20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það virðist nú ljóst af þeim ummælum, sem hæstv. forsrh. viðhafði hér áðan sem svar við einni af þeim spurningum, sem ég beindi til hans og varðaði hækkun á búvöruverði, að það er ekki um að ræða óbreytta framlengingu þeirra brbl., sem sett voru í vor. Þar er breytt grundvallaratriði, sem ég tel, að skipti svo miklu máli, að ég a.m.k. fyrir mitt leyti tel mig ekki geta staðið að slíku eftir þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., að þessi hækkun eigi að koma til framkvæmda, þrátt fyrir það að kaupgjald í landinu eigi að vera óbreytt. Ég hrósa happi yfir því að vera svo forsjáli vegna þess andrúmslofts, sem ríkti á fjhn.-fundi í gær, að hafa sett mitt nafn á téð nál. með fyrirvara. Mér fannst ég skilja það, eftir því sem fram kom á þeim fundi, að það væru allar líkur á því, að eitthvað álíka ætti að eiga sér stað, og það væri því full þörf á að fara með gát. Eftir að það liggur fyrir frá hæstv. forsrh., að þessi búvöruverðshækkun eigi að koma til framkvæmda á þeim tíma, sem brbl. gilda, ef samþ. verður að framlengja þau, þá greiði ég því ekki atkv., að brbl. verði framlengd með því fororði, sem hæstv. forsrh. hefur gefið.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta er greinilega eitt af samkomulagsatriðum þeirra stjórnmálaflokka, sem nú innan — ja, a.m.k. nokkurra daga, ef ekki nokkurra klukkutíma, birta fyrir alþjóð samkomulag um væntanlega ríkisstj. Það er því rétt, að þeir einir beri ábyrgð á því að breyta grundvelli þessara brbl. eins og hæstv. forsrh. hefur gefið í skyn að eigi að gera. Ég mun ekki að þessu yfirlýstu frá hæstv. forsrh. treysta mér til að greiða atkv. með framlengingunni. Á því verða þeir einir að bera ábyrgð, sem það vilja viðhafa og við völdunum ætla að taka og framkvæma.