08.08.1974
Neðri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Efni þessa frv., sem er staðfesting á brbl. frá 21. maí, er bráðabirgðalausn á nokkrum hluta þess vanda, sem steðjar að efnahag og atvinnulífi þjóðarinnar. Það felur í sér hemlun verðlags, bindingu kaupvísitölu, bindingu á fiskverði, launum bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvöru og ákvæði um fjárfestingarsjóði, að þeir skuli lána út fé með sambærilegum skilmálum og þeir hafa tekið að láni, þannig að verðtryggingin megi einnig ná til ákveðins hluta hvers láns í tilteknum lánaflokkum. Auk þess er þetta frv. byggt á verulega auknum niðurgreiðslum vöruverðs, þó að það sé ekki beint tekið fram í frv., en þó gert ráð fyrir í því og á þessu byggt.

Þessi brbl. eru vissulega vitnisburður um mikil vandamál, sem að þjóðinni steðja. Og þessi vandamál eru fyrst og fremst stórfelldur hallarekstur þjóðarbúsins eða þjóðhagslegur halli, eins og bankastjóri Seðlabankans komst að orði í sjónvarpi í gær. Þetta ástand stafar auðvitað af því, að innflutningur hefur verið að undanförnu miklu meiri en útflutningur, svo að þar hallast stórlega á. Þar hallast svo mjög á, að gert er ráð fyrir því í spám hinna kunnugustu manna, svo sem seðlabanka- og hagrannsóknastjóra, að vöruskiptahalli verði yfir 8 þús. milljónir á þessu ári eða 8 300 millj., eins og hin síðasta spá er. Lántökur er gert ráð fyrir að verði óvenjumiklar á þessu ári og í rauninni í hámarki, og munu þær jafna að töluverðu leyti þennan mikla vöruskiptahalla. Samt sem áður verður verulegur greiðsluhalli í heild, og gengur því stórlega á gjaldeyrissjóðinn.

Skýringar eru auðvitað til ýmsar á þessu ástandi, bæði miklar verðhækkanir á erlendum vörum og alveg sérstaklega á olíu, svo að skiptir fyrir íslenska þjóðarbúið milljörðum á þessu ári. Hins vegar hefur almennur vöruinnflutningur verið miklu meiri en útflutningurinn og þjóðarbúið í heild leyfir. Þetta ástand hefur auðvitað komið mjög fram í stöðu gjaldeyrissjóðsins, sem hefur farið mjög minnkandi á þessu ári. Í júnílok í fyrra var gjaldeyrissjóðurinn 6 781 millj., en er nú í júnílok 3152 millj. Hér hefur því gjaldeyrissjóðurinn á einu ári lækkað um meira en helming, og nú um þessar mundir er svo komið að sögn bankastjóra Seðlabankans, að gjaldeyrissjóðurinn nægir ekki nema fyrir eins mánaðar innflutningi, — í stað þess, ef vel ætti að vera, þá þyrfti hann að nægja fyrir 3–4 mánaða innflutningi. Ef litið er aðeins á þróun gjaldeyrissjóðs á þessu ári, kemur í ljós, að gjaldeyrissjóðurinn hefur frá því um áramót lækkað úr 6 200 millj. niður í, eins og ég gat um, í júnílok 3152 millj. kr.

Það er ljóst, að hér verður að spyrna við fótum og finna leiðir til að snúa við þessari þróun. Auk þessarar myndar af viðskiptunum gagnvart útlöndum er einnig ljóst, að aðalatvinnu vegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, er að verulegu leyti rekinn með halla, einkum að því er snertir frystiiðnaðinn, frystihúsin og togarana, þar sem hjá báðum þessum aðilum er um verulegan halla að ræða. Ef litið er á hin svokölluðu peningamál, eins og það er kallað af sérfræðingunum, þ.e. bankakerfið og starfsemi bankanna, útlán og innlán, þá hefur hér verið og er mikil peningaþensla, eins og segir í skýrslu hagrannsóknastjóra, og útlánaþensla bankanna meginuppspretta peningaþenslunnar. Það er líka ljóst, að staða bankanna gagnvart Seðlabankanum hefur hríðversnað á þessu ári.

Lausafjárstaða þeirra er slík, að hún hefur aldrei fyrr verið jafnslæm og hefur versnað um nokkra milljarða á þessu ári.

Það þarf ekki fleira upp að telja til að minna á það mikla hættuástand, sem hér er á ferðinni og sérfróðir menn hafa bent á og nú síðast í gærkvöld formaður bankastjórnar Seðlabankans, og ástandið haldi áfram að versna. Verðbólgan er meiri hér en hún hefur verið áður og verður að finna ráð til að draga úr henni stórlega. Þetta er allt með þeim hætti, að veruleg hætta er á því, áður en langt um líður, að samdráttur verði í atvinnulífinu, sem gæti leitt af sér atvinnuleysi, sem auðvitað má ekki fyrir koma.

