19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

64. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Forseti. Frv. um þetta efni var flutt seint á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt. Það hét þá „Frumvarp til laga um Ríkismat sjávarafurða“, en í þessu frv. hefur nafninu verið breytt á þann veg að það heitir nú „Framleiðslueftirlit sjávarafurða“, enda tel ég að það nái frekar til þess hlutverks sem það á að gegna, en það er meira en mat á sjávarafurðum, það er einnig að fylgjast með búnaði fiskverkunarstöðva. Að verulegu leyti er frv. samhljóða því frv. sem flutt var á síðasta þingi. Þó var breytt 6. gr., að við skipun forstjóra þessarar stofnunar skal ráðh. taka tillit til háskólaprófs í matvælafræðum eða annarrar sambærilegrar menntunar umsækjenda, samkv. þeirri till. sem sjútvn. Ed. lagði til og kom inn í frv. Enn fremur var sú breyting gerð, að aftan við 9. gr. bætist að nemendur, sem lokið hafa prófi frá Fiskvinnsluskólanum, skuli njóta forgangs við ráðningu matsmanna. Ég tel það eðlilegt, en ég tel að þrátt fyrir þessa breytingu hljóti allir að viðurkenna að þeir, sem hafa gegnt þessum störfum áður, séu jafngildir. En í framtíðinni finnst mér bæði sanngjarnt og eðlilegt að taka tillit til þess að þeir menn, sem leggja á sig nám á þessu sviði og ljúka prófi frá Fiskvinnsluskólunum, sitji fyrir um störf í sjávarútvegi.

Aðrar breytingar eru tiltölulega litlar, nánast orðalagsbreytingar og ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg mikla áherslu á að hraða afgreiðslu þessa máls, því að það er ætlunin að þegar þetta frv. er orðið að lögum verði fljótlega auglýst eftir forstöðumanni þessarar stofnunar sem þarf auðvitað að skipuleggja hana að nýju.

Hér er um að ræða að sameina starfsemi núverandi Fiskmats ríkisins og Síldarmats ríkisins í eina ríkisstofnun. Það hefur verið lítið starf hjá Síldarmati ríkisins á undanförnum árum af þeirri einu og eðlilegu ástæðu, að um síldarsöltun eða vinnslu úr síld hefur sama sem ekkert verið að ræða, og því er sú stofnun eiginlega orðin óþörf sem slík og á auðvitað að vera innan þessarar sömu stofnunar. Það er ekki gert ráð fyrir í þessu frv. að stofna þá deild við væntanlega stofnun, Framleiðslueftirlit sjávarafurða, en hins vegar ef síldarsöltun hefst hér aftur, þá er það mál alltaf opið. Ætlunin er að draga úr kostnaði, þegar þetta er orðin ein stofnun, og gera þar meiri hagræðingu en menn telja að hafi verið með því að hafa hér starfandi stofnanir með þessu sniði.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.