19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa þetta örstutt að þessu sinni. — Menn hafa sumir hverjir æst sig allmikið upp út af þessu máli að undanförnu og gerst jafnvel bæði orðhvatir og bókmenntalegir í sambandi við þetta sjávarútvegsmálafrv. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. sjútvn., þar sem ég lýsi því yfir að ég sé algerlega samþykkur þessu frv. og að mínum dómi hefði slíkt frv. mátt koma fram miklu fyrr og jafnvel snerta miklu fleiri þætti sjávarútvegsins en hér um ræðir.

Skipulagsleysi í veiðum og vinnslu sjávarafla á Íslandi hefur lengi verið ákaflega mikið og okkur til bölvunar. Og þótt þetta frv. snerti lítinn þátt í því stóra máli, þá álít ég það skynsamlega byrjun.

Ég lít á þetta mál þannig að eðli þessa máls sé það, að þegar rætt er um rækju- og skelfiskveiðar, eins og þetta frv. fjallar eingöngu um, og vinnslu á þeim afurðum, hvað svo sem menn hafa viljað teygja lopann í aðrar áttir með miklum fyrirgangi, þá er það alveg ljóst að á hverju svæði er um ákveðinn aflakvóta að ræða. Það má veiða á ári kannske 1500 tonn eða 2000 tonn eða hv.að nú kvótinn segir til um, og til þess að þessar veiðar og vinnsla úr afurðum veiðanna verði hagkvæm þarf að takmarka fjölda báta og hafa hæfilegan fjölda vinnslustöðva. Þeim skyldi verða valinn staður fyrst og fremst eftir byggðasjónarmiðum og atvinnuástandi á hverju landssvæði og síðast, en ekki síst hagkvæmisástæðum.

Ég er alveg undrandi á því þegar menn, sem eru búnir að glíma við íslensk sjávarútvegsmál áratugum saman, eru að berjast á móti mikilvægum atriðum í þessu frv., svo að ég tali nú ekki um það þegar er verið að dylgja um að hæstv. sjútvrh. muni koma til með að segja á Ísafirði: „Þið landið allir ykkar rækju hjá bróður mínum eða frænda“ — og í Stykkishólmi: „Þið landið allri rækjunni hjá Sigurði Ágústssyni af því að hann er í Sjálfstfl.“ o.s.frv., velta sér upp úr slíkum hugmyndum, eins og nokkrum manni detti í hug að hæstv. ráðh. muni misbeita þannig sínu valdi.

