19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur mjög verið tengt við þá deilu, sem upp hefur komið á milli sjútvrn. og aðila á Blönduósi. Þetta tel ég alveg óeðlilegt. Það má vera, að þetta frv. sé flutt af hæstv. ríkisstj. vegna þeirrar deilu. En ef meiningin var aðeins að skerast þar í leikinn og stöðva þar ákveðnar framkvæmdir og ákveðinn rekstur, þá átti að sjálfsögðu að gera það með allt öðrum hætti. Hér er hins vegar lagt til að taka upp tiltekna skipan á þessum málum sem ekki gildi aðeins fyrir Blönduós og einhverja aðila, sem eru að sækja um möguleika til þess að koma upp verksmiðju þar, heldur er verið að gera hér ráð fyrir almennum lagareglum sem gilda skuli um þennan atvinnurekstur sem frv. fjallar um, þ.e.a.s. um veiði og vinnslu á rækju og skelfiski. Þó verður að segja það eins og er, að frv. gefur mjög undir fótinn með það, að þetta varðandi rækju og skelfisk sé aðeins byrjunin, menn ætli sér meira, því að nafn frv., nafn væntanlegra laga er á þessa leið, með leyfi forseta. Það heitir „frumvarp til laga um samræmda vinnslu sjávarafla og veiða sem háðar eru sérstökum leyfum.“ Nú nær það langt út fyrir rækju og skelfisk: „veiðar sem háðar eru leyfum.“ Eins og þessi mál hafa verið hjá okkur, þá er það ekki aðeins rækjuveiði sem er háð leyfum og skelfiskveiði, heldur er einnig humarveiðin í landinu háð leyfum, spærlingsveiðar eru háðar leyfum, öll veiði með flotvörpu, sem nú á sér stað allmikið í sambandi við loðnuveiðar, er líka háð leyfum, og því er yfir lýst að að því er stefnt og ég hygg að um það séu allir sammála, að það verði einnig bundið leyfum hvernig staðið verði að síldveiðum þegar síldveiðar verða aftur heimilaðar hér á íslenska síldarstofninum.

Það vaknar að sjálfsögðu sú spurning hvort menn hafi í huga að taka upp þá samræmingu, sem þetta frv. fjallar um, varðandi allar þessar veiðar og vinnslu á öllum þessum afla þegar þar að kemur. Ég fyrir mitt leyti blanda mér ekki á neinn hátt í þær deilur sem upp hafa risið við Húnaflóa. Ég hef lýst því yfir í umr. um þetta mál, að ég er algerlega samþykkur því að sjútvrn. veiti veiðileyfi til rækjuveiða í Húnaflóa, eins og gert hefur verið, hafi þar með vald á því að takmarka þann bátafjölda sem þessar veiðar megi stunda. Ég tel vera nauðsynlegt og eðlilegt, að rn. fari í þeim efnum, þegar verið er að veita veiðileyfi og takmarka bátafjölda, eftir umsögn okkar fiskifræðinga, eftir umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar um það, hve mikið megi veiða. Og ég er samþykkur þeim skilyrðum sem sett hafa verið fyrir veiðileyfum af núv. hæstv. sjútvrh., eins og ég var samþykkur þeim skilyrðum sem sett voru fyrir veiðileifum þann tíma sem ég var ráðh. Ég tel að öll þau skilyrði séu eðlileg og í samræmi við lög og nái tilgangi sinum, sem sagt þeim tilgangi að koma í veg fyrir ofveiði á viðkomandi svæðum, og einnig nái þau þeim tilgangi að koma því til leiðar að þeir, sem næst búa þessum takmörkuðu veiðisvæðum, fái að njóta þeirrar veiði og þeirrar vinnslu sem þar er um að ræða. Þetta hefur allt saman legið fyrir og svona hefur þetta verið framkvæmt.

