20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þegar samkomulag varð um það í ríkisstj., að brbl. frá 21. maí yrðu sett, þau sem hér eru nú til afgreiðslu í þinginu, var að sjálfsögðu gert ákveðið samkomulag milli stjórnarflokkanna um nokkur þýðingarmikil atriði varðandi þetta mál.

Eins og kunnugt er, átti kaupgjaldsvísitalan samkv. kjarasamningum að hækka um 15.5 stig 1. júní s.l., en með brbl. var þessari hækkun skotið á frest, en tilteknar aðrar ráðstafanir gerðar í staðinn. Megingrundvöllur þessa samkomulags, sem gert var, var um það, að á þessu tímabili, sem brbl. áttu að gilda, skyldi auka niðurgreiðslur á almennu vöruverði sem næmi um 8 vísitölustigum. Auk þess var svo ákveðið, að á gildistíma laganna skyldi ekki verða um neinar aðrar verðhækkanir að ræða en þær, sem væru algjörlega óhjákvæmilegar. Í sambandi við þetta samkomulag var dæmið sett mjög greinilega upp af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins í sérstöku skjali, sem hún lét frá sér fara og dagsett er 20. maí eða daginn áður en brbl. vori sett, og þar kemur alveg skýrt fram, að sá vinningur, sem átti að koma launþegum til góða til viðbótar við niðurgreiðslurnar, var m.a. fólginn í því, að hækkun á búvöruverði vegna hækkunar á rekstrarkostnaðarliðum, sem nam 9.5% á verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara eða 2.2 K-vísitölustigum, átti ekki að koma til framkvæmda, á meðan lögin væru í gildi. Þetta var sem sagt fært upp sem ein meginröksemdin fyrir því, að þetta kæmi launþegum til góða. Um þetta verður ekki deilt, því að þetta liggur fyrir í opinberu plaggi frá þessari stofnun.

Við, sem að þessu samkomulagi stóðum, höfðum að sjálfsögðu samráð við fulltrúa í launþegasamtökunum í landinu, en hér var verið að fjalla um mjög þýðingarmikið hagsmunamál þeirra. Við drógum ekkert undan í þessum efnum, og menn sáu, um hvað samkomulagið var gert. Því er það, að vegna þessa samkomulags hefur það ekki verið samþykkt í ríkisstj. þar til nú í morgun, að þessi verðhækkun yrði látin koma út í verðlagið, og það hefur verið staðið við það, sem gert var ráð fyrir í þessum brbl., að standa gegn almennum verðhækkunum eins og tök væru á. Það hafði verið gert ráð fyrir því, að K-vísitalan gæti hækkað á gildistíma laganna um 0.7 K-stig, og reynslan hefur orðið, að á þessu tímabili hækkar hún um 0.9 K-stig eða lítillega meira en það, sem spáð hafði verið.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun gerðist það hins vegar, að þar var samþ. með 3 atkv. gegn 2, þ.e.a.s. ráðh. Framsfl. samþ. með 3 atkv. og 2 atkv. okkar Alþb-manna voru þar á móti, að þessi hækkun yrði látin ganga út í verðlagið, en ráðh. SF sat hjá og gerði sérstaka bókun um afstöðu sína.

Það fer ekkert á milli mála, að ef þessi hækkun verður látin ganga út í verðlagið, án þess að nokkrar aðrar ráðstafanir komi á móti, þá er verið að raska því samkomulagi, sem gert var varðandi setningu þeirra brbl., sem hér eru nú til afgreiðslu. Þá er verið að taka upp nýjan grundvöll. Það er grundvöllur Framsfl. og Sjálfstfl., sem sýnilega á að gilda næsta mánuð.

