22.08.1974
Neðri deild: 8. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. hefur fram tekið, er hér endurflutt mál, sem eigi varð útrætt á síðasta þingi. Þá var þetta mál eitt af þeim, sem flutt voru um svipað leyti og fjalla um vegamál. Auk frv. um fjáröflun til vegagerðar voru þá flutt frv. um breyt. á vegal, og till. að endurskoðaðri vegáætlun, og er eðlilegt, að slík mál séu samferða. Ég tel mér því skylt að gera grein fyrir, hvernig á því stendur, að þetta mál kemur nú út af fyrir sig, án þess að því fylgi þau mál, sem samgrh. flutti á sínum tíma, frv. um breyt. á vegal. og till. um endurskoðaða vegáætlun.

Öll þessi mál dagaði uppi á síðasta þingi, fyrst og fremst vegna þess, að ekki fékkst samstaða um afgreiðslu þessa máls, sem hér liggur fyrir á ný, frv. um fjáröflun til vegagerðar. Stjórnarandstaðan, sem þá var, vildi ekki afgreiða það mál, og úr því að svo stóð á, þótti ekki neitt unnið við það, að hin málin hlytu afgreiðslu, þar sem sjálf tekjuöflunin lægi utangarðs.

Nú er þetta mál flutt á ný, eins og hv. þm. sjá, af fjmrh. Þetta er ekki stjfrv. Það er því eins og annað mál, sem hér var til umr. fyrir skömmu, flutt að mínum dómi fyrir tilstilli hins nýja meiri hluta, sem er að myndast á Alþingi, þess meiri hl. Sjálfstfl. og Framsfl., sem búast má við, að taki við stjórnartaumum innan skamms. Það er því þessi nýi meiri hl., sem stendur að þeim breytingum á frv., sem gerðar hafa verið og fyrst og fremst varða skattlagninguna, sem tillaga er gerð um. Þær breytingar eru á þá leið, að gert er ráð fyrir hækkun bensíngjaldsins um kr. 7.13 frá 1. sept. n.k. í stað kr. 4.13, sem gert var ráð fyrir í fyrra frv., á afgangi þessa árs og síðan kr. 5.13 frá næstu áramótum. Sömuleiðis er gert ráð fyrir, að þungaskatturinn hækki úr 39 þús. kr. í 45 þús. kr.

Ég tel rétt að vekja einnig athygli á því, að í 8. gr., þar sem er það nýmæli, að bensíngjald og þungaskatt skuli, eftir að lög þessi öðlast gildi, ákveða með reglugerð, en ekki með lagasetningu, eins og gert hefur verið, þar er grunntaxta byggingarvísitölu, sem miða skal við, breytt frá því, sem var 1. mars í fyrra frv. í vísitöluna 1. júlí. Ég hef ekki reiknað hvort breytingin á krónutölu gjalda fylgi nákvæmlega þeirri breytingu, sem þarna hefur átt sér stað á vísitölu, en það mun væntanlega nefnd fá upplýsingar um.

Þá hefur breyst nokkuð í ákvæðum til bráðabirgða og að mestu leyti í sambandi við það, að frv. er nú flutt á ný missiri seinna en upphaflega var gert.

En það, sem vekur sérstaka athygli, er, að nú er þetta mál flutt á ný, að því er ég hef fyrir satt, ekki síst fyrir tilstuðlan þeirra hv. þm., sem stöðvuðu framgang þess á síðasta vori og höfðu þá fyrst og fremst á orði þær nýju álögur, sem þar ætti að lögfesta, en nú eru þær til muna þyngri en þá var. Sérstaka athygli hlýtur að vekja, að sá alþm., hv. 1. þm. Sunnl., sem þá talaði ítarlegt mál um þetta frv. og fann því flest til foráttu, hafði að því er ég hef fyrir satt, hönd í bagga við undirbúning þess til endurflutnings.