14.08.1974
Neðri deild: 5. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræður um þetta mál við 1. umr. Frv. shlj. þessu var flutt á síðasta þingi í aprílmánuði, var vísað til iðnn., en fékk ekki afgreiðslu þar. Það reyndi reyndar ekki á það, hver afstaða manna var í nefndinni, vegna þess að það var ekki boríð upp. Hins vegar bárust nokkrar umsagnir um frv., og þær voru ekki allar jákvæðar, sumar a.m.k. mjög neikvæðar.

Ég verð að segja, að það er alveg nauðsynlegt að rétta við fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins hafa lengi átt í fjárhagserfiðleikum og þá ekki síst vegna þess hlutverks, sem Rafmagnsveiturnar gegna, sem oft hefur verið lýst, og blandast því engum hugur um, að það þarf að rétta við fjárhag Rafmagnsveitnanna. Vegna þess, hversu erfiður fjárhagur Rafmagnsveitnanna hefur oftast verið, hafa menn verið að velta því fyrir sér, hvort reksturinn væri nógu hagkvæmur, og í tilefni af því hafa verið skipaðar n. til þess að endurskoða og athuga, hvort koma mætti þessum málum í hagkvæmara horf. Það hefur verið skipuð stjórn yfir Rafmagnsveiturnar til þess að gæta hagsmuna í rekstri. En það er margt, sem bendir til þess, að það sé eðlilegt, að þessi rekstur sé erfiður, og ég skal ekkert dæma um það, mig vantar kunnugleika til þess, hvort farið hefur verið út í framkvæmdir sérstaklega nú, sem eru óarðbærar og eru baggi á Rafmagnsveitunum. Það hefur verið talað um línuna milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Ég las það hins vegar í fréttum einu sinni í sumar, að það væri kominn straumur á þessa línu og að hún gæfi nokkrar tekjur.

En hvað sem um það má segja, þá er það ekki þetta, sem ræður úrslitum, og það dugar nú ekkert annað en að horfast í augu við vandann. Úr þessu verður að bæta. Þetta var gert 1965 með því að leggja þá á 35 millj. kr. verðjöfnunargjald. Það var ekki tekið í smásölu, heldur í heildsölu. Og það var aftur gert 1969, og verðjöfnunargjaldið var þá samtals 70 millj. Þetta þótti nægilegt þá til þess að bjarga málunum við. En eins og var sagt áðan hefur verðbólgan magnast, og þótt 70 millj. nægðu 1969, þá duga þær ekki nú. Þess vegna er eðlilegt, að það sé flutt frv. til að reyna að koma þessum málum í lag. Það er sagt, að það sé ekki heppilegt að hafa fasta upphæð, vegna þess að hún nægi ekki til lengdar, þegar verðhækkanir eru. Það má segja, að það sé eðlilegt, að það nægi ekki, á meðan rekstrarhalli er og meðan miklar verðhækkanir eru. En eigi að síður mætti hafa fast gjald með þeirri ákvörðun, að það væri endurskoðað árlega eða annað hvert ár eftir þörfum. Ég er þó ekkert að fullyrða það nú, að það skuli endilega vera í því formi, en það þarf ekki að útiloka, að það geti verið og að það sé ef til vill heppilegra en prósentugjaldið.

Það er enginn vafi á því, að það má benda á ýmsa galla í sambandi við prósentugjaldið, m.a. að þær rafveitur, sem hafa hæsta gjaldskrá, borga hæst gjald, sem er alveg öfugt við það, sem ætlast er til, þegar talað er um verðjöfnun.

Í öðru lagi er talað um, að það eigi að skila þessu gjaldi eins og söluskatti mánaðarlega.

Ég er hræddur um, að það verði dálítið erfitt í framkvæmd í strjálbýlinu. Það er ekki lesið á gjaldmælana nema ársfjórðungslega, og greiðsla fer ekki fram oftar en ársfjórðungslega. Ef þetta ætti að framkvæma mánaðarlega, kostar það aukna vinnu og stóraukinn rekstrarkostnað. Meira að segja hér í þéttbýlinu hefur ekki verið talið fært að lesa á mánaðarlega. En það er ekki hægt að skila gjaldinu mánaðarlega, nema álesturinn fari fram mánaðarlega. Þarna held ég, að hafi verið athugunarleysi hjá þeim sérfræðingum, sem sömdu þetta frv. En það getur n. athugað, og er sjálfsagt að gera sér grein fyrir því, hvort hægt er að finna aðra leið heppilegri til þess að jafna á milli og gera það, sem nauðsynlegt er.

