20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. samvn. samgm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Samvn. samgm., sem skipuð er öllum fulltrúum samgn. beggja d., hefur fjallað að venju um framlög ríkissjóðs til flóabáta og fólksog vöruflutninga. Margar umsóknir hafa borist. Sumir aðilar hafa beðið um mikil fjárframlög. Það hefur verið dálítið erfitt að meta og vega, hvaða erindi ber að taka til greina og hvernig á að taka tillit til mismunandi sjónarmiða. N. hefur haft samráð við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins og hefur hann aflað ýmissa gagna og skrifað grg. um þessi mál. Ég ætla að leyfa mér að vitna í nokkrar setningar úr grg. hans, með leyfi hæstv. forseta, sem sýna að hann er á sömu skoðun og við nm. Það er dálítið erfitt að fjalla um þessi mál miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja, á þann hátt að hægt sé að vera víss um að verið sé að gera rétt. Hann segir svo:

„Vegna byltinga í kaupgjalds- og verðlagsmálum hefur sjaldan eða aldrei verið erfiðara en nú að mynda sér úr nokkurri fjarlægð ákveðna skoðun um rekstur hinna einstöku flóabáta. Ýmsar athuganir má þó gera, t.d. um breytingu útgerðarkostnaðar hin síðari ár samkv. endanlegum reikningum annars vegar og áætlunum fyrir 1975 hins vegar. En grundvöllur til samanburðar tekna milli skipa er af ýmsum ástæðum mun hæpnari.“

Þetta segir framkvæmdastjóri Skipaútgerðar ríkisins. N. kallaði einnig á sinn fund fulltrúa samgrn. og ræddi nokkuð við hann. Hefur komið í ljós, að útgerðarkostnaður bátanna hefur aukist stórlega. Þó að bent sé á að unnt sé að hækka fargjöld og flutningsgjöld nokkuð til þess að mæta hinum aukna kostnaði, kemur þó í ljós að það er ógerningur að mæta þeirri aukningu til fulls, rekstrarkostnaðurinn hefur orðið það mikill og fer vaxandi.

Það má segja, að stærstu aðilarnir, sem sent hafa umsóknir, séu hinir 4 stóru flóabátar, sem svo eru nefndir, og verður vikið að þeim nokkuð hér á eftir, en einnig hefur það farið mjög vaxandi undanfarin ár, að styrkur hefur verið veittur til snjóbifreiða, og slíkum umsóknum hefur farið mjög fjölgandi. Það eru ýmis byggðarlög á landi voru þannig í sveit sett, að nauðsyn ber til að það fólk, sem þau héruð byggir, eigi aðgang að farartækjum að vetrarlagi, sem hægt er að grípa til í brýnni nauðsyn. Benda má á, að ýmis héruð landsins hafa verið þannig sett undanfarin ár, að þau hafa ekki getað fengið héraðslækna, a.m.k. ekki að staðaldri, og hafa átt við erfiðleika að etja af þessum völdum. Þykir skylt að styrkja snjóbifreiðar, leggja til þeirra nokkuð af almannafé, þar sem svo brýnir hagsmunir og öryggi landsmanna er annars vegar.

Ef rætt er sérstaklega um þessi efni hvað hina einstöku landsfjórðunga snertir eða landsbyggðir, má fyrst segja örfá orð um Norðurlandssamgöngur. Þar er það Norðurlandsbáturinn Drangur, sem annast mjólkurflutninga til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar tvisvar í viku að vetrinum og flytur auk þess vörur og farþega eftir þörfum. Þessi bátur heldur uppi ferðum til Grímseyjar og Hríseyjar, og einnig fer það vaxandi að hann flytur skemmtiferðafólk að sumarlagi. Það eru ýmsir, sérstaklega sumir útlendingar, sem leggja nokkra áherslu á að komast norður fyrir heimskautsbaug og helst að láta taka mynd af sér þar, og auk þess hefur báturinn flutt mikinn varning til þessara norðurbyggða.

Þá er styrkur veittur til ýmissa snjóbifreiða á Norðurlandi.

Ef vikið er að Austfjarðasamgöngum, þá er þar stærsti báturinn Mjóafjarðarbátur. Hefur verið talið mikið gagn af honum og hans þjónustu fyrir byggðina. En á Austfjörðum eru einnig veitt framlög til allmargra snjóbifreiða, sjúkrabifreiða. Þar eru fjallvegir háir og snjóþungir, og er talið að þessi farartæki hafi leyst margan vanda á undanförnum vetrum.

Á Suðurlandi hefur tíðkast í allmörg ár, að veittur hefur verið styrkur, flutningastyrkur, til hinna hafnlausu byggðarlaga í Vestur-Skaftafellssýslu. Við vitum að þeir, sem þá sýslu byggja, eiga langt að sækja til aðdrátta á landi og ströndin er hafnlaus, þannig að þessir flutningar hafa að nokkru verið greiddir niður á undanförnum árum og svo er enn.

