19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af fsp. hv. 3. þm. Austurl. Því miður heyrði ég ekki þær umr. sem fram fóru vegna þess að ég þurfti að vera við umr. í Ed., en ég hélt, þegar þetta mál var afgr. út úr Ed. í gærkvöld, að það mundi ekki valda neinum úlfaþyt. Þar var þetta bráðabirgðaákvæði tekið upp af allri sjútvn. Ed. og samþ. með shlj, atkv. Og ég tek alveg undir þau orð sem hæstv. dómsmrh. viðhafði hér áðan, að ég er ekkert hræddur við að þetta mál skapi neitt fordæmi vegna þess að þetta leyfi er bundið við Alþ. Það er Alþ. sem veitir þetta leyfi, það mega engin stjórnvöld breyta því í einu eða neinu. Það nær til tveggja mánaða, febrúar og mars 1975. Ef loðna væri fram í apríl, þá gæti ríkisstj. eða sjútvrn. ekki veitt þessu skipi leyfi til þess að veiða einu sinni 1. apríl, hvað þá meir. Hvað er að óttast fordæmi í þessu sambandi? Ég skil þetta ekki. Svo spyrja menn alltaf sýknt og heilagt: Hvað segja stéttarsamtök um þetta og hitt? — Ef eitthvert félag segir: Ég mótmæli þessu eða vil hafa það á annan veg, — þá ætla margir fulltrúar á löggjafarsamkundu þjóðarinnar að segja: Það var félag sem mótmælti þessu, þá getur Alþ. alls ekki samþykkt þetta. — Hvernig ættum við að koma fram löggjöf sem kveður á um þunga skatta á kannske velflestar stéttir ef við ættum að fara að spyrja stéttir og hagsmunahópa um álit hvort þeir vilji fá þessa skatta á sig eða ekki? Og ef þeir segja nei, á þá Alþ. að segja: Nei, þá hættum við auðvitað við allt saman? — Ég skil þetta ekki og ég segi alveg eins og hæstv. dómsmrh. sagði: Þetta bréf Landssambands ísl. útvegsmanna verkaði mjög illa á mig og þykir mér þó mjög vænt um þau samtök sem gamall stjórnarmeðlimur. (Gripið fram í.) Jú, en að skrifa svona bréf, að ef Alþ. hlýði ekki í einu og öllu, þá ætli samtökin að draga fulltrúa sinn út úr þessari n. Ég segi bara: Ef þetta verður samþykkt sem hér er þá mega samtökin draga fulltrúa sinn út úr n. Þau um það. Þau eiga ekki að segja Alþingi íslendinga fyrir verkum. Það er sitt hvað að leita álits og afla upplýsinga í málum eða ætla að fara að setja mönnum stólinn fyrir dyrnar á síðustu stundu í viðkvæmum málum.

Mér er alveg ljóst að þetta mál er viðkvæmt. Þetta byggist á lögum sem við höfum aldrei endurskoðað og aldrei hreyft við frá 1922: Við viljum hafa löndunarleyfi hjá öðrum þjóðum og bregðumst illa við þegar sett er á löndunarbann sem vonlegt er. Við höfum löndunarleyfi í Hirtshals í Danmörku á síld úr Norðursjónum. Við verðum að taka eitthvert tillit til annarra, við erum ekki einir í heiminum. Og hvað er hér um að ræða? Jú, það er alveg rétt, þetta skip er undir erlendu flaggi. Þess vegna er verið að sækja um þetta leyfi. En það er alíslensk áhöfn og eigandi að töluverðum hluta, en þó ekki að meiri hl., er íslendingur, íslenskur sjómaður og skipstjóri. Ég segi fyrir mitt leyti að ef við lítum á það, þá fer yfirgnæfandi meiri hl. af því fjármagni sem þetta skip kemur til með að afla til íslenskra skattþegna. Það finnst mér skipta mestu máli. Ef menn eru hræddir um að einhverjir braskarar fari af stað og leigi skip og ráði íslenska áhöfn og vilji fá leyfi til loðnuveiða á næstu vertíð, þá hefur Alþ. það alveg í sinni hendi að meta hvert erindi fyrir sig og hvort það ætlar að verða við því eða ekki.

Ed. er shlj. búin að verða við þessu erindi á þann hátt. Sjútvn. Ed. hefur einróma tekið þetta upp sem sína till. Við gerðum það ekki í rn. í sambandi við loðnufrv. Mér finnst það skipta æðimiklu máli þegar fyrri þd. er búin að fjalla um málið með þessum hætti, og ég hélt að það þyrftu ekki að verða háværar og miklar umr. um þetta mál. Ég held að það sé langþægilegast að láta bara atkv. ráða hér úrslitum þegar að því kemur, en hafa ekki hér uppi neinar heitingar í þessum málum.

Í sambandi við það sem fram kemur í bréfi LÍÚ, þá segir að í till. sjútvn. Ed., þar sem gert er ráð fyrir að heimila umræddu erlendu skipi veiðar, sé ekki tekin afstaða til þess hvort skipið eigi að fá olíu á sama verði og íslensk skip, hvort það eigi að eiga aðild að Tryggingasjóði fiskiskipa eða Stofnfjársjóði. Nú greiða loðnuafurðirnar af sínu útflutningsverði og ef þetta skip framleiðir vöru, fiskar fyrir verksmiðjurnar, þá er það í raun og veru að boga í þessa sjóði af sínum afla. En líka segir í frv.: „enda hlíti það reglum er sjútvrn. setur, sé rekið af íslenskum aðila og áhöfn þess sé íslensk.“

Þá komum við að aðeins einu vandamáli, ef vandamál skal kalla, aflinn úr þessu skipi — það sem úr honum er unnið — kemur í þessi kerfi öll og þá komum við að því: Á þetta skip að fá aftur úr því kerfi sem það leggur til fjármagn? Og þá getum við sett þær reglur að a.m.k. fái þetta skip ekki að græða á þessu kerfi, og það hygg ég að eigendur þessa skips eða réttara sagt leigutaki, sem er eigandi, muni alveg fullkomlega sætta sig við, eða ég get ekki ímyndað mér annað. Svo er það þung og mikil kvöð sem þarna er sett á þetta eina skip, sem er að mörgu leyti eðlilegt að gera, að landa í verksmiðju sem hefur á undanförnum árum vantað hráefni til að vinna, og það finnst mér skipta afar miklu máli.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég er orðinn það fullorðinn að ég hrekk ekkert við þó að komi mótmælabréf, því að ég veit ekki hvað er gert í þessu þjóðfélagi sem er ekki mótmælt. Ég yrði eiginlega meira hissa á því ef menn mótmæltu ekki, því að þá skildi ég ekki hvað væri að mönnum ef þeir hefðu ekki móð í að mótmæla, því að það er að verða ein mesta árátta allflestra stétta og starfshópa á Íslandi að mótmæla öllu.