Nú er hins vegar í þessu frv. lagt til, — og það er það sem skiptir öllu máli og vitanlega eiga menn að miða afstöðu sína til þessa frv. við það atriði, — nú er lagt til að ráðh. sjávarútvegsmála megi til viðbótar við fyrri skilyrði setja það skilyrði fyrir veiðileyfi fiskibáts að hann eigi viðskipti við tiltekið fyrirtæki í landi. M.ö.o.: það er hægt að segja við þann sem fær veiðileyfi til þess að veiða á þessu takmarkaða svæði: Þú færð veiðileyfi með því skilyrði að þú eigir aðeins viðskipti við þetta tiltekna fyrirtæki og skiptir ekki við annað. — Ég fyrir mitt leyti er algerlega á móti því að taka upp þessa stefnu. Ég tel hana ranga, og ég tel hana í hrópandi ósamræmi við allt okkar kerfi í þessum efnum. Það er ómögulegt að taka þannig út úr og setja sérreglur í þessum greinum, en vilja svo ekki viðurkenna þetta „prinsip“ í nákvæmlega hliðstæðum tilfellum annars staðar. Menn hafa reynt að finna þau rök fyrir þessari kröfu eða þessari stefnu, að það væri rétt að veita ráðh. þessa viðbótarheimild á þann hátt, að með þessu sé hægt að gera vinnsluna á þessum takmarkaða afla hagkvæmari, það sé hægt að fækka vinnsluaðilum og gera vinnsluna hagkvæmari. En ætla þeir menn, sem þetta segja, að neita því að það sé ekki alveg á sama hátt hægt að gera vinnsluna hagkvæmari t.d. í sambandi við vinnsluna á humri? Hvað á það að þýða þar sem er orðið um takmarkaðan bátafjölda að ræða, sem fær leyfi til þess að stunda humarveiðar, að þeir megi valta og skalta með það að láta kannske 5 aðila í einu byggðarlagi, af því að þar er fyrir frystihús, vinna úr aflanum. Af hverju ekki að binda öll veiðileyfi við það að þeir skipti við einn aðila til að gera það hagkvæmara? Jú, ég býst við því að það séu ýmsir menn, m.a. í mínum flokki, sem eru mjög á þeirri skoðun að þessu ætti að koma á í öllu kerfinu. (Gripið fram í.) Já, og ég tók eftir því að það var sagt áðan af þeim, sem talaði hér á undan mér, að hann væri ekki á móti því sem væri tilgangurinn með þessu frv. að vissu leyti því að það stefndi þó á áætlunarbúskap. Sér er nú hver áætlunarbúskapurinn að taka upp þetta ákvæði! Ekki gef ég nú mikið fyrir þann áætlunarbúskap. Mér er sama þótt hann liggi fyrir utan dyr, því að ég flokka þetta ekki undir mikinn áætlunarhjúskap, nema menn séu þá á þeirri braut að þeir vilji færa þetta í gegnum allt heila kerfið og hafa hér einhverja samkvæmni.

Það er auðvitað stórt mál að segja það að við skulum t.d. breyta frystihúsarekstrinum í landinu á þá lund að við löggildum bara eitt myndarlegt frystihús á hverjum stað og búið, hin fá ekki að komast að. Vissulega er það stefna út af fyrir sig. Ég býst við því, að ef þetta væri orðið svona með frystihúsareksturinn í landinu og t.d. allar saltfiskverkunarstöðvar og margar aðrar fleiri, þá færi ég að vera með því að hafa þetta einnig gildandi um rækjuna. Þá sæi ég enga ástæðu til þess að hafa einhverja sérreglu þar. En ég er afar lítið hrifinn af slíkum sósíalisma að ætla að fela mönnum að káka við þetta kerfi á þennan hátt. Við höfum nokkra reynslu af því og hana ekki góða. Þetta var t.d. reynt hér á einum tíma og verð ég að segja að þar var það þó næst því að það ætti einhvern rétt á sér. Það var í sambandi við síldarverksmiðjurekstur okkar. Þá var mjög um það rætt að binda síldarverksmiðjureksturinn í landinu eingöngu við ríkisrekstur og það voru meira að segja samþ. lög, sem hér hefur verið vitnað í, um að það væri óheimilt að byggja aðrar síldarverksmiðjur en þær sem sérstakt leyfi væri fengið fyrir af stjórnvöldum. En mótstaðan var svo mikil gegn þessu og það kom líka í ljós að þeir, sem fóru með ríkisvaldið, höfðu svo takmarkaðan áhuga á því að leysa málið á ríkisrekstrargrundvelli að stórkostlega skorti síldarverksmiðjur. Heil landssvæði voru þar skilin eftir.

