14.08.1974
Neðri deild: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi, en varð þá eigi útrætt, vegna þess að þinghaldi lauk þá með næsta skjótum hætti. Hins vegar er hér um að ræða vandamál um fjárhagsafkomu Rafmagnsveitna ríkisins, sem snertir mjög mikilvægt fyrirtæki, sem heyrir undir iðnrn., og þess vegna taldi ég sjálfsagt, að aukaþing fjallaði um þetta vandamál, ef því væri ætlað að sinna öðru en formlegum störfum, og þess vegna hefur þetta frv. verið lagt hér fram.

Fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins eru gamalkunnugt fyrirbæri hér í sölum Alþingis. Rafmagnsveitum ríkisins var í upphafi ætlað að tryggja frumkvæði af hálfu ríkisvaldsins til þess að koma raforku til hinna dreifðu byggða á Íslandi. Það átti að stuðla að því, að landsmenn allir ynnu sameiginlega að því að rafvæða landið, og þetta hefur tekist á ákaflega myndarlegan hátt á síðustu tæpum 30 árum. Ég efast um að nokkurs staðar í víðri veröld sé raforku dreift svo mjög til landsmanna í jafnstrjálbýlu landi og raun er á hér á Íslandi. Hins vegar hefur þetta að sjálfsögðu ævinlega haft æðimikinn kostnað í för með sér, og hér á Alþingi hefur bæði orðið að taka ákvarðanir um fjárframkvæmdir og fjárframlög úr opinberum sjóðum til þeirra þarfa og eins að taka á rekstrarvandamálum þessa fyrirtækis.

Árið 1965 var ákveðið að reyna að létta undir með rekstri fyrirtækisins og draga úr mismun á raforkuverði innan kerfis Rafmagnsveitnanna og annars staðar með því að leggja á verðjöfnunargjald. Það var föst upphæð, 35 millj. kr. Þessi fasta upphæð hélt að sjálfsögðu ekki verðgildi sínu í þeirri verðbólgu, sem þá var hér á Íslandi og hefur raunar alltaf verið, síðan stríði lauk, og því þurfti að endurskoða þessa upphæð 1969, og hún var þá tvöfölduð upp í 70 millj. En eftir það hefur farið á sömu leið. Raungildi þessarar upphæðar hefur farið sífellt minnkandi og fjárhagsafkoma Rafmagnsveitnanna orðið að sama skapi erfiðari með hverju ári.

Árið í fyrra, 1973, varð mjög erfitt og áætlanir, sem þá voru gerðar um árið 1974, bentu til þess, að það ástand héldi áfram. Það varð til þess, að ég skipaði sérstaka nefnd til að kanna fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins og hvernig úr þeim skyldi bætt. Í þeirri nefnd voru Bjarni Bragi Jónsson forstöðumaður í Framkvæmdastofnun, og var hann form. nefndarinnar, Hörður Sigurgestsson deildarstjóri í fjárlaga- og hagsýsl-stofnun og Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum. Nefndin skilaði áliti, og var síðan ákveðið að semja frv. það, sem hér liggur fyrir, á grundvelli þeirra till., sem n. hafði flutt.

Ég vil geta þess, að í grg. með frv. er greint frá rekstraráætlun Rafmagnsveitna ríkisins fyrir þetta ár, en þær áætlanir voru endurskoðaðar í maímánuði, og þar komu fram nokkuð aðrar tölur en eru í frv. Í þeirri rekstraráætlun, sem gerð var í maí í ár, er gert ráð fyrir því, að rekstrarhalli Rafmagnsveitna ríkisins á þessu ári verði 349 millj. kr., en ekki 272 millj., eins og gert var ráð fyrir í áætlun þeirri, sem er prentuð í aths. með frv. Þessi hækkun stafar af því, að gjaldamegin hefur orðið veruleg hækkun á liðnum laun og annar kostnaður, eða 115 millj. kr., og orkukaup 99 millj., en gjaldskrá í raforku í heildsölu hækkaði sem kunnugt er um 38% í maí. Tekjumegin hefur orðið nokkur hækkun á orkusölu í heildsölu af sömu ástæðum og ég var nú að segja frá. Orkusala í smásölu hefur hækkað. Hún hækkaði hjá Rafmagnsveitum ríkisins um 30% í maí, og hækkun af þeim völdum er 13 millj. kr. En engu að síður sýnir áætlunin frá því í maí, að rekstrarhallinn verður allmiklu hærri en reiknað var með í ársbyrjun.

Það er hætt við, að frv. þetta, þótt að lögum yrði, mundi ekki skila Rafmagnsveitunum miklum tekjum á þessu ári, því að gert er ráð fyrir því, að gjaldið verði lagt á frá þeim tíma, sem lögin taka gildi, en verði áætlað við fyrsta álestur, og því má búast við því, að það geti tekið allt að þremur mánuðum að innheimta gjaldið vegna mismunandi álestrartíma, og því væri óvarlegt að gera ráð fyrir því, að þetta gjaldið vegna mismunandi álestrartíma, og því Rafmagnsveitna ríkisins á þessu ári.

Hins vegar á sú tilhögun, sem gert var ráð fyrir í frv., þ.e.a.s. 13% verðjöfnunargjald af seldri raforku, viss prósenta, að tryggja það, að þessi stuðningur við Rafmagnsveitur ríkisins, fólkið, sem býr í strjálbýlinu, geti haldist nokkurn veginn, þó að breytingar verði á verðlagi í landinu.

Ef litið er til ársins 1975, gerðu Rafmagnsveitur ríkisins ráð fyrir því í fjárlagatill. sínum, að halli næmi 243 millj. kr., en þar hefur þó ekki verið tekið tillit til launahækkana, sem þegar er vitað um, vegna flokkatilfærslna o.fl. samkv. kjarasamningum. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að gjaldstofn verðjöfnunargjaldsins sé 2 milljarðar 250 millj. kr., og það hefði skilað verðjöfnunargjaldi á ársgrundvelli, sem nam 292 millj. Hins vegar hækkaði raforka í verði í maís.l., og meðalhækkun þar mun hafa verið um það bil 21%. Við það hefur þessi gjaldstofn hækkað upp í 2.7 milljarða rúma og verðjöfnunargjaldið gæti þá orðið á árinu 1975 353 millj., og samkv. áætlunum ætti það að nægja til þess, að endar næðu saman hjá þessu fyrirtæki.

Ég vil vekja athygli á því, að jafnhliða því sem gert er ráð fyrir, að verðjöfnunargjald verði tekið á þennan hátt af seldri raforku á síðasta stigi viðskipta, af sölu til notenda, þá félli að sjálfsögðu niður fyrra verðjöfnunargjaldið, sem nemur 70 millj. kr., þannig að það mun láta nærri, að þetta sé 10% hækkun, en ekki 13%, eins og þarna er um rætt. Ég hygg, að hækkun á vísitölu af þessum sökum sé um það bil fimmtungur úr vísitölustigi. Þær umræður, sem hér urðu við 1. umr. á síðasta þingi, hafa verið prentaðar, þær eru í 21. hefti umræðuparts þessa árs, og þar geta menn kynnt sér það, sem þá var sagt. Ég sé því ekki ástæðu til þess að rekja efni þessa frv. frekar, en legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.