19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil, áður en ég fer að ræða frv. efnislega láta það koma fram, að þegar þetta mál var tilkynnt í þingflokki Sjálfstfl., þá gerði ég þar fyrirvara um fylgi mitt við málið, þannig að ég verð vonandi ekki sakaður um það, þótt ég hafi aðra afstöðu en hæstv. ráðh., að ég sé þar neitt að hlaupa út undan mér í stuðningi við okkar ágætu ríkisstj.

Hér hafa verið lesnar upp umsagnir aðila og sást þar, eins og réttilega hefur verið á bent af frsm. minni hl. og nú síðast af hv. 2. þm. Austurl., að þær umsagnir eru mjög neikvæðar. Framkvæmdastofnun er að vísu að gæla við málið, þó með vissum breytingum. Landssambandið leggur til að það nái ekki fram að ganga, og sama er að segja um Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En eftir að frv. var afgr. í n. barst Alþ. enn ein umsögn. Hún er frá stjórn Félags rækjuvinnslustöðva og af því að þarna er sá aðill sem frekast á hlut að máli, þá er rétt að lesa þá umsögn upp hér í heilu lagi. Hún er stutt og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Sem umsögn um frv. til l. um samræmda vinnslu sjávarafurða og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, vill stjórn Félags rækjuvinnslustöðva láta í ljós eftirfarandi álit:

Stjórnin telur að í frv. felist óæskileg skerðing á atvinnufrelsi í landinu. F.h. félagsmanna sinna óskar stjórnin ekki eftir þeirri einokunaraðstöðu sem framkvæmd l. gæti leitt af sér ef frv. verður samþ. sem lög. Nokkuð öruggt er, að að koma rækjuvinnslustöðva byggist fyrst og fremst á sömu aðalforsendum og aðrar greinar sjávarútvegs, þ.e. aflabrögðum, hagkvæmni í rekstri hvers fyrirtækis og markaðsástandi erlendis. Af framangreindum ástæðum er stjórn Félags rækjuvinnslustöðva andvíg því að frv. verði samþ. sem lög.“

Það hlýtur að líta ákaflega einkennilega út ef Alþ. með sérstökum l. ætlar að fara að þröngva einokunaraðstöðu upp á þá aðila sem þar eiga hlut að máli. Ég tel að þessir aðilar sjái alveg hvað er að gerast í þessum málum, og þeir eru mjög andvígir því og vilja ekki taka við þeirri aðstöðu sem þetta frv. gerir ráð fyrir að sé verið að skapa þeim. Ég tel því mjög hæpið fyrir Alþ. að fara að beita aðstöðu sinni til þess hreinlega að þröngva mönnum til að taka við aðstöðu sem þeir kæra sig ekki um sjálfir. Ég lét þess getið, þegar frv. var hér til 1. umr., að þetta frv. væri í raun og veru mun stærra en það sýnist vera því að það væri mjög stefnumarkandi fyrir sjávarútveginn og fiskvinnsluna í landinu. Ég tel að við værum að blekkja sjálfa okkur á því ef við héldum að við værum aðeins hér að samþykkja frv. til l. um þetta einangraða tilfelli, sem frv. hljóðar að vissu marki um, því að ef slíkt frv. sem hér liggur fyrir yrði samþ., þá hlyti það auðvitað að kalla á bæði svæðaskiptingu á öðrum veiðum hvar sem væri við landið og einnig á það skipulag sem gerir ráð fyrir að aðilar, sem vilja leggja fjármagn í uppbyggingu vinnslustöðva eða stækkun sinna eigin vinnslustöðva, séu háðir ríkisvaldinu um það hvort þeim leyfist þetta eða ekki, séu háðir boði og banni viðkomandi ráðh. og hans duttlungum, eins og þeir kunna að vera, og skapferli. Ég tel að a.m.k. þetta atriði geti ekki á nokkurn veg samrýmst þeirri lífsskoðun, sem ég hef haft og hef, og ekki heldur grundvallarstefnu þess flokks sem ég frá upphafi hef fylgt.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir svæðisbindingum við rækju- og skelfiskveiðar, og það hefur veríð rökstutt með því að þarna sé um verndunarsjónarmið að ræða og þurfi að hafa hemil á þessum veiðum. Það er alveg rétt að þessar veiðar þurfa að vera háðar eftirliti, þannig að ekki eigi sér þar frekar rányrkja eða ofveiði heldur en í öðrum greinum fiskveiðanna. En ég held að frv. um veiðar með botnvörpu og flotvörpu, sem var samþ. á Alþ. í lok síðasta árs, gefi ráðh. á hverjum tíma alveg fulla og næga heimild til þess að hafa það í hendi sér að ekki sé um ofveiði eða rányrkju að ræða. Þar er sérstakur kafli um rækjuveiðar, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur veitt undanþágu til þess að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfin þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir skipa.“