Ég skal aðeins útskýra skoðun mína með litlu dæmi sem mér er auðvitað í fersku minni af því að það er tekið beint úr mínu byggðarlagi. Ég tók auðvitað þátt í því á einu stigi málsins að berjast fyrir því að lítil fiskmjölsverksmiðja, sem var á Norðfirði og hafði verið breytt í minni háttar síldarverksmiðju, yrði lögð undir ríkisreksturinn, Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu hana og tækju til að reka myndarlega síldarverksmiðju í mínu heimabyggðarlagi þar sem var greinileg þörf á því að fá þennan rekstur. Þetta náði fram að ganga, það var samþ. hér á Alþ. Og þessi verksmiðja var komin í eigu ríkisins, búið að þjóðnýta reksturinn á þennan sérstaka hátt. En þeir, sem fóru með ríkisvaldið, vorn ekkert á því að reka þetta á þann hátt sem við, sem höfðum barist fyrir því að fara þessa leið, vildum. Þeir sendu ósköp auðveldlega nokkra menn — ég held 2–3 — austur á minn heimastað, ekki til þess að hefja þar rekstur í verksmiðjunni, heldur til þess að negla hlera fyrir alla glugga og setja slagbranda fyrir allar dyr, og þeir voru aldrei teknir þaðan í burtu aftur, þessir hlerar eða slagbrandar, fyrr en við heimamenn keyptum hana aftur af ríkinu. Þá urðum við að byggja nýja síldarverksmiðju sem síðan hefur þjónað hlutverki sínu í okkar rekstrarkerfi. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég hefði ekki getað hugsað mér að síldarverksmiðjureksturinn í landinu hefði allur verið á vegum ríkisins. En það er bara grundvallarskilyrði, til þess að þetta skili árangri, að ríkisvaldið sjálft vilji reka eftir þessari leið, það meini það. En ef þeir aðilar stjórna ríkisrekstrinum, sem eru á móti honum í grundvallaratriðum og sinna honum ekki, er það verra en ekkert.

Ég gef því ekki mikið fyrir ríkisrekstur af þessu tagi. Ég veit að þetta hefur verið hemill á okkur, þetta hefur ekki dugað. Það er allt annar ríkisrekstur sem ég berst fyrir. Ég sætti míg því ekki við það í sambandi við mál eins og það sem hér liggur fyrir, að það stefni í einhvern áætlunarbúskap að leyfa einum og einum ráðh. að káka við málin á þennan hátt. Það mun ekki skila að mínum dómi neinum árangri, heldur setja okkur í meiri og meiri vanda.

Það væri líka eðlilegt að menn spyrðu: Af hverju endilega að koma þessum hugsaða sparnaði við í rekstri rækjuvinnslustöðva, af hverju ekki líka í sambandi við humar, af hverju ekki líka í sambandi við síldarvinnsluna og af hverju ekki líka á öðrum sviðum en í sambandi við rekstur sjávarútvegs? Af hverju setjum við ekki lög um það? Það eru alveg jafnmikil rök fyrir því, að það skuli ekki vera leyfilegt að setja upp brauðgerðarhús nema t.d. eins og eitt myndarlegt hús í Hafnarfirði, annað væri bannað nema leyfi væri fengið til þess frá einhverjum ráðh.? Og af hverju að setja ekki líka reglur um að það skuli vera takmarkaður fjöldi af almennum verslunum á hverjum stað? Það er hægt að reka þetta á hagkvæmari hátt með því að sameina þetta allt í eina stóra verslun. Af hverju ekki? Og það væri hægt að nefna hér miklu fleiri dæmi. Það leifir nú ekkert af að ég þori að nefna það dæmi sem var komið upp í huga mér, vegna þess að ég veit ekki nema það verði gripið á lofti, af því að það er af þeirri tegund, og menn fari að reyna að hugsa sér að framkvæma það. En ég ætla samt að segja það. Af hverju ekki að koma svo næst á eftir og segja: Það verður að fá leyfi ráðh. til þess að segja fyrir um hvað eigi að vera margar trillur og hve margir bátar á hverjum stað? Af hverju ekki það líka? Það yrði heldur þröngt hjá ýmsum kotkarlinum í í landinu ef menn þyrftu að fá slík leyfi.

