22.08.1974
Neðri deild: 8. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 9 er frv. til l. um fjáröflun til handa Vegagerð ríkisins. Hér er um að ræða að hækka þá tekjustofna, sem fyrir eru og notaðir hafa verið nú alllengi, en það eru bensínskattur, sem í ríkum mæli hefur verið notaður síðan 1963, og þungaskattur af bifreiðum, sem einnig var honum tengdur, þegar hann var á lagður. Hins vegar er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það sé engu breytt um skatta á gúmmíi til bifreiða, enda er þar um að ræða öryggistæki, svo sem kunnugt er.

Áður en síðasta Alþingi lauk, var frv., sem var mjög í svipuðu formi og þetta, borið fram á hv. Alþingi og þá í sama tilgangi, en það dagaði hins vegar uppi. Þegar Alþingi var rofið, hafði það ekki hlotið hér afgreiðslu. Þess vegna er það nú tekið upp að nýju nokkuð breytt, þar sem skatturinn er hækkaður og m.a. gert ráð fyrir því, að sú eina króna, sem átti að koma til viðbótar í byrjun næsta árs, verði tekin upp nú þegar við álagningu skattsins, sem kæmi til framkvæmda strax og frv. yrði afgreitt hér á hv. Alþingi, sem stefnt er að, að gæti orðið fyrir næstu mánaðamót.

Hér er um að ræða, eins og ég áðan sagði, fyrst og fremst tekjuöflun fyrir vegagerðina í landinu, en vegagerðin er sá málaflokkur, sem flestir landsmenn munu hafa áhuga á og viðurkenna í raun, að er hagsmunamál fyrir alla, því að tæki þau, bifreiðarnar, sem um vegina fara, eru dýr og viðhald þeirra og bensinnotkun geysilega mikið miðað við okkar vegi, eins og þeir eru nú. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að bæta vegakerfið af fullum krafti, og einn þáttur í því er sú tekjuöflun, sem hér er lögð til. Þessi tekjuöflun gefur að vísu lítið á þessu ári, vegna þess hvað frv. er seint fram komið, en hins vegar mundi það tryggja tekjuöflunina að fullu allt næsta ár og þá verður verulegt fjármagn, sem þannig kæmi til ráðstöfunar í vegina.

Jafnhliða þessu er lagt til að leggja niður ýmsa smáskatta, sem tengdir eru bifreiðum. Má um það mál segja, eins og sagt hefur verið, að það orki tvímælis, hvað á að leggja niður af sköttum, sem upp hafa verið teknir, en hins vegar er það svo í máli manna, að nauðsyn beri til að gera skattakerfið einfaldara og þurfa minni vinnu til innheimtu, og þetta er einn líður í því, því að hér er um marga skatta að ræða eða alls 38 og sumir eru það lágir, að þeir svara varla kostnaði við pappírinn, sem fer í innheimtu þeirra. Hins vegar eru aðrir, sem eru hærri, en þar er fyrst og fremst um að ræða tryggingargjald bifreiðastjóra til almannatrygginga. En í raun og veru er sá þáttur niður fallinn vegna þess, að allir bifreiðastjórar eru skyldutryggðir gegnum tryggingar þær, sem bilar þeirra verða að taka. Hins vegar ber að skoða í þessum kafla, hvort rétt sé að fella niður öll þau gjöld, sem þar er lagt til, og eru það sérstaklega skráningargjöldin, sem ég er ekki sannfærður um, að sé réttmætt að leggja niður, vegna þess að umskráningar eru tíðar og kannske gjarnan fyrir sama aðila, og er rétt að hafa á því einhvern hemil. Hins vegar finnst mér rétt, að stefna í slíku sé annað hvort, að þjónustan sé ekki seld eða þá að hún sé seld því verði, sem áætlað er að hún kosti.

Þriðja atriðið í þessu frv., sem er einnig nýmæli í sambandi við þetta frv., er að taka upp sölu á happdrættisskuldabréfum vegna hringvegar í kringum landið. Er þá hugsað, að heimildin nái til allrar útgáfu á happdrættisskuldabréfum til vegagerðar, en mundi hins vegar í hvert sinn vera tengd ákveðnum verkum, svo sem verið hefur með Skeiðarársandinn og einnig er stefnt að með Djúpveginn. Eins og ég gat um í ræðu minni hér í vor, ber brýna nauðsyn til að tengja saman með betri vegi en áður hefur verið Vesturland til Norðurlands allt til Akureyrar, því að það er afar óeðlilegt, svo mikil umferð sem fer á milli þessara staða, að þar sé í raun og veru ekki kominn vegur með varanlegu slitlagi, eins og malbiki eða olíumöl. Áfram er svo haldið með Austurveg, og það hefur best sýnt, hvað þetta verk er þarft, þar sem umferðin um veginn austur hefur gjörbreyst við þá vegabót, sem gerð hefur verið.

Í sambandi við þessi happdrættisskuldabréf er rétt að geta þess, að ekki er enn þá lokíð að greiða upp kostnað við vegagerðina á Skeiðarársandi, og mun þurfa eitthvert fjármagn til viðbótar þeim heimildum, sem þegar liggja fyrir þar um.

Þetta frv. hefur því, eins og ég áður sagði, fyrst og fremst tekjuöflun inni að halda og þá breytingu, sem þar er gerð, og möguleikana til þess að nota happdrættisskuldabréf í þágu vegagerðar landsins í ríkara mæli en verið hefur, en það hefur hins vegar gefist vel, miðað við það, sem reynslan hefur sýnt af vegagerðinni á Skeiðarársandi.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um þetta mál fleiri orð. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, — mál. sem yfirleitt á alla hv. þm. sem stuðningsmenn. Þó að menn geti deilt um skattaálagningu og annað því um líkt, er ljóst, að hvorki vegir né aðrar framkvæmdir verða gerðar án fjármagns og okkur skortir verulega fjármagn til þess að koma vegagerðinni áfram, svo sem við stefnum að og nauðsyn ber til. Ég treysti því á fylgi hv. þm. í þessari hv. d. við málið og leyfi mér að biðja hv. fjh.- og viðskn., sem fær málið til meðferðar, að hraða því eftir föngum, svo að það geti fengið hér skjóta afgreiðslu.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.