20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni meira alvörumál en svo, að menn ættu að hafa það að gamanmálum. Það, sem hér er um að ræða, er, að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, að til framkvæmda eigi að koma 9.5% hækkun á búvörugrundvelli bænda, sem þýðir verulega hækkun á landbúnaðarvöruverði, og ég tel, að sú verðhækkun, sem af þessu hlýst til neytendanna, sé ekki undir 20%, muni sennilega vera liðlega 20% að meðaltali, sem þýðir það, að sumar greinar búvöru hækka mun meira. Ef þetta er ekki rétt ályktað, vil ég gjarnan óska eftir að fá leiðréttingu á því. En samkv. þeirri reynslu, sem við höfum af hækkun í smásölu vegna hækkunar búvörugrundvallarins, þá hygg ég, að þetta sé ekki langt frá lagi. Hér er þess vegna um stóra hluti að ræða og vel að merkja, að þetta kemur verst við þá, sem minnst fé hafa handa í milli, verða þess vegna að nota stóran hluta af tekjum sínum til kaupa á þessum vörum óhjákvæmilega. Hér er því ráðist á þá, sem allra verstu aðstöðuna hafa. Ég verð að segja það, að það fer ekki á milli mála, að hér er það Sjálfstfl., sem ræður ferðinni og gerir þetta mögulegt, sá flokkur, sem hefur á Alþingi undanfarið hvað mest talað um, að níðst væri á þeim, sem minnst hefðu. Nú virðist annað upp á teningnum.

Eins og hæstv. forsrh. gat um, er þessi ákvörðun um hækkun til bændanna tekin af yfirnefnd. Það er ekki samkomulag 6 manna nefndarinnar, sem hér er um að ræða. Þessi ákvörðun er tekin af yfirnefnd, vegna þess að ekki varð samkomulag í 6 manna nefndinni. Neytendafulltrúarnir voru ekki samþykkir þessari hækkun. Rökstuðningur formanns yfirdómsins þarf ekki endilega að vera það rétta. Ég ætla ekki út af fyrir sig að segja neitt um það, hvort bændurnir eigi réttláta kröfu til þessa eða ekki. Það má vel vera, að svo sé. En með þessari ákvörðun, — og það er það, sem máli skiptir, — er kippt grundvelli undan þeim brbl., sem sett voru í maí í vor. Þetta er þungamiðja málsins.

Þó að verkalýðssamtökin hafi engan veginn samþykkt þær ráðstafanir, sem gerðar voru í vor, er ég persónulega þeirrar skoðunar, að einmitt lægst launaða fólkið hafi sæmilega getað unað þeim ráðstöfunum. En einmitt með því, sem nú er gert, er gengið alveg þvert á það, sem var aðalatriði brbl., og það var einmitt að koma til móts við þá, sem minnstar höfðu tekjurnar. Nú er það öfuga gert.

Ég greiði að sjálfsögðu atkv. með þeirri brtt., sem hér hefur verið flutt, en að henni felldri er augljóst, að ég greiði atkv. gegn framlengingu laganna, þar sem að forsendu þeirra, grundveili þeirra hefur verið rift af meiri hl. ríkisstj. í morgun.