19.12.1974
Neðri deild: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

64. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að hér er um stórmál að ræða. Það er verið að koma á fót nýrri stofnun um framleiðslueftirlit með sjávarafurðum. Sú n., sem um málið fjallaði í Nd., fékk nákvæmlega 41/2 mínútu til þess að ganga frá áliti sínu og móta afstöðu til málsins. Ég treysti mér ekki á svo skömmum tíma til þess að móta mér skoðun á þessu, hvort heldur er að vera með því eða á móti, þannig að ég mun ekki taka þátt í að afgreiða þetta mál. Ég skil það mætavel út af fyrir sig að það liggi á að afgreiða mál eins og þetta, en ég vil mjög kvarta undan því að n., sem á að fjalla um þetta mál í þessari hv. d., fær ekki rýmri tíma en henni gafst í kvöld. Ég vil beina því til forseta, ráðh. og nefndarformanna, að þegar á að afgreiða mál eins og hér er gert og vitað er að skammur tími er til stefnu, hvort væri þá ekki ráð til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála og til þess að menn gætu gefið sér tíma til þess að kynnast þeim, að nefndir beggja d. hefðu sameiginlega fundi þar sem um slík mál væri fjallað.

Um þetta mál hefði ég talið eðlilegt, fyrst afgreiða átti málið á svo skömmum tíma, að sjútvn. Nd. hefði verið boðið a.m.k. að eiga aðild að fundum með sjútvn. Ed. um þetta mál því að sá háttur hefur oft verið á hafður undir svipuðum kringumstæðum. Og ég vil eindregið vonast til þess, að ef horfur eru á því fyrir annir að vori að slík mál kunni að koma upp sem vitað er fyrir fram að muni bera seint að í þinginu, að þá verði sá háttur á hafður að nefndir þær, sem um málið eiga að fjalla í báðum deildum, geri það þá á sameiginlegum fundum, til þess að það þurfi ekki að koma upp að n. annarrar d. fái 5–6 mínútur til þess að ljúka því að taka afstöðu til slíks máls.

En sem sagt, eins og ég segi, ég mun ekki taka afstöðu til þessa frv. Ég þekki það ekki nógu vel til þess. Ég mun ekki leggjast gegn því og ég mun ekki heldur greiða atkv. með því. En ég fer þess eindregið á leit við forseta, ráðh. og formenn n. að þeir reyni að leggja niður svona starfshætti sem ég tel ámælisverða.