Á þessum ríkisstjórnarfundi fluttum við ráðh. Alþb. till. um, að þessi búvöruverðshækkun yrði látin ná fram að ganga að því leyti til, að bændum skyldi greidd sú fjárhæð, sem hér er um að ræða, en greiðslan yrði greidd úr ríkissjóði þann tíma, sem hér er um framlengingu að ræða. En ráðh. Framsfl. felldu þessa till. með 3 atkv. gegn 2, því að ráðh. SF sat þá einnig hjá. Það var því í rauninni ekki ágreiningur um það, að bændur gætu fengið hækkun á rekstrarkostnaði sinum á þessu tímabili, þegar nú er verið að ræða um framlengingu á þessu bráðabirgðasamkomulagi. Það var því ekki ágreiningur um það, heldur um það, hver ætti að borga þá upphæð, sem hér væri um að ræða. Þessi 2.2 K-stig geta þýtt, ef framlengingin kemur til með að gilda í heilan mánuð, en það er lengsti framlengingartími, sem gert er ráð fyrir, þá getur þessi fjárhæð kostað á milli 40 og 50 millj. kr. En með því að ráðh. Framsfl. hafa fellt þessa till. okkar í ríkisstj., tel ég, að þeir séu að standa að nýju samkomulagi og við nýjan aðila, sem breyti þeim grundvelli, sem byggt var á við setningu brbl.

Við Magnús Kjartansson höfum því ákveðið að flytja brtt. við þær till., sem hér liggja fyrir, varðandi afgreiðslu þessa frv. Okkar brtt. er við 1. gr. frv., 2. málsgr., og leggjum við til, að svo hljóðandi viðbót komi við núverandi 2. málsgr. 1. gr.: „Sú hækkun á verði landbúnaðarvara, sem heimiluð verður á gildistíma L, skal greidd niður úr ríkissjóði.“ Það er sem sagt lagt til, að staðið verði við þann grundvöll, sem byggt var á við setningu þessara laga, að þessu verði ekki hleypt út í verðlagið á framlengingartímanum. En verði frá því vikið, er alveg augljóst, að hér er um nýtt samkomulag nýrra aðila að ræða, sem byggja á öðrum grundvelli en áður var byggt á.

Við höfum ekkert við það að athuga, að lögin séu framlengd um einn mánuð. Ef þetta yrði samþykkt um leið, er ekkert við því að segja, og við munum ekki standa gegn því. En við getum ekki stutt framlengingu um heilan mánuð til viðbótar á gjörsamlega breyttum grundvelli. Það hefur hins vegar komið fram í þessum viðræðum og kom fram ljóslega hjá hæstv. forsrh. á ríkisstjórnarfundinum í morgun, að ætlunin er að halda áfram hinu meginskilyrðinu, sem þetta samkomulag byggðist á, þ.e.a.s. hinum almennu niðurgreiðslum á búvöruverði, á meðan þessi lög eru í gildi. Sömuleiðis er ætlunin að halda áfram niðurgreiðslu á olíu, og verður því ekki um neina röskun varðandi þessi atriði að ræða.

Ég vil svo benda á, að það er augljóst, að hér verður ekki um að ræða hækkun á búvöruverði um 9.5%. Á mjólk og kjöti eða þeim vörum, sem hér eru fyrst og fremst á innanlandsmarkaði, hlýtur að vera um að ræða hækkun, sem kemur til með að nálgast 20%, vegna þess við hvaða grundvöll er miðað, svo að hér er auðvitað um mjög verulega hækkun að ræða og því alveg greinileg þáttaskil frá því samkomulagi, sem áður var hér í gildi.

Það sem sagt stendur ekki á okkur Alþb.- mönnum að fylgja því, að bændur fái bætur fyrir þennan aukna kostnað á því tímabili, sem hér er um að ræða. En við viljum, að það samkomulag standi áfram, sem gert var, á meðan þessi lög eiga að vera í gildi. Annars er hér um breytta stefnu að ræða.

Ég legg svo fram skriflega brtt. frá okkur Magnúsi Kjartanssyni þessa till., sem ég hef þegar gert grein fyrir. Till. mín er skrifleg og of seint fram komin, og óska ég eftir, að leitað verði afbrigða fyrir till. En að sjálfsögðu fer afstaða okkar til þessa máls eftir því, hvaða afgreiðslu þessi till. okkar í málinu fær.