Hallinn hjá Rafmagnsveitum ríkisins er ekki til kominn nú vegna þess, að .gjaldskráin hafi ekki verið hækkuð. Hún hefur veríð hækkuð meira hjá Rafmagnsveitum ríkisins heldur en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það hefur alltaf verið hærra verð hjá Rafmagnsveitum ríkisins heldur en Rafmagnsveitu Reykjavíkur og ýmsum öðrum rafveitum, sem eru utan við rafveitur ríkisins, og hefur vitanlega veríð óánægja með það. En allir, sem í stjórn hafa verið, hafa viljað stefna að því að jafna þarna á milli. Á meðan rafvæðing sveitanna stóð yfir, og hún stendur reyndar enn yfir, þótti ekki fært að ráðast í þessa jöfnun, og bilið var þess vegna alltaf nokkuð mikið. En nú hefur það aukist allmikið frá 1971 samkv. þeirri gjaldskrá, sem ég hef. Það má t.d. nefna vélataxta, að gjaldskrá Reykjavíkur hefur hækkað um 100.6%, en hjá Rafmagnsveitum ríkisins hefur gjaldskráin hækkað um 126.5%. Heimilistaxtar hafa ekki hækkað eins mikið, munurinn er ekki eins mikill þar, en hann er þó nokkur. Þetta stefnir í öfuga átt og öðruvísi en hæstv. iðnrh. hafði ætlað sér, þegar hann tók við þessum málum. Heimilistaxti í Reykjavík hefur hækkað á þrem árum um 109.1%, en hjá Rafmagnsveitum ríkisins um 120.3%.

Í seinni tíð hefur verið stefnt að því að nota rafmagn til upphitunar húsa, og það er stefna, sem allir hafa talið vera þjóðholla og eðlilega. Fyrir austan Fjall, má ég segja, að þar sé varla byggt íbúðarhús öðruvísi en þannig, að það sé hitað upp með rafmagni. Það hefur verið erfitt að fá rafmagn til upphitunar eldri húsa, en það hefur fengist til nýrra húsa. Þetta hefur verið talið hagkvæmt þjóðhagslega, og rafmagn til húshitunar hefur ekki fram undir þetta verið dýrara en önnur hitun. En nú er svo komið, að rafmagnshitun til húsa er orðin dýrari en með olíu og þá náttúrlega miklu dýrari en hjá Hitaveitunni. Ég held, að þetta hljóti að vera óviljaverk, vegna þess að það getur ekki verið ætlunin að koma þessum málum í það horf, að menn hætti að sækjast eftir því að fá rafmagn til húshitunar. Olían er greidd niður til muna til húshitunar, en rafhitunin hefur ekki enn verið greidd niður, enda þótt það séu ákveðnar 50 millj. í því skyni, sérstaklega þar, sem dísilstöðvar eru. En þessi hækkun á rafmagni til húshitunar gengur yfir allt. T.d. hér á rafveitusvæði Landsvirkjunar hefur rafmagn til húshitunar hækkað frá því í febr. um ca. 97–98% og er jafndýrt að nota rafmagn núna til húshitunar eða jafnvel aðeins dýrara heldur en óniðurgreidda olíu. Þetta er mál, sem þarf áreiðanlega endurskoðunar við.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að ríkisstj. fái heimild til þess að taka að sér að greiða skuldir Rafmagnsveitnanna, og er það sennilega alveg óhjákvæmilegt, 147 millj. + 130 millj., og það er spurning, hvort þetta nægir.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða meira um þetta mál. En ég vil vekja athygli á því, að það reyndi ekki á það á síðasta þingi, hvort frv., sem þá var flutt, hefði getað fengið samþykki Alþingis, og þótt ég sé að gera hér aths. við þetta frv. og benda á, að aðrar leiðir séu e.t.v. heppilegri, þá hef ég ekki nú neinar fastmótaðar till. í þá átt, en tel nauðsynlegt, að þetta mál verði skoðað rækilega, og tel alveg víst, að Alþingi hafi skilning á því, að það þarf að lagfæra hag Rafmagnsveitna ríkisins og það þarf að stefna að því a.m.k. að minnka bilið á milli orkugjaldsins hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hjá öðrum, sem selja raforku.