Hvað snertir Faxaflóasamgöngur hefur lengi verið, eins og kunnugt er, haldið uppi samgöngum milli Borgarfjarðarbyggða og Reykjavíkur eða Reykjavíkursvæðisins. Það hefur gengið bátur, sem flutt hefur fólk og varning, frá Akranesi til Reykjavíkur mörg undanfarin ár. Þetta er fjölmenn samgönguleið. Á þessu ári var skipt um bát á þessari leið. Sá bátur, sem notaður hafði verið í allmörg ár, var farinn að eldast og þótti ekki lengur henta í þessu efni. Var keypt stórt ferjuskip frá Noregi, sem nú ber nafnið Akraborg og heldur uppi þessum ferðum. Þetta er dýrt skip, en hefur hins vegar mikla flutningsgetu. Það er ekki komin full reynsla á það enn þá, m. a. vegna þess að til þess að notagildi þess nýtist til fulls, ef svo má segja, þarf að gera endurbætur á hafnaraðstöðu, bæði á Akranesi og í Reykjavík. Þar er nú unnið að þessum endurbótum, og mér er sagt að vonir standi til þess, að það verk verði fullgert í maí í vor, og ættu þá allar aðstæður fyrir skipið að að breytast stórlega til batnaðar.

Flóabáturinn Baldur í Stykkishólmi annast flutninga milli Reykjavíkur og Breiðafjarðarbyggða, heldur auk þess uppi flutningum um Breiðafjörð, Gilsfjörð og Hvammsfjörð. M. a. heldur hann uppi föstum ferðum frá Stykkishólmi til Brjánslækjar á Barðaströnd með fastri viðkomu í Flatey og fleiri eyjum eftir þörfum. Þessi bátur á eins og hinir stærri bátar í nokkrum rekstrarerfiðleikum, en hins vegar er óhjákvæmilegt að starfrækja bát á þessari leið. Við rekum okkur svo oft á það, sem fjöllum um þessi mál, að þessir bátar, þessi samgöngutæki, veita mikla þjónustu, en það er erfitt að láta þá bera sig.

Á Vestfjörðum er það Djúpbáturinn Fagranes, sem annast ferðir um Ísafjarðardjúp og til kauptúna á Vestur-Ísafjarðarsýslu, m.a. annast hann mjólkurflutninga. Þessi bátur var talinn vera mjög vel rekinn lengi vei, en nú hefur hann lent í miklum öldudal að því er reikningar og greinargerðir sýna. Það sýnir hvaða skakkaföll geta hent í þessum rekstri. Á Vestfjörðum gildir hið sama og um mörg önnur héruð landsins, að þar eru allmargir styrkir veittir til vetrarsamgangna á fjallvegum og til annarra smærri báta.

Nm. urðu sammála um að æskilegt væri, að miklu nákvæmari gögn fylgdu yfirleitt fjárbeiðnum flóabátanna í framtíðinni, og sjá þyrfti til þess að komið yrði fastara skipulagi á þessi mál og nákvæmara eftirliti með rekstri bátanna, jafnframt þyrfti að fylgja hverri fjárbeiðni til n. glögg grg. um þörf og aðstöðu alla, þegar sótt er um styrki til snjóbifreiða og vetrarsamgangna. Það skilyrði er sett fyrir því, að styrkir verði veittir eða greiddir, að rekstri flóabátanna og annarra aðila verði hagað þannig í samráði við viðkomandi rn. að þjónustan við landsbyggðina verði í senn hagkvæm og örugg.

Samkv. því, sem ég hef nú minnst lauslega á, var það samdóma álit allra nm., að í þessu efni væri um svo ríka fjárþörf að ræða að óhjákvæmilegt væri að hækka þessi framlög til muna. Samvn.samgm. leggur því til, að heildarfjárveiting til flóabáta, snjóbifreiða, fólks- og vöruflutninga verði á árinu 1975 71 millj. 90 þús. kr., og mun ég nú gera nokkra grein fyrir því hvernig sú fjárhæð skiptist.

Hún skiptist milli 35 aðila. Ég held, að það sé aðeins einn aðili, sem var á skránni s.l. ár, sem ekki sækir um að þessu sinni, en tveir nýir bætast við. Það fellur því einn liður niður, framlög til vetrarflutninga í Haukadal í Dalasýslu sem var á þessu ári 50 þús. kr. Í þessu efni skal þess getið, að þó að einhver aðili komist inn á þessa skrá og fái framlag einu sinni eða oftar, þá er ekki þar með sagt, að hann verði þar til frambúðar. Eftir því sem samgöngur batna og aðstaða manna til að halda uppi samgöngum að vetrarlagi af þeim sökum verður þjálli, er ekki nema eðlilegt að einn eða aðrir falli úr þessum hópi.