Það, sem hér hefur í rauninni gerst, er í stuttu máli, að þjóðin hefur um hríð eytt meira en hún hefur aflað, þjóðarútgjöldin stefna langt fram úr framleiðslugetu á þessu ári. Spurningin er þá: Hvað á að gera til að stemma hér stigu við og reyna að koma hlutunum á réttan kjöl? Fyrst er auðvitað að gera sér grein fyrir vandanum, viðurkenna hann og reyna að gera sér ljósar orsakir hans og gera grein fyrir þeim úrræðum, sem helst eru vænleg til bóta, og síðast, en ekki síst, að stjórnvöld hafi þá þrek og manndóm til þess að framkvæma þær aðgerðir.

Ég skal ekki á þessu stigi fara ítarlega út í þessi mál, en aðeins minna á, að auðvitað er eitt fyrsta og aðalverkefnið að gera ráðstafanir til þess að draga úr hinum mikla halla gagnvart útlöndum og stefna að því að ná jöfnuði í þeim viðskiptum. Það þarf að treysta og efla gjaldeyrissjóðinn, sem er algjör forsenda fyrir jafnvægi í efnahagsmálum, velgengni atvinnuveganna og lánstrausti okkar erlendis. Það þarf að sjálfsögðu að reyna að koma atvinnurekstri þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, þannig að hann geti aftur borið sig og borið sig með þeim hætti, að hann geti sjálfur safnað nokkru fjármagni til að byggja sig upp, en ekki sé svo að honum kreppt, að hvað sem gera þarf til umbóta eða aukningar í atvinnurekstri, þá þurfi að sækja til banka og lánastofnana um lánsfé, því að sá skortur, sem atvinnureksturinn hefur orðið við að búa um nokkurn tíma á eigin fjármagni til uppbyggingar, er ein af ástæðunum fyrir því, að svo hefur gengið úr skorðum í bankakerfinu og peningamálum eins og raun ber vitni.

Til þess að koma atvinnurekstrinum á heilbrigðan grundvöll spyrja auðvitað margir, hvort gengisbreyting sé nauðsynleg. Þá er þess fyrst að geta, að síðan um áramót hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um nær 15%. Líka er vitað; að í þeim viðræðum, sem fara fram nú milli nokkurra stjórnmálaflokka um myndun stjórnar, hefur veríð rætt um hugsanlega gengislækkun til viðbótar þessu, sem gerst hefur á fyrri helmingi ársins. Um þetta skal ég ekkert dæma á þessu stigi. Hins vegar er rétt að vitna í þessu sambandi í ummæli Seðlabankans og hagrannsóknastjóra í einni af þeim skýrslum, sem frá þeim hafa komið, þeim nýjustu, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fram hjá þeirri staðmynd er ekki hægt að komast, að gengi krónunnar á hverjum tíma hlýtur aðallega að markast af afkomu atvinnuveganna. Þegar yfir lengri tíma er litið og horft er fram hjá áhrifum afla- og verðsveiflna, er það raunverulega þróun innlends verðlags í samanburði við erlent, sem ákveður þróun gengisins.“

Í sambandi við gengismálin er vert að hafa í huga þessi sjónarmið Seðlabankans og hagrannsóknastjóra. Þá er ljóst, að þær víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, sem átt hafa sér stað alllengi hér á landi eru ein af orsökum þess vanda, sem við er að glíma. Í þessari sömu skýrslu, sem ég minntist á, er lögð á það áhersla, að frumskilyrði þess, að takast megi að vekja aftur traust almennings á verðgildi peninga og gengi krónunnar og koma hlutum í lag, er, að takast megi að hemja á varanlegan hátt víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags.

Ég býst við, að það sé öllum orðið ljóst, bæði stjórnmálamönnum og forustumönnum launþega og launþegunum ekki síst sjálfum, að þær sjálfkrafa víxlhækkanir, sem nú eru, eru háskalegar fyrir atvinnulífið, fyrir þjóðfélagið í heild og hafa ekki komið launþegum að því gagni, sem sumir kunna áður að hafa talið. Stundum er á það minnst, að kaupgetan í þessu landi sé of mikil, og það er ekki nýtt fyrirbæri, að á þá lund sé mælt. Áður fyrr var stundum um það talað, að þyrfti ýmist að draga úr kaupgetu, ef hún væri of mikil, eða eins og það var orðað að loka hana inni, þ.e.a.s. með innflutningshöftum.

