21.08.1974
Efri deild: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 21. maí s.l., og er um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Ástæðurnar fyrir því, að þau brbl. voru gefin út á sínum tíma, koma fram í formála þeim, sem er fyrir brbl., og þær voru, að ef hefði komið til framkvæmda sú hækkun kaupgjalds og verðlags, sem er fyrirsjáanleg, þá mundi afkomu atvinnuvega; atvinnuöryggi og viðskiptastöðu landsins út á við stefnt í hættu. Þess vegna voru þessi brbl. sett um tímabundna stöðvun á kaupgjaldsvísitölu og öðru verði, og gildistími þeirra var ákveðinn til 31. ágúst með hliðsjón af því, að þá mundu tveir mánuðir vera liðnir frá kosningum. Þá voru menn svo bjartsýnir að gera ráð fyrir því, að tekist hefði að mynda stjórn á þeim tíma, sem gæti beitt sér fyrir varanlegri úrræðum í þessum efnum.

Þetta frv. hefur nú gengið í gegnum hv. Nd., og gildistími laganna hefur með þeirri breytingu, sem gerð var á því í Nd., verið framlengdur til 30. sept., þ.e. um einn mánuð.

Reynslan hefur sem sé sýnt, að þessir tveir mánuðir hafa ekki hrokkið til. Meirihluta ríkisstjórn hefur enn ekki verið mynduð, og þar af leiðandi ekki þess kostur fyrir Alþingi að koma sér saman um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Þess vegna er nauðsynlegt að fá það svigrúm, sem felst í þeirri breytingu, sem Nd. gerði á lögunum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara á þessu stigi neitt nánar út í þær ástæður, sem lágu til þess, að brbl. vora gefin út, né rekja þá forsögu, sem þar er bak við. En þetta mál er aðkallandi, m.a. vegna þess, að Hagstofan þarf á því að halda að geta gefið út með öruggri vissu nú, við hvaða kaupgreiðsluvísitölu á að miða við næstu mánaðamót. Þess vegna verð ég að fara fram á það, að hv. d. reyni að hraða afgreiðslu þessa máls, þannig að ég leyfi mér að fara fram á, að það geti hlotið endanlega afgreiðslu á morgun. En ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.