Þetta byggist hreinlega á því, sem ég hef verið að segja, að stjórnvöld landsins eru ekkert á þessari ríkisrekstrarbraut, þau eru á allt annarri braut. Þau geta kannske notað það í einstaka tilfelli til þess að kæfa einhvern rekstur og ætti að mínum dómi enginn maður, sem kennir sig við sósíalisma, að villast á því að þetta sé einhver sósíalismi að framkvæma þessi mál á þennan hátt. Það getur aldrei gert neitt annað en setja blett á þá ágætu hugmynd sem er í sambandi við ríkisrekstur á öllum rekstri.

En ég ætla svo að koma svolítið nánar að því sérstaka máli sem hér er um að ræða. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að breyta 1. gr. þessa frv. á þann hátt sem minni hl. sjútvn., hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, leggur til, að úr 1. gr. frv. falli niður lokasetning en þar segir að eitt af skilyrðum, sem ráðh. má binda veiðileyfi við, sé, eins og þar segir, m.a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta sem veiðileyfi hljóta. Ég álít að ráðh. geti unnið að skynsamlegri samræmingu á milli vinnslu og veiða á ákveðnu svæði án þess að hann fái það vald að segja við sjómennina og útgerðarmennina: Þið fáið því aðeins leyfi til að veiða að þið verslið við tiltekinn mann í landi. Það er sagt alveg skýrum stófum og hlýtur hver og einn að skilja þessa setningu, sem ég las upp, þannig: skilyrðið má m.a. bindast við skiptingu afla á milli vinnslustöðva. Þetta verður ekki skýrara sagt. Í sambandi t.d. við skelfiskvinnsluna, svo að ég taki dæmi, skelfiskvinnsluna við Breiðafjörð sem háð er veiðileyfum, þar hefur skelfiskurinn verið unninn á mörgum stöðum við Breiðafjörð í Stykkishólmi t.d. er ein vinnslustöð, sem Sigurður Ágústsson fyrrv. alþm. á, og önnur vinnslustöð sem kaupfélagið á staðnum stendur að. Ég býst við því að þegar svona ákvæði væri komið og sjútvrh. væri framsóknarmaður, þá segði hann auðvitað við alla eigendur báta: Þið gerið svo vel og skiptið við kaupfélagið. Þið hafið ekkert að gera víð að versla við Sigurð Ágústsson. — Það væri miklu hagkvæmara. Þá fær þetta frystihús aðstöðu til þess að vinna þetta á ódýran hátt. Og ég er ósköp hræddur um ef þessi sjútvrh. Framsfl. gerði það ekki, þá gæti kannske styst í hans ævitíma sem ráðh. hjá Framsfl., því að flokksmenn hans mundu víst ábyggilega ætlast til þess að hann færi eitthvað eftir þessum reglum.

Þetta er ekki eina dæmið. Dæmin eru yfirleitt svona, ef ráðh. ætlar sér að notfæra sér þessar heimildir sem ég sé enga ástæðu til að veita ráðh. Ég tel, að hér sé um stefnumál að ræða: Á að fara inn á þessa braut, að binda veiðileyfin við það, við hvern aðilarnir skipta í landinu? Það er sérlega ótrúlegt að þetta verði aðeins látið gilda um rækju og skelfisk. Ef þetta verður tekið upp, þá hlýtur það auðvitað einnig að breiðast út til annarra vinnslugreina eins og nafn frv. gefur beinlínis undir fótinn með.

Ég vil enn á ný segja það, að þótt þetta frv. yrði samþ. í þeim búningi sem ég legg til, þá er hægt fyrir sjútvrh. nákvæmlega eftir sem áður að koma í veg fyrir það að bátar verði gerðir út frá Blönduósi. Hann þarf ekkert annað en að segja að það séu nægilega margir bátar sem fengið hafi leyfi í flóanum og engum bátum verði bætt við. En hann þarf ekki þar með að fá heimild til þess að mega velja á milli vinnslustöðva sem eru margar þarna við flóann. Það á ekki að veita neinum ráðh. slíka heimild, það er alveg ástæðulaust.

