19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Það styttist nú óðum starfstími Alþingis fyrir jólaleyfi. Með tilliti til þess að mörgum málum þarf að hraða, sem nauðsyn her til að verði afgreidd, skal ég láta nægja hér örfá orð um þetta mál. þó að vissulega væri ástæða til að ræða í þaula mörg smærri atriði málsins.

Það má lengi deila um það, hvernig á að skipta gengishagnaðinum. Hér er um að ræða 1650 millj. kr. að því er menn ætla, og það eru um 400–600 fiskiskip sem væntanlega koma til með að eiga kröfu um hlutdeild í sjóðnum. Það er því mikið vandaverk og þarf að taka tillit til margs, þegar þessari upphæð er deilt niður. En það, sem ég vildi sérstaklega víkja að hér, er að gefnu tilefni. Hv. 2. þm. Austurl. gerði að umræðuefni í talsvert löngu máli, framkvæmd málsins. Ég vil vekja athygli á því, sem kemur fram í nál. sjútvn. á þskj. 189, þar sem segir um það atriði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við meðferð málsins hefur náðst samkomulag við sjútvrn. um meðferð ýmissa þátta og mun þess sérstaklega getið í framsögu.“

Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. 2. þm. Austurl. við 1. umr. málsins, að hæstv. sjútvrh. gaf alveg sérstaka yfirlýsingu varðandi þetta atriði. Þessi yfirlýsing var nálægt því að vera á þá leið: Allar reglur, sem settar kunni að verða um ráðstöfun gengishagnaðar, verði settar í fullu samráði við ríkisstj. og formenn sjútvn. Alþ. eða þeirra fulltrúa, sem þær fela að fara með málið fyrir sig.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gengishagnaði er ráðstafað,og áður mun það hafa verið þannig í lögum að það hafi sérstaklega verið tilgreint að ríkisstj. fjallaði um það mál. En ég tel að þessi yfirlýsing hæstv. sjútvrh. jafngildi fyllilega því ákvæði, vegna þess að þetta snertir framkvæmd málsins, og ég tel að eftir þessa yfirlýsingu sé hann búinn að skuldbinda sig til þess að með málið verði farið í framkvæmd á þann veg, að höfð verði full samráð við ríkisstj. alla, og enn fremur, sem áður hefur þó ekki verið gert, höfð samráð við formenn sjútvn, beggja þd. eða fulltrúa sem n. tilnefna. Ég get því ekki verið sammála hv. 2 þm. Austurl. um að ráðh. hafi hér óbundnar hendur í sambandi við framkvæmd málsins.

Það er mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við þetta mál að það nái sem fyrst fram að ganga, til þess að unnt sé að ráðstafa greiðslum úr gengishagnaðarsjóðnum hið fyrsta. Tíminn er raunverulega að hlaupa frá mönnum í þessu efni. Meginmálið er auðvitað það, að ástand sjávarútvegsins, rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er með þeim hætti um þessar mundir, eins og öllum er kunnugt, að það liggur við stöðvun. Það er sá alvarlegi þáttur í þessu máli.

Það væri freistandi að gera að umræðuefni Aflatryggingasjóðinn, vegna þess að hann kemur hér dálitið við sögu, en ég mun ekki gera það að þessu sinni að öðru leyti en því, að ég er á þeirri skoðun að það þurfi að endurskoða lög og reglur um Aflatryggingasjóð og vildi benda á í þessu sambandi hvort ekki kæmi til greina að setja sérstaklega til þess mþn., því að það er mjög vandasamt verk. Ég legg áherslu á að endurskoða þurfi lög um Aflatryggingasjóð og reglur sem gilda um starfsemi hans.