Það má segja, hvort sem það hefur nú verið bundið í ákveðnum l. eða það hefur þá verið orðin hefð, að bæði fyrrv. sjútvrh. og þeir, sem á undan honum voru, hafi beitt slíkum ákvæðum. Þeir hafa látið rn. gefa út leyfi til tiltekinna veiða til þess að hafa á því hemil að þar yrði ekki of langt gengið. En frv., sem samþ. var í fyrra um þessi atriði, gengur enn lengra og hefur að mínum dómi gengið mjög langt í heimildum því að í 9. gr. segir: „Ráðh. skal í reglugerð setja reglur um hvað eina sem snertir framkvæmd þessara 1., svo sem gerð, útbúnað og frágang botnvörpu“ o.fl. sem í þessari gr. er. Það er því engin afsökum fyrir hæstv. núv. sjútvrh. að leggja fram það frv. hér að hann ætli að afla sér heimilda til þess að forðast rányrkju eða ofveiði á rækju og skelfiski. Hann hefur alveg í hendi sér að hafa fullt vald á þeim hlutum, og meira að segja hefur verið látið viðgangast að ráðh. hefur bundið báta við þessar veiðar við tiltekin veiðisvæði, þannig að einnig það hefur verið gert, þó að nú virðist þurfa sérstaka Sagasamþykkt til þess að halda því áfram.

Ég hygg, eins og ég sagði áðan, að það mundi fljótt sýna sig ef svona frv. eins og hér liggur fyrir yrði samþ., að þá kæmu fljótlega fram kröfur um að aðrar veiðar, humarveiðar og kannske aðrar veiðar, togveiðar o.fl., yrðu þá einnig svæðisbundnar við þá staði sem bátarnir eru gerðir út frá. Ég er alveg sannfærður um að ef svona frv. verður samþ. hér á Alþ. komi eðlileg krafa frá þeim aðilum, sem fiskveiðar stunda á svæðinu frá Reykjanesi að Eystrahorni, um að a.m.k. humarveiðar til að byrja með og rækjuveiðar á þessu svæði verði einnig svæðisbundnar fyrir þá báta sem gerðir eru út frá þessum stöðum, Ég sé ekki hvernig ætti að standa á móti slíkum kröfum ef þetta frv. verður gert að lögum.

Ef þannig yrði haldið áfram kringum landið, þá hygg ég að færi að þrengjast að hjá einstaka sjávarplássum um rekstrargrundvöll fyrir sín skip. Að mínum dómi, ef á að fara inn á þessa braut, sem ég er gersamlega mótfallinn og mun aldrei samþykkja á Alþ., verður að taka dæmið allt og landið allt undir og skipuleggja allar veiðarnar, þannig að menn hefðu aðstöðu til að vita fyrir fram, hvaða leyfi þeir hefðu, hvaða möguleika þeir hefðu til rekstrar sinna skipa. Ég held að þetta sé mál sem Alþ. hljóti að skoða nokkuð vel í upphafi. Það þýðir ekki að vera að gera því neitt skóna að þetta verði í framtíðinni einskorðað við þessar tilteknu veiðar ef frv. verður gert að lögum.

Í sambandi við svæðisbindinguna kemur fram í grg., eins og ég reyndar benti á við 1. umr., ákvæði sem ég hygg að flestum hafi ekki verið kunnugt um, þar sem koma fram kröfur um að eigendur og skipstjóri bátsins hafi verið búsettir á viðkomandi svæði í eitt ár. Það er sem sagt krafa og skilyrði nú í dag að skipstjóri, sem er með fullum réttindum, fær ekki leyfi til að vera með bát, sem er svæðisbundinn, nema hafa verið búsettur þar í eitt ár. Það var upplýst í umr. sem urðu utan dagskrár um Blönduósmálið svokallaða að sá skipstjóri, sem flutti sig og sinn bát norður á Húnaflóasvæðið, varð að fá 17 ára gamlan ungling til þess að leppa bátinn fyrir sig, — mann sem hafði fengið undanþágu fyrir 150 kr. uppi í rn. Þetta er afleiðingin af því að ætla að svæðisbinda ekki einungis bátana, heldur skipstjórnarmennina á bátunum. Ég held að ef farið er út í svona hluti, þá verði menn í upphafi að skoða til hvers þeir leiða. Það liggur alveg ljóst fyrir að skipstjórnarmenn láta ekki fara svona með sig. Ef þeir fá ekki að nota réttindi sín eins og þeir telja sig hafa fullan rétt á auðvitað, þá fara þeir þessa leið, að fá einhverja aðra til þess að vera með skipin fyrir sig sem eru búsettir þar. Það getur leitt til alvarlegra hluta ef jafnvel óreyndir menn eru skráðir sem skipstjórar á bátunum.