Ég held, að þetta tal um innilokun kaupgetu eða að draga úr kaupgetu sé að mörgu leyti og í meginatriðum á miklum misskilningi byggt. Það, sem þarf að gera, er fyrst og fremst að reyna að hafa áhrif á ráðstöfun kaupgetunnar, þ.e.a.s. hvernig kaupgetan er notuð. Og þá kem ég að einu atriði, sem í rauninni má segja, að sé eitt meginatriði í okkar efnahags- og fjárhagslífi, og það er, hverjar leiðir hægt sé að finna til að auka sparifjársöfnun í landinu, því að sparifjársöfnun, aukning hennar, hefur bæði þá þýðingu að draga stórlega úr verðbólgunni, draga úr innflutningi, draga úr of mikilli eftirspurn, en um leið að útvega bönkunum ráðstöfunarfé til að lána atvinnuvegunum, sem dregur þá úr þeirri þenslu, sem mjög ógnar nú atvinnulífi og fjárhagslífi okkar. Þannig hlýtur aukning sparifjár að verulegu marki að vera eitt mikilvægasta atriðið til þess að draga verulega úr verðbólgunni og þeim efnahagsörðugleikum, sem þjóðin á við að glíma.

Nú hefur Seðlabankinn fyrir nokkru hækkað vexti allverulega og hefur fært þau rök fyrir þeirri vaxtahækkun, að eitt aðalmarkmiðið með henni sé að auka sparifjársöfnun almennings. Nú er þetta auðvitað ein af þeim leiðum, sem mjög koma til greina. Það er ekki enn séð, hver áhrif þessi hækkun innlánsvaxta hefur haft eða mun á næstunni hafa á söfnun sparifjár. En það er önnur ráðstöfun, sem vafalaust yrði áhrifameiri og ég tel, að verði að beita á næstunni í einu eða öðru formi og það er verðtrygging sparifjár. Nú hafa menn stundum haft það á móti verðtryggingu sparifjár, að þá yrði um leið að verðtryggja öll útlán. Ég geri ráð fyrir því, að í fyrstu væri rétt að feta sig áfram og veita verðtryggingu á því sparifé, sem bundið er til nokkurs tíma, a.m.k. til eins eða tveggja ára. Nú er það þannig, að það mun vera um það bil fimmtungur sparifjár, sem nú er á 12 mánaða bók. Í júnílok, — það eru síðustu nákvæmar tölur, sem ég hef um spariinnlán í bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaganna, — var sparifé tæpir 26 milljarðar, en þar af eru tæpir 5 milljarðar, sem bundnir eru á eins árs bók. Ef tekinn væri upp sá háttur að verðtryggja, svo að fullnægjandi væri, það fé, sem lagt væri inn á bækur, sem bundnar væru til eins eða tveggja ára eða lengri tíma, þá er enginn vafi talinn á því, að sparifjársöfnun mundi aukast stórlega. Til þess að bankarnir eða hið opinbera gæti undir þessu staðið, þarf auðvitað að finna leiðir. Í því sambandi má benda á 5. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir í brbl., þar sem gert er ráð fyrir, að fjárfestingarlánasjóðir, sem taka lán verðtryggð, endurláni þau með sambærilegum skilmálum, og þá gert ráð fyrir, að m.a. megi láta verðtryggingu ná til ákveðins hluta hvers láns í tilteknum lánaflokkum. Út í það atriði, hvernig þetta yrði nánar framkvæmt, skal ég ekki fara hér, til þess þyrfti að fá sérfróða menn frá bönkum, atvinnugreinum og öðrum aðilum. En hér er um eitt hið mikilvægasta atriði að ræða í sambandi við okkar efnahagsmál, það er verðtrygging á sparifé, a.m.k. að einhverju verulegu leyti.

Það er ljóst, að hvaða aðgerðir sem notaðar verða í efnahagsmálunum, verður markið að vera það hiklaust og fyrsta markmiðið að tryggja fulla atvinnu, þannig að ekki komi til atvinnuleysis. En um leið þarf að hafa annað í huga, þ.e. að málum sé þannig stýrt, að ekki verði ofþensla á vinnumarkaðinum eða það, sem hagfræðingar kalla, umframeftirspurn vinnuafls. Það skapar einnig hættu á jafnvægisleysi, sem því miður er nú í okkar þjóðfélagi.

Þess er auðvitað að vænta, að Alþingi finni bestu leiðir til að ráða bót á þeim efnahagsvanda, sem fram undan er, og vitanlega er það eitt meginatriði, að Alþingi takist og það sem fyrst að mynda stjórn, sterka stjórn, sem hefur tök á þessum málum og skapar þá tiltrú og traust hjá almenningi, sem er forsenda fyrir heilbrigðu efnahagslífi.