19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég sakna hins hógværa hv. 8. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar, ég ætlaði nefnilega sérstaklega að taka undir með honum í einlægri fordæmingu hans á frekjutóninum. En það verður að bíða betri tíma en nú er hann þó hógvær og af hjarta lítillátur eins og hans er vandi.

Ég hygg að hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, geri sér ekki grein fyrir mismuninum á landhelgi og fiskveiðilögsögu, og ég hygg að hann hafi misheyrt það sem ég sagði. Ég lét þess getið í leiðinni að í landhelginni ættum við sjóinn yfir landgrunninu líka, en við teljum okkur líka eiga fiskinn og aflann innan fiskveiðilögsögunnar. En ég hygg að menn séu sammála um að þar sé ekki um alfarinn eignarrétt okkar að tefla. Þetta er grundvallarmismunur og hv. þm., sem árum saman er búinn að vera í n. til þess að gera till. um hvernig nýta skuli landhelgina, það er mál til komið að hann fari að kynna sér þennan mikla mismun sem á þessu er.

Ég hef ekki breytt mínum fyrri sjónarmiðum, eins og hann vildi láta í skína, varðandi heimildir til annarra þjóða um veiðar innan fiskveiðilögsögunnar. Ég gat þess að við hefðum ævinlega af nauðung gert samninga við aðrar þjóðir um heimildir þeim til handa um veiðar innan fiskveiðilögsögunnar. En ég minnist þess ekki að hafa heyrt þau sjónarmið að til greina kæmi að við gerðum neina samninga við aðrar þjóðir um veiðar innan landhelginnar og ekki nú héðan af né heldur innan 12 mílnanna. Fræðimenn greinir nokkuð á hvort landhelgi eigi að telja 3 eða 4 mílur, en ég hef ekki heyrt þau sjónarmið höfð uppi lengi að það væri tekið í mál að semja við aðrar þjóðir eða semja um veiðar skipa sem sigla undir annarra þjóða fánum innan 12 mílnanna, hvað þá heldur, sem aldrei hefur skeð, innan landhelginnar sjálfrar. Og minni ég menn enn á það að gera skarpan greinarmun á landhelgi og fiskveiðilögsögu.

Hv. 3. þm. Sunnl. tefldi fram þeim rökum sem ég taldi fánýt í þessu sambandi, þeim rökum að þetta skip mundi mata verksmiðjur frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar og veita atvinnu, útflutningsverðmæti o.s.frv., o.s.frv. Þetta kann allt að vera rétt, enda þótt ég dragi í efa að það muni breyta neinu teljandi um atvinnu eða afkomu frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar hvort eitt skip til viðbótar færa að stunda veiðar eða ekki. En þetta er ekki meginatriði málsins.

Hann minntist einnig á það, að hér væri íslenskur aðili að fá heimild. Er það nú svo? Þetta er skip sem siglir undir dönskum fána og er að 2/3 hlutum a.m.k. eign erlendra manna. Ég varpaði þeirri spurningu fram, hvernig það yfirleitt mætti vera að hinn íslenski aðili væri eignaraðili að þessu skipi, af því að ég stend í þeirri trú að til þess skorti heimild fyrir íslenska menn að eiga slíkar eignir í öðrum löndum sem þinglýst er í viðkomandi landi. Um þetta skal ég þó ekki dæma í fljótheitum, ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel. En í þessari trú stóð ég, hvort sem hún er rétt eða röng.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason sagði að það væri meginatriði þessa máls að skipið skyldi vera bundið við að landa frá Patreksfirði norður og austur um land að Seyðisfirði, eða eins og hann sagði: Ef landa ætti annars staðar en tilgreint er þarna, þá mundi ég vera alfarið andstæður þessu. — Það er eins og ég kannist aðeins ofboðlítið við þessi viðhorf hjá hv. þm. Kynni kannske að vera að viðhorf hans mundu breytast ef skip eins og þetta yrði til trafala löndun í Vestmannaeyjum fyrir menn, heimamenn í héraði, sem þaðan sækja sjóinn? Ég er ekki að væna hann um þetta, en þessi grunur læðist að mér, og við það svipmót finnst mér ég kannast líka vegna fyrri viðhorfa hans til nýtingar landhelginnar frá t.d. Stokksnesi og að Reykjanestá.

Það var talið upp að þetta skapaði verðmæti, þetta væri atvinnuaukandi, þetta skapaði útflutningsverðmæti og þarna væri verið að hjálpa ungum manni til þess að komast yfir skip. Og hinn hógværi hv. 8. þm. Reykv., sem fordæmdi frekjutóninn, sagði að þetta skip væri að komast í eigu íslendinga. Það veit hann ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut um, það er alveg úr lausu lofti gripið, fullyrðing út í hött sem hann hefur ekki hugmynd um.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason spyr hvort eigi að láta alla þá loðnu deyja sem þetta skip ella mundi fá, hún mundi synda að austan, suður með, vestur um, norður fyrir og deyja. Þetta er alveg rétt. Fiskifræðingar tala um að loðnan týni tölunni að hrygningu lokinni, mestöll. Það væri þá eftir þessu kannske athugandi að íslenskir aðilar sem leigðu sem mest af stórum skipum — auðvelt er að fá íslenskar áhafnir á þau og leggja öllum hinum flotanum því að menn sækja svo stíft eftir að komast á þessi skip vegna uppgripanna í stuttan tíma — til þess að forða því að nokkur hluti loðnustofnsins verði ellidauður. Ég vil benda á að þetta ákvæði gefur t.d. það fordæmi að ég gæti leigt mér togara undir 500 tonnum, og það er enginn vandi að fá hann leigðan hér hið næsta okkur, í næstu löndum. (PS: Það eru nú hæg heimatökin hjá þér.) Það er enginn vandi að fá hann leigðan. Þessir hv. þm., sem hér standa á blístri, hafa ekki hugmynd um neitt í þessu sambandi, þeir hafa ekkert kynnt sér þessi mál. Ég gæti leigt mér togara og ráðið um borð í hann alíslenska áhöfn. Og nú spyr ég — og ég fagna því að hæstv. sjútvrh, er kominn í salinn því að ég á aðeins erindi við hann — nú spyr ég: Mundi það verða leyft — og það hlytu menn að gera, sem fylgja þessu bráðabirgðaákvæði — að ég sækti á sömu mið og togarar undir 500 tonnum hafa leyfi til samkv. okkar reglum um nýtingu landhelginnar? (Gripið fram í) Það var einmitt það. (Gripið fram í.) Nei, málið er of alvarlegt til að skopast af því, enda er siður en svo að mér sé hlátur í hug.