Þá hefur einnig verið sagt, að það eigi að taka tillit til þess hvernig ástatt er með atvinnumál á hinum ýmsu stöðum, og nefnd dæmi um að það hafi verið mikið atvinnuleysi á Hólmavík oft og tíðum, Skagaströnd, Hvammstanga, en ástandið hafi verið betra í atvinnumálum á Blönduósi. Þetta er eflaust rétt, og ég tel að það beri skylda til þess að reyna að taka tillit til þessa og reyna sérstaklega að hlúa að þeim stöðum sem illa eru staddir atvinnulega séð. En ég sé enga ástæðu til þess að fela sjútvrh. landsins sérstaklega það starf, að hann eigi að fá heimild til að ákveða um það á hvaða stað skal gera út og hvar ekki eða hefja þennan atvinnurekstur eða hinn. Ef við viljum beina tiltekinni atvinnugrein á einn stað, en koma í veg fyrir að hún fari á annan, þá eru ýmsir aðrir aðilar í okkar kerfi sem standa miklu nær því að setja þessar reglur. Ef sem sagt um það er að ræða, að það verði að fara hér fram atvinnumiðlun á milli aðila, þá t.d. stæði miklu nær Framkvæmdastofnun ríkisins að setja reglur um það heldur en sjútvrh. Og ég verð að segja það, að hvað mig sjálfan áhrærir, þá vildi ég vera laus við það sem sjútvrh. að velja þarna á milli og ætla frekar þeirri stofnun, sem hefði með þetta að gera mjög almennt, atvinnujöfnun og ráðstafanir til þess að greiða úr atvinnumálum, ætla einhverri slíkri stofnun það vald að reyna að loka fyrir tiltekinn atvinnurekstur á einum stað, en opna fyrir á öðrum.

Þetta atriði fær ekki heldur staðist, nema menn séu að hugsa um þetta mál eingöngu út frá þeirri deilu sem upp hefur komið út af Blönduósi og atvinnurekstri þar. En málið nær miklu lengra. Það þarf ekki að segja mér að t.d. þær umsagnir um þetta frv. sem borist hafa sjútvn. d., umsagnir frá stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, frá stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna og frá stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, — það þarf ekki að segja mér að umsagnir þeirra varðandi þetta mál byggist á afstöðu þeirra í deilunni um Blönduós. Það er fjarstæða. Þessir aðilar leggjast gegn þessu frv. vegna þess að þeir telja að hér sé verið að fara inn á þá braut sem þeir álíta að sé mjög hæpin. Ég er þessum aðilum alveg sammála.

Þá vil ég einnig skjóta því hér inn í, ef það mætti verða til eftirbreytni, að það er í rauninni alveg ósæmilegt af þn., sem fjalla um stór og þýðingarmikil mál, að halda þannig á störfum sinum að þegar til n. koma þýðingarmiklar umsagnir, jafnvel landssamtaka í víðkomandi grein, þá skuli n. leggjast á þessar umsagnir og ekki skýra þd. Alþ. frá því hvað hefur verið um málið sagt. Það var siður lengi vel á Alþ. að birta a.m.k. útdrátt úr svona umsögnum eða láta fylgja með á prentuðu fskj. hvað þessir aðilar sem spurðir voru, höfðu sagt um málið. Hér kom frsm. meiri hl. sjútvn. upp í ræðustólinn, hann minntist ekki á það einu orði að þessir aðilar hefðu verið spurðir eða þeir hefðu haft neitt álit. Það var ekki fyrr en svo vildi til að n. hafði ekki verið sammála, var til minni hl. í n., þá kemur hann og skýrir þm. frá því að þessi stóru landssamtök, sem þarna áttu hlut að máli, hafi haft skoðun á málinu og þau hafi rökstutt sitt mál og lagt ákveðið til um afgreiðslu á málinu. Þetta eru auðvitað vítaverð vinnubrögð. Þó að þn. séu vissulega þýðingarmiklar og eigi að fjalla um mál, þá eru þær að fjalla um málin fyrir þingið, fyrir þd. Þær eiga að gera almennilega grein fyrir málinu. A.m.k. ef um er að ræða mál sem ágreiningur er um og er stórmál, þá ber þeim skylda til að segja öðrum þdm. frá málinu í heild. En þetta er nú brotið æ ofan í æ. Ég fyrir mitt leyti vil vita þetta. Stundum er því bara bætt við, eins og í því máli, sem við vorum að ræða um hér fyrr, að það hafi orðið ákveðið samkomulag á milli manna í n. og ákveðins rn. eða ríkissj. um þýðingarmikla þætti í einu máli. Þar með er málið í lagi, Alþ. kemur það ekkert við. Svona vinnubrögð eiga vitanlega ekki að eiga sér stað, Þn. er enginn aðili nema gagnvart þd. Og svo er mönnum sagt að ríkisstj. ætli nú að hafa samráð — ráðh. hver við annan — í þýðingarmiklu máli, og til viðbótar er ætlunin að gera formönnum sjútvn. grein fyrir því, hvernig hún heldur á málinu. Þetta er vitanlega allsendis ófullnægjandi. Auðvitað er það lágmark, þar sem er ágreiningur í stórmáli eins og hér er um að ræða, að ríkisstj. lofi að hafa samráð við stjórnarandstöðuna í málinu, en ekki að menn bæti því við, að þeir í meiri hl. ætli að hafa samráð hver við annan.