Það er hér bæði um að ræða rekstrarstyrki og stofnstyrki. Rekstrarstyrkirnir eru þó miklu fleiri, stofnstyrkirnir eru aðallega veittir þegar svo stendur á að verið er að endurnýja eða endurbyggja viðkomandi farartæki eða leggja í mikinn kostnað í sambandi við þessa flutninga.

Lagt er til, að Norðurlandsbáturinn Drangur fái á næsta ári 12 millj. kr. Til vetrarsamgangna í Árneshreppi er varið 180 þús. kr. Hríseyjarbátur fær 550 þús., en auk þess 200 þús. kr. í stofnkostnað. Þessir stofnstyrkir eru ýmist ein greiðsla eða þá að þeir standa til nokkurra ára, jafnvel tveggja til fjögurra ára. Það er aðeins einn liður hér sem snertir flugmál, þ.e. framlag til Grímseyjarflugs, 4. tölul., sem á þessu ári er 500 þús. kr. Það er með þessa aðila marga, að sumir nefna ákveðna fjárhæð í sínum umsóknum, aðrir tala um að fá ríflegan styrk eða hæsta fáanlegan styrk, en nefna enga tölu.

Þá er varið til snjóbifreiðar í Dalvíkurlæknishéraði 200 þús. kr. Til Mjóafjarðarbáts, er ég áðan nefndi eru 800 þús. kr., en auk þess 50 þús. í stofnkostnað. Þá er það snjóbifreið í Vopnafirði 200 þús. kr., snjóbifreið á Fjarðarheiði 1 millj., sami aðili stofnkostnaður 500 þús., snjóbifreið á Fagradal 270 þús., snjóbifreið á Oddsskarði 800 þús., sami stofnkostnaður 200 þús. Þá er hér snjóbifreið á Fljótsdalshéraði, henni er veittur 170 þús. kr. styrkur, snjóbifreið í Borgarfirði eystra 200 þús., snjóbifreiðin sem gengur á leiðinni Stöðvarfjörður-Egilsstaðaflugvöllur 250 þús.

Til vöruflutninga á Suðurlandi eru 2 millj., Vestmannaeyjar vegna mjólkurflutninga 1.3 millj., hf. Skallagrímur 15. millj. Mýrabátur hefur óbreytta fjárhæð frá síðasta ári, 30 þús. kr. Þetta er smábátur í Mýrasýslu. Til vetrarflutninga í Breiðuvíkurhreppi eru ætlaðar 120 þús. Stykkishólmsbáturinn Baldur er með 17 millj. kr. Fyrir nokkrum árum, að ég held á árinu 1970 eða 1971, tók þessi bátur jafnframt við hlutverki bátsins sem gekk frá Flatey á Breiðafirði, en sá bátur var með á því ári, að mig minnir, 475 þús. kr. í styrk. Þá er það Langeyjarnesbátur. Sá bátur gengur frá Stykkishólmi upp í Langeyjarnes í Klofningshreppi. Það minnast sumir á að þessi bátur hafi nú lítil verkefni, eftir að eyjabyggðin dróst saman. Þess má geta, að fækkun fólks í eyjunum skapar líka vandamál og þarf að sinna fólki þótt fátt sé eftir. Ætlað er að þessi bátur fái á næsta ári 250 þús. kr., en auk þess stofnstyrk að fjárhæð 150 þús. kr. Verið er að endurbæta þennan bát mikið, setja í hann radar og önnur öryggistæki, sem gera hann miklu hæfari til þess að stunda siglingar á vandsigldum leiðum á þessum slóðum.

Þá er það snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu 180 þús., til vetrarflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 550 þús., Dýraf jarðarbátur 150 þús., snjóbifreið um Botnsheiði 370 þús., Djúpbáturinn hf., Fagranes 13 millj. og sami vegna mjólkurflutninga úr Dýrafirði 200 þús.

Þá er snjóbifreið í Þórshafnarhéraði 200 þús. Til snjóbifreiðar á Akureyri er varið 300 þús. kr. og einnig stofnstyrk er nemur sömu fjárhæð. Talið er að á Akureyri sé mikil þörf fyrir slík tæki. Þar er snjóbifreið, sem nefnd er Snjókötturinn, og segja umsækjendur að það sé besta snjóbifreiðin á landinu, mjög gagnleg, en einnig hefur sá aðili, sem Snjóköttinn á, ráðist í að kaupa annan bíl til þess að geta annað þeirri þjónustu sem þarna er mikil og brýn.