En ég vildi mega spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort ekki sé óhyggilegt, eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl., að stofna til átaka, harkalegra átaka við samtök útvegsins. Það kemur skýrt fram í bréfi þeirra að þeir telja að þessi víðbót við lögin sé samningsrof, rof á þeim samningum, því samkomulagi sem gilt hefur um þetta efni, um að stjórna löndun á loðnu í bræðslu, og tala um að íhuga að draga fulltrúa sinn út úr n. Ég spyr aðeins: Er þetta ekki óhyggilegt?

Ég verð að segja að mig undrar stórlega þegar hv. 3. þm. Sunnl. vill ekkert gera með álit Landssambands ísl. útvegsmanna í þessu efni. Sér í lagi kemur mér þetta á óvart vegna þess að í sambandi við frv. um skiptingu gengishagnaðarins, ráðstafanir í sjávarútvegi og skiptingu gengishagnaðarins, þá lýsti hann því margsinnis yfir, dögum og vikum saman, að hann mundi ekki hvika frá samþykktum sem gerðar hefðu verið af Landssambandi ísl. útvegsmanna, síst þeim sem gerðar hefðu verið á aðalfundi þeirra samtaka. Nú er eins og þessi áhugamaður um útvegsmál og mikill stuðningsmaður LÍÚ vilji ekkert með það gera þótt beinlínis liggi fyrir af hálfu þessara samtaka að þau lýsa stríði á hendur þeim — það má næstum því orða það svo — sem ætla að fara fram með þessum hætti sem við nú höfum hér fyrir augum. Síðan eru það þessi atriði sem fram komu hjá hv. 3. þm. Sunnl., að ég nú ekki tali um hv. hógværan 8. þm. úr Reykjavík. Allt eru það alger aukaatriði í þessu sambandi.

Ég tók það fram áðan að ég væri manna fúsastur til þess að styðja unga menn til þess að komast yfir skip og vitanlega að styðja menn í því að ná heim nýjum skipum. Þetta er alveg nýtt skip og glæsilegt, og ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að styðja það með ráðum og dáð að menn frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar fái loðnu til bræðslu og atvinnu og að auka útflutningsverðmætin. En þetta er allt annað mál sem sér skiptir sköpum. Það er allt annað atriði sem skiptir sköpum. Það er um það að tefla hvort við í fyrsta skipti eigum að gera undantekningu og semja um veiðiheimild fyrir skip sem siglir undir annarrar þjóðar fána um veiðar innan íslenskrar landhelgi. Þetta atriði er auðvitað gífurlega mikilvægt, skiptir öllu máli í þessu sambandi og mundi gera það enda þótt svo stæði ekki á að við erum á mjög alvarlegu stigi með okkar landhelgismál og fiskveiðilögsögu yfirleitt. Það er ekkert á það hættandi að tefla stöðu okkar í neina tvísýnu. Það er ekki gerandi upp á greiðasemi né heldur fyrir einhverja farma af loðnu þótt atvinnuaukandi séu og útflutningsverðmætisaukandi einnig. (Gripið fram í.) Ef það væri siglt undir íslenskum fána, að sjálfsögðu. Ég hef staðið að því ásamt öðrum mönnum að flytja inn loðnuskip og reka eitt meira að segja sem siglir undir íslenskum fána með íslenskri áhöfn (Gripið fram í: En er veiðin nokkur?) Ja, það hef ég ekki sagt, en eftir þessa samþykkt væri það leikur einn, því að enginn vandi er, eins og ég sagði, í venjulegu árferði sem verið hefur að fá nægan mannafla til loðnuveiða. Að vísu eins og nú stendur á, kynni það að leiða til þess að öðrum skipum yrði að leggja, en vafalaust mundi vera hægt að manna þrjú skip, það væri sjálfsagt hægt að manna 10 stór skip.

Þetta er málið sem ég hnýt um. Allra annarra hluta vegna vill maður verða við þessu, en þetta atriði skiptir slíkum sköpum í þessu sambandi að gersamlega er útilokað að ansa því, hvað þá meir. Og ég læt mér ekki detta í hug að hv. Ed.- menn hafi litið á þetta mál með þessum hætti sem nú er komið á daginn, og sannar enn deildaskiptingin gildi sítt hér á hinu háa Alþ.

Ég mun, hæstv. forseti, fara fram á það þegar kemur að afgreiðslu þessa máls að um þetta bráðabirgðaákvæði verði viðhaft nafnakall, því að alveg er nauðsynlegt að það sjáist þegar fram líða stundir, hverjir vilja hætta því til út af hinu allra smæsta atriði að skapa slíkt fordæmi eins og í þessu felst.