14.08.1974
Neðri deild: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

4. mál, orkulög

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á orkulögum hefur legið fyrir á undanförnum þingum án þess að hafa fengið endanlega afgreiðslu. Ég tel hér vera um ákaflega brýnt mál að ræða, og því taldi ég rétt, að það yrði lagt fyrir þetta aukaþing, ef því væri ætlað að sinna hér einhverjum almennum verkefnum.

Á síðasta þingi var frv. þetta athugað mjög gaumgæfilega, og m.a. fjallaði lagadeild Háskólans um efni frv. og um þá spurningu, hvort ákvæði þess brytu á einhvern hátt í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, en niðurstaða lagadeildar var sú, að svo væri ekki.

Ég hygg, að það sé ekki ástæða til, að ég reki efni frv. ítarlega, ég hef gert það á undanförnum þingum, og umr., sem þá hafa farið fram, eru tiltækar prentaðar. Meginefni þess er það, að jarðhitasvæðum er skipt í háhitasvæði og lághitasvæði samkvæmt skilgreiningu, sem finnst í 1. gr. frv., og síðan er tiltekið, að ríkið eigi allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum og uppleystra efna og gastegunda, sem háhita, vatni og gufu fylgja, þó með takmörkunum, sem greinir í frv.

Á síðasta þingi var meiri hl. hv. iðnn. sammála um að mæla með samþykkt frv. með nokkrum breytingum. Þær breytingar hafa verið teknar inn í frv. í því formi, sem það er lagt fyrir hér. Enn fremur hefur verið tekin inn brtt., sem hv. þm. Gils Guðmundsson flutti og gerir ráð fyrir því að marka skýrar réttindi sveitarfélaga en gert var í upphaflega frv.

Ástæðan fyrir því, að ég tel þetta mál vera mjög brýnt, að úr sé leyst, er sú, að á okkur hvílir nú það verkefni að reyna í mjög ört vaxandi mæli að nýta innlenda orkugjafa til hvers konar þarfa hér innanlands. Þar er nærtækast að nýta innlenda orkugjafa til húshitunar og annarra hliðstæðra þarfa. Á síðasta þingi gerði ég grein fyrir því, að fyrir lægju drög að áætlunum um, að það verk væri hægt að vinna á tiltölulega skömmum tíma. Þar var ráðgert, að það kynni að vera hægt að koma á hitaveitum, þar sem það væri talið hagkvæmt, á árinu 1977 og gætu þá hitaveitur náð til 2/3 hluta landsmanna. Eins er verið að hefjast handa um að nýta varmaorku til raforkuframleiðslu, og uppi eru áform um að nýta varmaorku til iðnaðar, eins og menn þekkja frá áætlunum um sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Þessar fyrirætlanir allar gætu orðið torveldari til mikilla muna, ef það ætti að teljast heimilt, að eigendur þeirra landssvæða, þar sem slíkan háhita er að finna, gætu skattlagt þjóðarheildina í sambandi við orkuvinnslu á þeim stað.

Ég hygg, að það sé sjónarmið yfirgnæfandi meiri hluta Íslendinga, að þessi orka í iðrum jarðar sé sameiginleg eign landsmanna allra. Hún er ekki til komin fyrir tilstilli manna á einn eða neinn hátt. Þær rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið, sem gera okkur kleift að nýta þessa orku, hafa allar verið kostaðar af almannafé, og það er ætlast til þess, að þessi orka verði nýtt í almenningsþágu, þannig að ég hygg, að það stangist mjög á við siðgæðishugmyndir manna, ef það væri talið eðlilegt, að einhverjir einstaklingar gætu skattlagt þessa miklu sameiginlegu eign og hagnast á því um verulega stórar upphæðir. Þetta frv. er flutt til þess að skera úr um þetta atriði. Mér er kunnugt um það, að hugmyndir sumra þeirra, sem eiga land, þar sem um háhita er að ræða, eru þess eðlis, að ef fallist væri á sjónarmið þeirra, mundu hér um að ræða skattlagningu, sem næmi ótöldum hundruðum millj. kr.

Ég vil vænta þess, ef þetta aukaþing tekur upp störf í alvöru, þá verði fjallað um þetta mál, og geri mér vonir um, að iðnn. geti verið fljót að afgreiða málið frá sér, vegna þess að hún var búin að athuga það til hlýtar á síðasta þingi og komst þar að niðurstöðu. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.