19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar þeim orðum sem ég hef þegar haft um þetta mál, sem eru, eins og fram kom í minni ræðu, jákvæðar undirtektir undir það mál sem hér er farið fram á. Mér þykir vænt um að hafa hlustað á orð hæstv. dómsmrh. sem skýrði ákaflega vel þá hugsun mína að við eigum ekki lengur að vera hræddir við ráðstöfun á okkar eigin yfirráðasvæði, sem ég tel að sé okkar. Þótt við höfum kannske neyðst til þess að ganga til ekki mjög góðra samninga fyrir nokkrum missirum, þá er þetta þó okkar yfirráðasvæði sem við höfum með að gera, okkar landhelgi, og skiptir þá einu hvort um er að ræða 50 mílur, 12 mílur eða 3 mílur. Þetta er okkar svæði og við eigum ekki að gera okkur að þeim börnum að við séum hræddir við að gera samninga við eitt slíkt skip sem dugnaðarsjómenn hafa komist yfir, þótt það sé enn þá undir dönskum fána, en þeir eru að eignast og verður kannske innan skamms tíma komið undir íslenskt flagg okkur til framfara hér á landi. Við skulum ekki horfa fram hjá því heldur að spáin í ár um loðnuveiðina er á þann veg að það verði mikil loðna í sjónum. stóra spurningin er máske sú: Verður veður til þess að ná henni, verður nógu mikill skipafjöldi til þess að veiða hana og hvaða skip eru það sem geta leyft sér að sigla þá löngu og hættulegu leið með fullfermi af loðnu, kannske frá Suðausturlandinn, frá Suðvesturlandinu og að Norðurlandinu, þar sem við eigum hinar stóru og þýðingarmiklu bræðsluverksmiðjur til þess að vinna verðmæti úr loðnunni? Við ætlumst ekki til þess, enda hefur það ekki verið gert nema af hinum stærri og betri skipum, við látum ekki hin minni skip sigla á þessum árstíma með fullfermi af þessum flutningi, hvorki fyrir Horn né fyrir Langanes frá suðurströndinni. Það held ég að allir sjái og ekki síst þeir sem teljast úr röðum útgerðarmanna hér í þingsölum.

Ég vil aftur undirstrika þau orð mín og mótmæla því algerlega, sem kom fram frá einum ræðumanni, að Alþingi íslendinga þurfi að lenda í nokkrum harkalegum átökum við samtök útgerðarmanna. Ég undirstrika enn orð mín og tek undir með dómsmrh. að þessi stéttarsamtök hafa auðvitað engan rétt frekar en önnur til þess að haga sér svona gagnvart löggjafarsamkomu íslendinga. Þetta verkar algerlega öfugt þegar þessir aðilar koma þannig fram eins og þeir gera í þeirri umsögn sem þeir hafa sent sjútvn. þingsins. A.m.k. vil ég ekki hlusta á slíkt.

Ég tók eftir einu hjá hv. þm., Sverri Hermannssyni. Hann misfer sig enn, eins og margir gera þegar talað er um veiðislóðir, landhelgi og fiskveiðilögsögu, eins og ég sagði áðan, í því að tala um ákveðna fjarlægð frá grunnlínu eða frá ystu nesjum. Það er eins og það sé sjálfsagt og þar sé fundin öll lausn ef hringfara sé stungið ofan í kort okkar á miðjum Kili eða Kjalvegi og dregið svo umhverfis landið og þar sé hin helga lína sem þýði allt fyrir okkur í sambandi við fiskveiðilögsögu. Þetta er misskilningur eins og hér hefur margoft komið fram. Það kemur ekkert málinu við hvort loðna er veidd 3 mílur frá landi eða innan við 3 mílur. Þessi fiskur er á ferðinni og það er ekkert sem stöðvar hana frá því. Ég veit að ef hún sæi framan í hv. útgerðarmann, þá mundi hún sjálfsagt fá hjartaslag, fleiri en ein. En ég er alveg viss um hins vegar, að það verður ekkert veiðarfæri annað en það, sem notað er af þeim skipum sem loðnu veiða í dag, sem nær þessum fiski, hvorki utan né innan markanna. Það er eitt þýðingarmesta atriðið. Þessi fiskur verður ekki á þessum veiðislóðum eftir að nokkrar klukkustundir eru liðnar frá því að hann var þar á ferð, þannig að við erum ekkert að eyðileggja fyrir framtíðinni með því að ná í þennan fisk meðan hann syndir fram hjá. Við erum hins vegar að skapa íslensku þjóðinni verðmæti. Við erum að veita aðstöðu áhöfninni á þessu skipi og eigendum þess sem, eins og réttilega hefur verið bent á, koma til með að borga sína skatta til íslensku þjóðarinnar, sem verður okkur ómetanlegt, auk þess sem þeir geta kannske náð upp úr dauðadvala ákveðnum verksmiðjum sem hafa ekki haft of mikið úr að moða á undanförnum árum. Ef eigendur þessa skips bjóðast til þess að sigla til Norðurlands með afla sinn á þessu stóra og glæsilega skipi, þá segi ég að við eigum að þakka fyrir að fá þá til þess.

Og þessi þrælsótti okkar gagnvart danska fánanum. Ég hélt satt að segja að hann væri horfinn úr mönnum, það væri liðin tíð að menn hefðu þetta efst í huga. En ég sá og heyrði á ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar, að hann lifir enn á árinu 1918.