20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka fram, eins og ég gerði við 2. umr., varðandi brtt. sem fjvn. flytur sameiginlega, að um þær gildir hið sama og fyrr, að þótt till. séu að venju fluttar í nafni n. í heild, þá þýðir það ekki að hver og einn nm. sé samþykkur sérhverri brtt.

Með afgreiðslu Alþ. á frv. til fjárl. fyrir árið 1975 við 2. umr. hækkuðu áætluð útgjöld ríkissjóðs um rúmlega 800 millj. kr., og skv. þeim till., sem nú hafa verið bornar fram og gera má ráð fyrir að verði samþ. við 3 umr., munu útgjöld enn hækka um 1600–1700 millj. kr. til viðbótar. Áætluð útgjöld ríkissjóðs á næsta ári munu því nema um 47200 millj. kr. og hækka um 17800 millj. frá núgildandi fjárl., eða um 60.5%. Skattheimtan hækkar um 18400 millj. eða um nær 63.1%. Er hér um að ræða langsamlega mestu hækkun ríkisútgjalda sem um getur á einu ári.

Við 3. umr. er gert ráð fyrir að lántökur samkv. A- og B-hluta fjárl. vegna verklegra framkvæmda hækki um 1500 millj. kr. og nemi þá á væntanlegum fjárl. um 6000 millj. kr.

Þegar hugað er að þessari gífurlegu hækkun rekstrarútgjalda og að fyrirhuguðum lántökum er algerlega ljóst að niðurstöður fjárlagaafgreiðslunnar gagna þvert gegn þeim tveim aðalmarkmiðum, sem boðuð voru í grg, frv., þeim meginmarkmiðum að stefna gegn útþenslu í ríkisútgjöldum og styrkja fjárhag ríkissjóðs. Í grg. með fjárlagafrv. er sérstaklega tekið fram, að við meðferð frv. á þingi verði keppt að því að hækka verulega, eins og það er orðað, endurgreiðslur á skuld við Seðlabankann frá því sem í frv. er gert ráð fyrir. Í stað þess að af því verði er árangurinn stóraukin fjármögnun framkvæmda með lántökum. Þessu til viðbótar er nú í meðferð þingsins frv. um sölu verðtryggðra skuldabréfa vegna tiltekinna vegaframkvæmda fyrir um 2000 millj. kr. og sóst er eftir að hækka þá lántöku enn um hundruð millj. kr. Slíkar aðgerðir samtímis stórfelldustu þenslu á rekstrarútgjöldum, sem nokkru sinni hefur átt sér stað í þingsögunni, ganga að sjálfsögðu þvert gegn öllum boðuðum markmiðum í grg. frv. og gegn stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um að hún muni stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum.

Þessi niðurstaða við lokaafgreiðslu fjárl. er í samræmi við það, sem við blasti og ég hef við 1. og 2. umr. áður lýst, að vænta mætti. Er því ekki ástæða til að þessu sinni að fjalla í löngu máli um fjárlagafrv. og fyrirsjáanlegar niðurstöður þeirrar afgreiðslu sem hér fer fram. Vil ég því aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt um þennan fjárlagafrumburð hæstv. fjmrh., sem boðaði þjóðinni í fyrra niðurskurð ríkisútgjalda um sem svarar 5—6 þús. millj. kr. á næsta ári, en hækkar þess í stað útgjöldin um ríflega 18 þús. millj. kr., þegar til hans kasta kemur aðeins ári síðar að leggja fram og fá samþykkt fjárlög.

Þessi ömurlega niðurstaða sýnir glöggt að stefna ríkisstj. er gersamlega úr böndunum. Þrátt fyrir stöðvun verðlagsbóta á laun æðir verðbólgan áfram. Þrátt fyrir kaupbindingu hafa verðlagshækkanir á tímabilinu eftir að ríkisstj. tók við völdum verið svo gegndarlausar, að þær samsvara 60% verðlagshækkunum á ári. Enn blasa við nýjar hækkanir. Í till. um breyttar fjárhæðir í áætlunum um rekstur Pósts og síma er gert ráð fyrir 35.4% hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins eftir áramótin. Og fram hefur komið í fjvn., að á döfinni er allt að 50% hækkun á afnotagjöldum útvarps og sjónvarps.

