á fjárveitingum áranna 1974 og 1975 nemi þegar um 25 millj. kr., miðað við verðlag í ágúst 1973. Í grg. með þáltill. um vegáætlun, sem ég hef áður drepið á og lögð var fram á síðasta Alþingi, er gerð nánari grein fyrir þessari rýrnun fjárveitinga til Djúpvegarins. Þar kemur fram, að rýrnunin nemur — auk 14 millj. fyrir árin 1972 og 1973 — fyrir árið 1974 21,5 millj. og fyrir árið 1975 22.4 millj. er þá rýrnun á fjárveitingum talin nema samtals 53,9 millj. kr. En þetta er miðað við verðlag eins og það var í mars s.l., þannig að hér er um verulega hækkun að ræða nú þegar. Ég bendi á þetta, til þess að það liggi ljóst fyrir, hverjar eru ástæðurnar fyrir því, að framkvæmd, sem reiknað var með að kostaði 100 millj. kr. árið 1972, er talið nú að kosti a.m.k. 200 millj. Mismunurinn hér á er að meiri hluta vegna rýrnunar á fjárveitingum, en það er einnig rétt að taka fram, að þessi hækkun er að nokkru leyti vegna þess, að verkið hefur reynst dýrara og umfangsmeira en áætlað var í upphafi, enda var þar um að ræða lauslega ágiskun um kostnað, eins og ég gat um áður.

Það, sem ég hef hér verið að tala um rýrnun á fjárveitingum, er að sjálfsögðu ekkert sérstakt varðandi þessa framkvæmd í vegamálum. Það er svo, að fjárveitingar til vegamála hafa eyðst í eldi verðbólgunnar á undanförnum árum með skelfilegum afleiðingum, og raunar er það svo, að það er ekki einungis þetta framkvæmdafé, sem hefur rýrnað, það hefur allt fé til framkvæmda í landinu rýrnað stórkostlega. En ég ætla ekki að fara að ræða frekar um það atriði eða fara nú við þetta tækifæri að deila á hæstv. ríkisstj., sem auðvitað ber ábyrgð á þessu ástandi.

En þó að þetta sé ekkert einstakt um Djúpveginn, hefur Djúpvegurinn og sú framkvæmd, sem hér er um að ræða, vissa sérstöðu, sem mér þykir rétt að undirstrika, m.a. með tilliti til ummæla hæstv. ráðh. áðan um sameiginlegar aðgerðir til fjáröflunar með happdrættislánum fyrir vegagerð í landinu. Þar talaði hann um það sem möguleika, að Djúpveginum yrði skipað á sama bekk og öðrum vegaframkvæmdum, sem fjár yrði aflað til með þessum hætti. Ég vil á þessu stigi málsins ekki mæla sérstaklega á móti heildarlöggjöf um þessi efni. En það má þó ekki breyta því, að um sérstöðu er að ræða varðandi Djúpveginn. Varðandi Djúpveginn standa málin þannig, að það er ekkert vegasamband milli sveitabyggðanna við innanvert Djúp og verslunarstaðanna við utanvert Djúp. Hér er ólíku gaman að jafna, þegar á að leysa þetta mál eða þegar á að gera ráðstafanir til þess að bæta vegasamband, sem þegar er fyrir, t.d. að setja varanlegt slitlag á vegi. Ég tel, að það þurfi að hafa þetta í huga. Tal og bollaleggingar eða fyrirætlanir um almennar aðgerðir til þess að leysa vanda vegamálanna með happdrættisfé mega ekki verða á kostnað þess, að það sé ekki tekið fullt tillit til sérstöðu Djúpvegarins.

Þessi hugmynd um happdrættisfé er ákaflega góð, og það vilja allir hagnýta sér hana. Hún er ekki frumleg í dag, en hún var frumleg og bráðsnjöll, þegar Jónas alþm. Pétursson, sem þá átti sæti á Alþingi, gerði till. um að opna hringveginn umhverfis landið með þeim hætti að efna til happdrættislána. Það voru sérstakar aðstæður þá varðandi hringveginn. Og við, sem stóðum að frv. að lögum nr. 48 frá 1974 um happdrættislán til að fullgera Djúpveg, töldum, að það væri um sérstakar aðstæður að ræða varðandi Djúpveginn. En ég er ekki víss um, hvort það er algilt ráð að ætla að færa út þessa leið til fjáröflunar við vegagerð nema að alltakmörkuðu leyti, þ.e. ekki að fara að leysa fjárhagsmál vegagerðarinnar almennt með þessum hætti. Ég skil ekki heldur orð hæstv. ráðh., að hann meini það. Ég er ekki með þessum orðum að mæla gegn því, að þessari aðferð verði beitt eitthvað viðtækar en orðið er, en ég vil sérstaklega leggja áherslu á sérstöðu Djúpvegarins.

Ég geri ráð fyrir, að það blandist engum hugur um, að það er mikil þörf á því fjármagni, sem lög nr. 48 frá 1974 um happdrættislán til að fullgera Djúpveginn gera ráð fyrir. Ég hef þegar lýst því, hvaða áhrif verðhækkanirnar hafa haft. Mér þykir eðlilegt að benda á, að það væri eðlilegt, að við endurskoðun hinnar almennu vegáætlunar yrði hækkuð svo fjárveiting til Djúpvegarins, að hún haldi verðgildi sínu, miðað við það, að lokið verði við Djúpveginn 1975. Kann að vera, að þá segi einhver, að ef gengið sé lengra í þessu efni en till. til þál. um vegáætlun gerði ráð fyrir á síðasta þingi, sé kannske minni þörf fyrir að afla 80 millj. kr. með happdrættislánum. Ég held, að það muni naumast nokkur ábyrgur aðili hreyfa því sjónarmiði. En það er líka rétt í þessu sambandi að benda á að það eru stórkostleg verkefni óleyst varðandi Djúpveginn á öðrum svæðum en milli Hjalla í Skötufirði og Eyrar í Seyðisfirði. Djúpvegurinn nær að Vestfjarðavegi í Þorskafjarðarbotni og nú að Eyri í Seyðisfirði. Í þáltill. til vegáætlunar, sem lögð var fram á síðasta Alþingi, var gert ráð fyrir breytingum á Djúpveginum þannig, að hann yrði lengdur frá Eyri í Seyðisfirði um Álftafjörð, um Súðavík á Vestfjarðaveg í Skutulsfirði. Á öllu þessu svæði, úr botni Þorskafjarðar og að Vestfjarðavegi í Skutulsfirði, eru margháttuð og brýn verkefni í vegamálunum. Og það er ekki hægt að segja í raun og veru, að Djúpveginum sé lokið, fyrr en búið er að leggja varanlegan veg yfir Þorskafjarðarheiði eða þá aðra heiði, sem kann að vera valin sem framtíðarleið.

Herra forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessum atriðum, sem ég hef hér drepið á. En ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann hefur gert ráðstafanir til þess, að það verði greiddar á þessu ári 25 millj. kr. til áframhaldandi framkvæmda í Djúpvegi á þessu sumri upp í væntanlegt fé af happdrættislánunum. Það, sem nú í dag er þýðingarmest, er einmitt það, að ekki verði nein töf á framkvæmdum í sumar og að happdrættisbréfin verði síðan gefin út eins fljótt og kostur er. Ég tel eðlilegt, að þessu máli sé flýtt með eðlilegum hætti, þannig að það geti legið fyrir fullbúin löggjöf um þetta þýðingarmikla mál.