19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Mér er ljós nauðsyn þess, að þetta mál verði afgreitt héðan frá Alþ. hið allra fyrsta. Ég mun ekki tefja þá afgreiðslu með málþófi, ég vil aðeins benda á það, að ástæðan fyrir því hve mál þetta er seint á ferðinni nú er ekki fyrirstaða okkar stjórnarandstæðinga, heldur hitt að það tók allan þennan tíma að fá stjórnarsinnana til fylgis við þetta stjfrv.

Nú þegar er komin fram að fullu skýring við þær till., sem við í minni hl. sjútvn. flytjum á þskj. 194, og rökstuðningur við þær. Þeim rökstuðningi hefur ekki verið haggað:

Í fyrsta lagi er ríkisstj. með 1.–4. gr. að framkvæma beina árás á kjör sjómannastéttarinnar, sem haft hefur þær afleiðingar, að sjómenn biðu mjög skertan hlut, og í annan stað orðið til þess, að sjómenn hafa nú sagt samningum sínum lausum, og svo kann að fara, að þessar ögranir ríkisstj. verði til þess að skapa alvarlegt vandamál á vinnumarkaðnum í náinni framtíð. Þessum röksemdum okkar hefur verið mótmælt, en þeim hefur ekki verið haggað. Við höldum enn fast við þær till. okkar, að 1.–4 gr. frv. verði felldar.

Í annan stað höfum við sagt að margt óeðlilegt væri við úthlutun gengishagnaðarins. Sérstaklega er óeðlilegt að fela sjútvrh. upp á eindæmi að ráðstafa hundruðum millj. kr. Sérstaklega óeðlilegt er að setja ekki fastar reglur um slíka úthlutun í lög, og sérstaklega fordæmanlegt er hve hluti sjómanna af 1650 millj. kr. gengishagnaðarsjóði er lítill gerður í till. meiri hl. Ákveðin atriði af þessu hefur hv. frsm. meiri hl. sjútvn. þegar viðurkennt að nokkru leyti með því að fallast í raun á þær ábendingar okkar, að reglurnar, eins og þær eru í frv., um úthlutun gengishagnaðar séu bæði lausar í sér og rúmar. Málið liggur skýrt fyrir eins og það er nú, og það mun ekki skýrast frekar þótt meira verði um það orðlengt og því ætla ég ekki að gera það. Meginástæða þess að ég kom hér upp var að óska eftir því við virðulegan forseta, að hann féllist á að taka inn í nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar á brtt. okkar á þskj. 194, sem ýmist hafa fallið niður í prentun ellegar eru ekki fyllilega eðlilegar eins og þetta er uppsett.

Þá er það fyrsta í 5. tl. á þskj. 194, b-lið, 2. mgr., sem hljóðar svo: „Styrkupphæðinni verði skipt þannig, að 40% hennar verði ráðstafað einvörðungu með tillíti til mannúthaldsdaga og 60% við“ — þarna hefur fallið niður „í samræmi“, þetta á að vera: „60% í samræmi við reglur, er Aflatryggingasjóður setur.“

2. breyt., sem ég óska eftir að verði tekin til greina, er varðandi d-lið. Það er sams konar breyting og meiri hl. n. hefur gert að sinni till. um þetta efni. Þar standi ekki „Til lífeyrissjóðs sjómanna“, heldur „Til lífeyrissjóða sjómanna“, og í lok mgr. standi: „samkv. reglum, er stjórnir sjóðanna setja“.

Þessi breyt. er að sjálfsögðu gerð af okkur eins og af meiri hl. vegna þess að sjómenn eiga aðild að fleiri en einum lífeyrissjóði og eru m.a. félagar í blönduðum lífeyrissjóðum úti á landi.

3. breyt. er svo við e-lið, að hann orðist svo: „20 millj. kr. til sjómannasamtakanna, til byggingar orlofshúsa og annarra félagsmála, eftir nánari ákvörðun stjórna“ — r-ið falli þarna niður. Þar sem rætt er um sjómannasamtökin er átt við Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, þar er auðvitað átt við stjórnir beggja þessara samtaka. Vænti ég að virðulegur forseti taki þessar leiðréttingar til greina.