Þrátt fyrir stórfelldar lántökur og skuldasöfnun til að standa undir framkvæmdaliðum, þegar rekstrarliðirnir hafa gleypt tekjurnar, er ljóst að til þess að geta stillt upp tekjuhliðinni svo að dugi á pappírnum a.m.k. til að mæta þessari feiknalegu útgjaldaaukningu verður að tefla á allra tæpasta vað við áætlun teknanna. Á svo tæpt vað er teflt í þessu efni, að segja má að ríkisstj. neyðist til að velja sér forsendur og gera ráð fyrir þróun sem er í algerri mótsögn við yfirlýsta stefnu hennar í efnahagsmálum, þá stefnu að draga úr því sem stjórnarflokkarnir kalla óviðunandi þensluástand. Stórkostleg útgjaldaaukning ríkissjóðs, útþensla í rekstrarútgjöldum og meðfylgjandi skattheimtuþörf, en skattheimtan er áætluð 63% hærri en á núgildandi fjárl., kallar á og krefst þensluástands á öllu næsta ári, en fjöldamörg óviðráðanleg atriði, sem ráða þróun efnahagsmála, benda til annarrar niðurstöðu.

Stefna ríkisstj. í kjaramálum, stórskerðing kaupmáttar launa, stuðlar einnig að samdrætti sem gengur í berhögg við kröfur sem fjárlagaafgreiðslan gerir til stórkostlega aukinnar skattheimtu með neyslusköttum.

Þjóðhagsstofnun hefur stillt upp þremur áætlunum um hugsanlegar tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Fyrsta dæmi gerir ráð fyrir innflutningi í svo ríkum mæli, að það dæmi telur stofnunin einungis reikningsgrundvöll, en ekki spá um raunverulegar niðurstöður. Þar er t.d. gert ráð fyrir innflutningi 7000 bifreiða á næsta ári. Í öðru dæmi, dæmi 2, er gert ráð fyrir heldur minni innflutningi, þ.e.a.s. 4–5% minni almennum vöruinnflutningi en í ár. Í dæmi 1 er miðað við 2% minnkun. Þess er sérstaklega getið í aths. Þjóðhagsstofnunar, að magnminnkun innflutnings geti orðið mun meiri en 2%, en breyting af því tagi gæti, eins og segir orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta, „reynst sérlega afdrifarík fyrir ríkistekjurnar, því að ætla má að samdrátturinn verði helst í hátollainnflutningi, t.d. bílainnflutningi“. Samkv. þessu stillir Þjóðhagsstofnun einnig upp dæmi 3, þar sem ríkistekjurnar eru áætlaðar 46.8 milljarðar kr.

Í dæmi nr. 2, þar sem ekki er svo varlega farið, t.d. er gert ráð fyrir innflutningi 6 þús. bifreiða á næsta ári, eru tekjur áætlaðar alls 47 milljarðar 319 millj. kr. Þessi upphæð dugði stjórnarflokkunum ekki. Þeir áætla tekjurnar 47 milljarða 595 millj. kr. Þegar þeir hafa þanið rekstrarútgjöld ríkisins svo út sem raun ber vitni verður niðurstaðan sú, að dæmi nr. 2 dugir ekki til þess að unnt sé að samþykkja greiðsluhallalaus fjárlög miðað við áætluð útgjöld. Þá er gripið til þess að hækka einstaka liði í áætlun Þjóðhagsstofnunar í dæmi nr. 2 af handahófi, þar til heildarhækkunin í þessu hærra dæmi Þjóðhagsstofnunar nemur 276 millj. kr. Með því móti tekst að skila á pappírnum 145 millj. kr. greiðsluafgangi. Til þess að ná saman endum í fjárl. er þannig gripið til þess að hækka þá tekjuáætlun Þjóðhagsstofnunar, sem er sú hærri þeirra tveggja áætlana sem stofnunin telur koma til greina að fara eftir. Bakgrunnur tekjuáætlunarinnar er svo, eins og ég vakti athygli á við 2. umr., m. a.: Áætlaður viðskiptahalli, sem getur numið 10 milljörðum kr., 1–2 þús. millj. kr. rýrnun gjaldeyrisstöðunnar, áætlanir um að gengið verði á útflutningsbirgðirnar, mjög hæpin spá um aukningu útflutningsframleiðslunnar, þar sem viðurkennt er af Þjóðhagsstofnun að byggt er á meiri bjartsýni en spár fiskifræðinga gefa tilefni til og vafasamri spá um hækkun útflutningsverðs sjávarafurða, og fleiri atriði mætti nefna.