Þessar umsagnir, sem koma frá þessum þremur þýðingarmiklu aðilum, þ.e.a.s. frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og frá stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, bera með sér að enginn vafi er á því að þessir aðilar leggjast gegn frv. eða vilja fá á því grundvallarbreytingar, vegna þess að þeir hafa svipuð sjónarmið í þessum efnum og ég. Þeir eru á móti nokkrum þýðingarmiklum atriðum í málinu af „prinsip“-ástæðum, en ekki vegna deilunnar við Húnaflóa. Og það er þetta sem ég legg áherslu á. Það ber vitanlega að standa að afgreiðslu þessa máls út frá því hvort menn vilja taka upp þessa nýju stefnu sem hlýtur að verða þá tekið tillit til á eftir. En ef menn hafa einhverjar áhyggjur út af Húnaflóadeilunni, þá verða þeir að finna einhverjar aðrar leiðir til þess að komast út úr því máli en að blanda því inn í lagasetningu eins og þessa.

Ég sætti mig vel við að sú breyt. verði gerð á 1. gr. frv. sem hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, leggur til í sínu minnihlutaáliti, þ.e.a.s. að út úr gr. verði tekin ákvæðin um að ráðh. megi binda veiðiheimildir skilyrðum um það við hvaða vinnslustöðvar viðkomandi bátur skiptir. En ég hef lagt fram brtt. við 2. gr. frv., af því að þar fer mín skoðun ekki algerlega saman við það sem kemur fram hjá hv. 8. landsk. þm., Sighvati Björgvinssyni. Hann virðist vilja fallast á það að efni 2. gr. megi vera á þá lund að það sé sjútvrh. sem eigi að veita leyfi til þess að byggja nýja vinnslustöð varðandi vinnslu á þessum tiltekna afla sem hér um ræðir. Ég er á móti þessu líka, og af því hef ég lagt fram brtt. við 2. gr., vil umorða hana, en reyni nú að öðru leyti að þræða orðalag gr. hvort sem mönnum þykir það vera gott eða vont. En breyting mín, efnisbreyting mín, kemur þar allskýrt fram. Brtt. mín við 2. gr. frv. er þannig, með leyfi forseta, — ég legg til að gr. verði orðuð svona:

„Í þeim greinum veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum samkv. 1. gr., skal leita umsagnar sjútvrn. um veitingu stofnlána opinberra aðila til bygginga nýrra vinnslustöðva eða meiri háttar breytinga á slíkum vinnslustöðvum.“

