20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það fer ekki milli mála, að sem stendur ríkir millibilsástand í stjórnmálum. Beðist hefur verið lausnar fyrir ríkisstjórn, sem þó situr enn að beiðni forseta, sökum þess að eigi hefur enn verið myndaður samstæður þingmeirihluti, sem staðið gæti að baki nýrri ríkisstj. En eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði áðan: „Ljóst er, að þessi nýja ríkisstj., sem beðið hefur verið eftir, að samstæða næðist um milli þingflokka, frá því að kosningar fóru fram í sumar, er nú í burðarliðnum.“

Þegar ljóst var orðið af meðferð mála á fundi hv. fjh: og viðskn. í gær, að þeir flokkar, sem nú ræða myndun ríkisstjórnar, höfðu komið sér saman að því marki, að þeir ætla að standa sameiginlega að breyt. á brbl. um viðnám gegn verðbólgu, þá tel ég sýnt, að það sé merki þess, að skammt sé að bíða, að frá stjórnarmyndun þeirra flokka verði gengið. Því var það, að þegar till. kom fram um það á ríkisstjórnarfundi í morgun að láta koma til framkvæma þá hækkun á búvöruverði, sem ekki hefur hlotið samþykki ríkisstj., frá því að yfirnefnd gekk frá henni á miðju sumri, þá lýsti ég yfir þeirri afstöðu minni, að þar sem ég gerði ráð fyrir því, að þessi tillögugerð væri vottur um stefnu þeirra flokka, sem virtust þegar hafa komið sér saman um stjórnarmyndun, þótt frá henni væri ekki formlega gengið, þá líti ég svo á, að þeir flokkar, sem tvímælalaust hafa þingmeirihluta að baki sér, skyldu ráða ákvörðun um þetta mál og því mundi ég ekki láta það til mín taka í ríkisstjórninni.