Það er augljóst að áætlanir um tekjur til að mæta útþenslu í rekstrarútgjöldum, áætlanir um að unnt sé að auka skattheimtu, fyrst og fremst neysluskatta, um hvorki meira né minna en 18400 millj. kr., 63% tekjuaukningu og um 10500 millj. kr. frá raunverulegum tekjum á þessu ári, eru byggðar á annarri þróun efnahagsmála en ríkisstj. telur sig vera að stefna að.

Fyrirsjáanleg útþensla rekstrarútgjalda ríkissjóðs hefur í för með sér svo ofboðslega skattheimtu, að enginn samdráttur má í rauninni verða svo að þessi spilaborg hrynji ekki. Til þess að hafa tekjur upp í þessa útgjaldahækkun hefur ríkisstj.-flokkunum ekki dugað að nota hæpnustu forsendur til að áætla tekjuliði fjárl. Þeim hefur ekki dugað að hækka tekjuliði umfram það dæmið sem hærra er í áætlun Þjóðhagsstofnunar þeirra tveggja sem stofnunin telur að komi til greina að miða við. Það dugir ríkisstj.- flokkunum ekki heldur að skera þar á ofan niður framlög til hafnarframkvæmda, flugvallagerða og til framkvæmda við verknámsskóla í landinu og miklu fleiri mikilvægari verkefni.

Ofan á allt þetta grípa þeir til þess sem síst skyldi til þess að ná saman endum á risafjárlögum sínum. Þeir skera niður framlag til lífeyristrygginga miðað við þær fjárhæðir sem þyrftu að vera á fjárl., til þess að unnt væri að sjá a.m.k. þeim, sem tekjulausir eru og hafa ekkert annað sér til lífsviðurværis en tekjutryggingu almannatrygginganna, fyrir óskertum kaupmætti lífeyris. Þessi lífskjaraskerðing þeirra, sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu, á enn eftir að aukast frá því sem orðið hefur undanfarna mánuði. Sú rýrnun verður samhliða hverri nýrri verðhækkun á næsta ári. Á fjárl. gera stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., ekki ráð fyrir neinu fé til að bæta þessum öryrkjum og gamalmennum kjaraskerðingu umfram 3% hækkanir til jafns við umsamdar kauphækkanir allra launamanna 1. des. s.l. og 1. júní n.k. Þær fjárhæðir eru að sjálfsögðu eins og dropi í hafið á móts við verðhækkanirnar. Eftir þá 3% hækkun ellilífeyris og tekjutryggingar, sem ráðgert er að bætist við þessar greiðslur eins og þær eru nú til samræmis við hækkun grunnlauna allra launþega 1. des. s.l., nemur almennur elli- og örorkulífeyrir 13339 kr. á mánuði. En elli- og örorkulífeyrir að viðbættri tekjutryggingu hjá þeim, sem engar aðrar tekjur hafa, nemur alls 21398 kr. á mánuði. Eru þá innifaldar í þessum upphæðum 6% hækkun á almennum ellilífeyri og örorkulífeyri og 10% hækkun á tekjutryggingarupphæð samkv. brbl. frá 1. sept. Engar breytingar hafa fengist í áætlun fjárl. á greiðslu til þessa fólks aðrar en þær, að gert er ráð fyrir þessari 3% hækkun, sem ég nefndi, og öðrum 3% 1. júní n.k. í kjölfar umsaminnar grunnlaunahækkunar til alls launafólks í landinu.