Fyrrv. hæstv. sjútvrh. býsnaðist mikið yfir því að núv. hæstv. ráðh. og rn. hans mætti ekki setja reglur um eitt eða neitt. Ég veit ekki betur en sjútvrn. hafi haft býsna frjálsar hendur í ýmsum málum með að setja reglur um þessa og hina hluti. Hví skyldi ekki rn. nú og núv. hæstv. ráðh. mega gera það í ýmsum atriðum eins og áður? En það virðist ekki vera. Það er bara taugatitringur um leið og minnst er á að hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason eigi að fá að gera einhvern skapaðan hlut.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði hér mjög skelegglega í bókmenntalegum stíl til þess að verja sjónarmið „bisnissmanna“ á borð við Ottar Yngvason og fleiri góða menn. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að fetta fingur út í þessa ræðu hans núna, hún hefur hingað til í þessu máli verið öll á sömu bókina lærð. Ég er dálítið hissa á því að menn, sem eitthvað hafa kynnst rekstri eða þykjast hafa vit á honum, eins og mér heyrist á Sighvati, hv. þm., skuli ekki gera sér grein fyrir því að með fjölgun vinnslustöðva, sem vinna eiga úr ákveðnu hráefni og þegar allir slást um sama hráefnið, þá hlýtur auðvitað hagkvæmni rekstrar hvers fyrirtækis að minnka í hlutfalli við fjölgun þessara stöðva. Hvað þýðir það? Það þýðir minni möguleika á endurbótum og lagfæringum á stöðvunum, verri afkomu, tiltölulega meiri kostnað. Og ég vil nú spyrja í sambandi við þetta, sem ég ætla að nefna næst: Hafa menn ekki heyrt talað um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins á hverju einasta ári í sambandi við íslensk efnahagsmál? Þegar verið er að reikna hann út, þá er tekið til skoðunar hvernig sé staða fiskvinnslunnar í landinu og þar fram eftir götunum. Hverjir hafa þurft að leggja hornsteininn að þessum rekstrargrundvelli? Og hverjir eru þeir sem að öðru leyti hafa þurft að treysta hann? Mér sýnist á ráðstöfunarfrv., sem verið hefur hér til umr. nú síðustu dagana, að það séu fyrst og fremst sjómenn, sem séu látnir borga þetta. Þeir, sem geta í sama orðinu verið að tala um að sjómenn séu látnir standa undir svo og svo miklum kostnaði til þess að standa undir rekstrargrundvelli sjávarútvegsins, vilja um leið heimta eða leyfa ótakmarkaðan fjölda vinnslustöðva til þess að vinna úr takmörkuðu hráefni, sem t.d. í Húnaflóa er ekki nema eitthvað 2500 tonn. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt mál ótalað því að nú líður að þeim tíma þegar ég hafði hugsað mér að fresta fundi.) Herra forseti. Ég vil svara því þannig, að mér hefur heyrst að hv. þm. aðrir hafi fengið að tala býsna lengi um þetta, en ég skal stytta mál mitt mjög og segja þá aðeins örfá orð í viðbót. (Forseti: Ég er ekki að mælast til þess við hv. þm. að hann felli niður nokkurn skapaðan hlut af því sem hann telur rétt að hér komi fram. Ég er reiðubúinn til að halda honum á mælendaskrá, þannig að hann hafi orðið aftur þegar fundarhléi lýkur.) Ég vil frekar velja þann kostinn að stytta mál mitt.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að því sem hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, talaði hér um. Það fór eins og fyrri daginn að hann fór að tala um allt annað mál og vísaði til þess að þetta frv.„ sem er ákaflega skýrt takmarkað við þetta tvennt, rækju- og skelfiskveiðar, væri bara byrjunin, svo ætti að fara að ráðast á aðrar veiðar, það ætti að fara að takmarka aðrar veiðar sem háðar eru leyfum. Ég verð nú að segja það að þetta frv. gefur ekkert tilefni til þess, jafnvel þótt mér fyndist fullkomin ástæða til þess að fara að hafa einhverja almenna yfirstjórn á þessu, t.d. humarveiðum o.fl. Og ég er undrandi yfir því að þessi hv. þm., sem sjálfur hefur rekið fiskvinnslustöð í Vestmannaeyjum, skuli vera fylgjandi endalausri þenslu í slíkum iðnaði á hverjum stað sem hefur þær afleiðingar sem ég lýsti hér áðan.

Vegna þess að mér skilst á hæstv. forseta, að þm. séu orðnir svangir, þá vil ég aðeins bæta því við, að mér finnst það vera hártogun, sem sett er fram í svipuðum stíl og maður les eftir miðaldaguðfræðinga, þegar hv. 2. þm. Austurl. er að leggja sérstaka áherslu á að breyta fyrirsögn frv. Í 1. gr. er talað um rækju- og skelfiskveiðar, og í 2. gr., í rauninni annarri efnisgrein þessa frv., er eingöngu talað um, eins og segir hér: „Í þeim greinum veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum samkv. 1. gr.“ Það kemur ekki punktur á eftir samkv. sérstökum leyfum, þá hefði kannske verið ástæða til þess að breyta fyrirsögninni. En ég sé enga ástæðu til þess að vera að reyna að eltast við hvern tittlingaskít í þessu máli til þess að geta verið að finna að skynsamlegum hlutum sem eru að mínu mati að byrja með þessu frv.