Ég tel að það beri að vinna að þessari samræmingu, sem hér er talað um, á þann hátt að þeir opinberu aðilar, sem veita stofulán til þess að koma upp nýjum vinnslustöðvum, eigi gjarnan að leita eftir umsögn sjútvrn. um hvort þörf sé á að byggja fleiri stöðvar til þessarar vinnslu á víðkomandi svæði. Ég vil skylda þá, áður en þeir veita stofnlán, til þess að leita eftir þessari umsögn. Rr. fær þá tækifæri til þess að tjá sig. Síðan er það hinn opinberi aðili, sem veitir stofnlán og á út af fyrir sig í öllum tilfellum að hafa það sjónarmið að hann sé ekki að veita stofnlán til eins eða neins að áþörfu, sem ákveður hvort hann vill veita stofnlán til nýs fyrirtækis eða ekki. Ég er ekki á þeirri stefnu að það sé rétt að veita sjútvrn. svona mikið vald, að hann eigi að segja til um hvort byggja megi eða stækka megi fyrirtæki sem fyrir er í þessum greinum. Mér finnst vera komið út fyrir verksvið ráðh., þetta er ekki hans mál. Og ég er líka á þeirri skoðun, að verði farið að taka upp þessa stefnu í þessum greinum, þá muni annað á eftir fylgja og þá þurfi sannarlega að koma upp sérstökum deildum á vegum sjútvrn. sem kynni sér þau mál sérstaklega út frá efnahagslegri aðstöðu og rekstrarlegri aðstöðu, hvort það eigi yfirleitt að veita leyfi til þess að byggja nýja vinnslustöð eða leyfi til þess að stækka vinnslustöð. Þeir aðilar, sem eru réttir í þessum efnum, eru einmitt stjórnendur stofnlánasjóðanna. Þeir hafa þetta vald núna. Þeir geta synjað um lán sem í flestum tilfellum þýðir auðvitað stöðvun framkvæmda, nema þar sem stöðvarnar eru svo litlar, að það að koma upp slíkum stöðvum flokkast undir það frjálsræði sem er í okkar landi með það, að menn geti ráðstafað fjármunum sínum að vild. Eins og við vitum er frelsið svo mikið, að maður, sem á talsverða peninga, má beinlínis kveikja í þeim ef hann vill. Við bönnum það ekki. Ef hann vill endilega koma upp einhverju fyrirtæki sem aldrei getur snúist, þá hann um það. Við höfum ekki hér almennt í gildi þær reglur að við tökum fram fyrir hendur á mönnum í þessum efnum. En við eigum ekki að veita aðilum lán af opinberu fé til þess að koma upp stöðvum eins og þessum nema að athuguðu máli. Og þá eru það auðvitað stofnlánasjóðirnir sem þarna verða að velja á milli. Það er sjálfsagt að binda þetta skilyrðum að þeir leiti þá til rn. eftir umsögn um það hvort rétt sé að setja á þessa takmörkun.

Í þeim brtt., sem ég hef lagt fram við frv., geri ég till. um aðra breytingu heldur en þarna við 2. gr. Ég legg líka til að fyrirsögn frv. verði breytt. Ég legg til að frv. beri heitið „Frv. til l. um veiðar og vinnslu rækju og skelfisks“. Frv. fjallar aðeins um þetta og á því að bera nafn samkv. því. Það á ekki að bera nafn um eitthvað allt annað. Það fjallar eingöngu um þetta, veiðar og vinnslu á rækju og skelfiski og því finnst mér rétt að binda nafnið við það. Ég vil sem sagt fyrir mitt leyti ekki á neinn hátt taka undir það á óbeinan hátt með nafngiftinni að hér sé stefnt að því að fara að taka upp þá stefnu í sambandi við vinnslu sjávarafla eins og segir núna í heiti frv.

Ég verð svo að endurtaka það enn einu sinni, og svo skal ég láta máli mínu lokið, — það er aðeins fyrir öryggis sakir því að maður er búinn að læra það mikið af lífinu að það veitir ekki af að taka það fram nokkrum sinnum, — að þessi afstaða mín er ekki á nokkurn hátt bundin við þá deilu sem á sér stað við Húnaflóa. Ég hef enga afstöðu tekið í því máli og ekki haft aðstöðu til þess að dæma neitt um það. Ég tel hins vegar þörf á því að setja takmarkanir á veiðina þarna. En hvort rétt er að standa gegn því að fleiri staðir við flóann komi inn í þennan rekstur eða ekki, það er ekki mál sem ég er að skipta mér af. Afstaða mín til þessa frv. miðast við það sem ég hef hér sagt. Ég er á móti þeirri nýju stefnu sem er verið að marka með þessu frv. Ég tel hana krafs og hún gerir hér ekkert gagn. Og teygist þetta öllu lengra fyrir það ríkisvald sem við höfum yfirleitt búið við þá er ég næstum viss um að það verður til bölvunar í okkar sjávarútvegsrekstri að taka það upp. Ég held að það verði að biða að fara inn á þessa braut, að ætla að skipuleggja þetta allt saman, þangað til það er orðinn eitthvað sterkari meiri hl. hér á Alþ. og í ríkisstj. fyrir svona sósíaliseringu heldur en nú er í dag. Mig langar ekki til að sjá þá aðila t.d., sem stjórna landinu í dag, framkvæma þann sósíalisma sem ég held að þeir mundu framkvæma.