Þegar haft er í huga, að samhliða hækkunum á þessum greiðslum samkv. brbl. og nú 3% hækkun vegna grunnkaupshækkunar hjá launafólki hafa orðið verðlagshækkanir í miklu ríkara mæli, er ljóst að veruleg skerðing hefur þegar orðið á lífeyri þess fólks sem við bágust kjör býr í þjóðfélaginu. Ég skal nefna nokkur raunveruleg dæmi um, hversu mikið var hægt að kaupa af tilteknum vörutegundum fyrir þennan lífeyri um það leyti sem núv. ríkisstj. tók við völdum, og nefna til samanburðar hvað fyrir hann fæst í dag af sömu vöru. Þá er búið að gera ráð fyrir hækkun lífeyris um 3% miðað við 1. des.

Ef fyrst er athugaður kaupmáttur almenns ellilífeyris kemur í ljós eftirfarandi: Í ágúst fengust fyrir mánaðarlífeyri rúgbrauð 200 stk., nú, 173, franskbrauð 254 stk., nú 222, kartöflur 773 kg, nú 319, strásykur 81.4 kg, nú 48.5 kg, kaffi 32.7 kg, nú 27.7 kg, mjólk 522 lítrar, nú 430, skyr 229.6 kg, nú 146.6 kg, súpukjöt 51.3 kg, nú 40.5 kg, smjörlíki 71. 4 kg, nú 62.3 kg, haframjöl 147.2 kg, nú 116 kg, hveiti 162.9 kg, nú 148.2 kg og smjör 49.9 kg, nú 28.8 kg. Og fyrir tekjutryggingarupphæðina fékkst í ágúst rúgbrauð 310 stk., nú 278, franskbrauð 393 stk., nú 356, kartöflur 1195 kg, nú 512, strásykur 125.9 kg, nú 77.6, kaffi 50.5 kg, nú 44.4, mjólk 807 lítrar, nú 690, skyr 354.9 kg, nú 235.1, súpukjöt 79.3 kg, nú 65 kg, smjörlíki 110.4 kg, nú 100 kg, haframjöl 227.5 kg, nú 186.1 kg, hveiti 251.8 kg, nú 237.8 og smjör 77.1 kg, nú 46.2 kg.

Þessar tölur sýna, hvað er að gerast varðandi lífskjör þessa fólks. Í þessum tölum er þegar gert ráð fyrir þeim 3%, sem koma munu til útborgunar eftir 1. jan. n.k., og enn dynja verðlagshækkanirnar yfir og eiga eftir að gera það allt næsta ár. Í fjárl. er hins vegar ekki gert ráð fyrir einni kr. til þessa fólks til að mæta þeirri kjararýrnun, sem ég var að nefna dæmi um, umfram 3% sem koma eiga til greiðslu frá 1. júní n.k. Þau fjárlög, sem hér er verið að samþykkja, gera ekki ráð fyrir því að nokkur frekari hækkun verði á þeim þurftarlífeyri sem þessu fólki er ætlað að lífa á, en augljóst er hvað á meðan gerist um kaupmátt lífeyrisgreiðslnanna. Og hvað á þetta fólk svo að fá eftir 1. júní n.k.? Almennur elli- og örorkulífeyrir á að hækka um 402 kr. á mánuði, eða um 13.40 kr. á dag. Og tekjutryggingin til þeirra, sem ekkert hafa annað til framfæris, á að hækka um 642 kr. á mánuði, eða um 21.40 kr. á dag eftir 1. júní n.k. Þetta fólk á að búa við stórskertan kaupmátt lífeyris og bíða síðan í hálft ár eftir því að fá hækkun sem nemur 13.40 kr. á dag og 21.40 kr. á dag.

Þessar upplýsingar vildi ég að hv. alþm. fengju áður en þeir afgreiða fjárlög nú, svo að það fari ekki á milli mála, að þm. Sjálfstfl. og Framsfl. viti hvað er verið að gera þegar þeir eru að samþykkja nær 50 þús. millj. kr. fjárlög og hnýta saman endana með þeim hætti að afgreiða framlög til lífeyrisgreiðslna almannatrygginga eins og hér er ráðgert. Ég vildi að þeir vissu hvað þeir eru að gera í þessu efni nú, áður en þeir fara til síns heima að halda jólin hátíðleg.