Aðrar greinar er kannske öllu stærra mál og enn þá meira stefnumarkandi, þar sem er gert ráð fyrir að leyfi sjútvrn. þurfi, eins og þar segir, til meiri háttar endurbóta á þeim fiskvinnslustöðvum, sem fyrir eru, eða ef menn hafa í huga að byggja nýjar stöðvar. Við munum sennilega flest eftir hinu gamla og landsfræga Fjárhagsráði sem hér starfaði í nokkur ár, ég held við lítinn fögnuð landsmanna, og ég held að menn almennt hafi verið mjög fegnir þegar það ráð var lagt niður. Nú á að fara að taka upp nákvæmlega sömu hömlurnar, að aðili, sem hefur fjármagn og vill leggja í atvinnurekstur úti á landsbyggðinni, þarf að koma hingað til Reykjavíkur, fara þar fyrir stjórnvöld, sitja þar kannske í stigum á skrifstofum, eins og átti sér stað hjá Fjárhagsráði, — ég man eftir því, — og vita hvort hann er í náðinni, geti fengið leyfi til þess að nota fjármagn sitt til þess að byggja upp atvinnufyrirtæki í sinni heimabyggð. Ég held að þetta eigi að vera liðnir tímar. Alþ. á ekki að fara inn á þessa braut aftur. Þegar jafnvel jafnrótgrónum sósíalistum og hv. 2. þm. Austurl. er farið að blöskra sú stefnumörkun sem hér er um að ræða, þá held ég að við hinir ættum að fara að gá nokkuð að okkur.

Það er annað sem er að mínum dómi ekki síður óeðlilegt í þessu, en það er að með frv. er einnig verið að leita eftir heimild fyrir rn. til að synja um leyfi til lána úr þeim lánasjóðum, sem til eru í sambandi við sjávarútveginn. Getur þetta ekki leitt til ýmissa hluta? Nú eru stjórnir sjóðanna mjög á því að byggt sé upp á einhverjum stað tiltekin fiskvinnslustöð eða stækkun á þeirri stöð, sem fyrir hendi er, eigi sér stað, öll stjórnin er sammála um þetta. Ég vil benda á það að auðvitað má alltaf deila um hver sé hæfastur til framkvæmda. En ég er alveg sannfærður um að þeir, sem stjórna núna hinum opinberu lánasjóðum í sambandi við sjávarútveginn, eru búnir að afla sér mikillar og langrar reynslu og þekkja manna best, betur en nokkrir aðrir í landinu, hvernig aðstaðan er á hverjum einstökum stað og hvar er eðlilegt að frekari uppbygging eigi sér stað. Og þó að við séum að tala hér um höft og bönn, þá vitum við vel að stjórn þessara sjóða hefur sett nokkurn hemil á það, hún hefur reynt að nota aðstöðu sína til þess að koma í veg fyrir óeðlilega fjárfestingu. Ef hún telur að það sé óráðlegt að bæta við fiskvinnslustöð á einum stað eða láta stækka slíka stöð, þá er hún mjög treg að veita til þess fjármagn. Hún mundi reyna að leiða mönnum fyrir sjónir að þarna sé um óeðlilega og óþarfa aðgerð að ræða og getur þannig nokkuð haft það í hendi sér að ekki sé farið þar út í neinar öfgar.

Ég get tekið undir það, að ef menn eru með fjárráð eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., ef menn eru með fjármagn og vilja leggja í eitthvert atvinnufyrirtæki úti á landsbyggðinni, því mega þeir það ekki jafnvel þó að afkoma þess sé eitthvað hæpin? Það verður aldrei farið til baka með þetta atvinnufyrirtæki, það stendur þó eftir og það er öruggt, þó að kannske í augnablikinu séu ekki not fyrir það. Það kemur alltaf að því, að fyrir slíkar stöðvar verða not, fyrr en seinna. Það hefur enginn tapað á því fjármagni nema sá aðili sem lagði sitt eigið fjármagn í það, og það er þá hans mál, en ekki annarra.

Ég þarf nú kannske ekki að fjölyrða miklu meira um þetta mál, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel mig hafa alveg óbundnar hendur um málið. Ég hafði þegar í upphafi, þegar það var lagt fyrir þingflokk minn, gert fyrirvara, og ég get látið það fylgja hér með að ég er búinn að gera það upp við mig að ég mun greiða atkv. gegn frv. Ég mun ekki einu sinni fallast á þær brtt. sem fram eru komnar hjá þeim mönnum sem eru að reyna að bæta það. Ég tel það ekki nægilegt. Ég vil reyna að koma í veg fyrir að frv. verði samþykkt. Ég tel að það stangist á við þá grundvallarhugsjón sem ég hef alltaf haft í sambandi við atvinnurekstur og er sannfærður um að það leiðir síður en svo til nokkurs góðs fyrir einn eða annan.

Þessi deila, sem komið hefur upp um Húnaflóann, ég tel að hún sé ekki þess eðlis að það þurfi vegna hennar lagasetningu. Fyrrv. hæstv. sjútvrh. hafa komist fram úr slíkri aðstöðu. Það hafa áður komið upp deilur í sambandi við sjávarútveginn og þeir hafa komist fram úr því án þess að biðja um sérstaka lagasetningu, og ég tel að til slíks sé ekki næg ástæða. Ef lausn þeirrar deilu á að gerast á þann hátt að hana eigi að leysa með beinu valdboði stjórnvalda, þá er það atriði sem ég mundi telja hvorki æskilegt né eðlilegt.