Þá er varið til vetrarflutninga á Lónsheiði 300 þús., til snjóbifreiðar, Axarfjörður–Kópasker, 300 þús., snjóbifreið á Hólmavík 220 þús. og þar er einnig veittur stofnstyrkur að fjárhæð 200 þús. kr. Til snjóbifreiðar í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu er varið 220 þús., vetrarflutninga í Skarðshreppi í Dölum 80 þús., vetrarsamgangna í Reykhóla- og Gufudalshreppi 300 þús., snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu, það er nýr umsækjandi, 140 þús. kr. og loks er leiðin Egilsstaðir—Seyðisfjörður, mjólkurflutningar, einnig ný umsókn, 200 þús. kr.

Samkvæmt þessu leggur samvn. samgm. til að styrkjum þeim, sem ég nú nefndi, verði varið til að styðja þessa starfsemi á næsta ári, og fjárhæðin er samtals 71 millj. 90 þús. kr. Þetta þykir vafalaust nokkuð mikil hækkun frá því ári sem nú er að líða. En sannleikurinn er sá, að styrkir þessir eða framlög hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Ég get getið þess til fróðleiks, að skv. fjárl. árið 1971 námu þessir styrkir 19 millj. 255 þús. kr., árið 1972 24 millj. 650 þús. kr., árið 1973 33 millj. 225 þús. kr. og árið 1974 38 millj. 530 þús. kr. Þegar heildarfjárhæðin á árinn 1974 er skoðuð og borin saman við árið á undan, verð ég að telja að hækkanir í fyrra í þessu skyni hafi yfirleitt verið of litlar og óraunhæfar. Það var þá sjáanlegt, að verðlag var síhækkandi og þensla svo mikil á öllum sviðum, að það var of lítil hækkun sem flóabátunum var veitt á þessu ári. Við höfum því talið alveg óhjákvæmilegt að stiga nokkuð stórt skref nú til að styðja þessa starfsemi nokkru betur en gert hefur verið.

Er því, eins og ég áðan sagði, lagt til að heildarfjárveitingin verði nú 71 millj. 90 þús., og kemur sú till. fram frá samvn. samgm. á þskj. 219 sem brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1976.

Þegar rætt er um að mikið fé sé veitt í þessu skyni er einnig á það að líta, að margt hefur hækkað frá því í s.l. desember. Ef við víkjum aðeins að verði á bensíni og olíum, sem skipta mjög miklu máli í rekstrarkostnaði þessara aðila, sem hér er um að ræða, þá er það svo, að verð á bensíni var 8. des. 1973 26 kr. lítrinn. 1. okt. 1974 er það hins vegar 49 kr. lítrinn. Gasolía frá leiðslu var 8. des. 1973 8.65 kr. lítrinn, en mun nú vera 17 kr. Olía til íslenskra fiskiskipa er nú 5.80 kr. hver lítri. Það má einnig geta þess til gamans, að hið svokallaða kílómetragjald, sem ýmsum opinberum starfsmönnum, m.a. alþingismönnum, er greitt í ökuferðum þeirra, hefur hækkað stórlega frá því í fyrra. Ég held að þessu gjaldi hafi yfirleitt verið haldið í hófi á undanförnum árum, a.m.k. hefur það oft heyrst, en það var í fyrra í desembermánuði 9.70 kr. á ekinn km, en er nú, eftir að mig minnir 10. sept. s.l., 18.50 kr.

Mörgum mun vafalaust þykja nóg um hinar háu tölur, sem nefndar hafa verið. Hækkun þessa fjárlagaliðar er óneitanlega mikil. Ég tel þó nokkuð öruggt að ekki muni af veita. Vandinn hefur ekki verið leystur, síst af öllu til frambúðar. En hér er tilraun gerð til að létta róðurinn hjá þeim aðilum sem annast hina mikilvægu þjónustu um fjölmargar byggðir landsins.

Ég vil ráðleggja þeim aðilum, sem eiga í vök að verjast í þessum rekstri, að gera sem allra gleggsta grein fyrir sinum málum. Þá er ég víss um að þeir eiga skilningi að mæta hjá ríkisvaldinu. Hvorki þeir né hið opinbera má varpa frá sér allri ábyrgð, en í góðri samvinnu má greiða úr mörgum vanda. Sums staðar má t.d. reyna þá leið að fá skuldum við ríkið, sem hvíla þungt á mörgum þessara aðila, breytt í hlutafé eða jafnvel óafturkræft framlag. En þá verða heimamenn einnig að auka framlög að sínum hluta. Umfram allt þurfa allir þessir aðilar að gera skilmerkilega grein fyrir sínum málum á allan veg. Þá er auðveldara að verða þeim til stuðnings og hjálpar.

Ég held ég hafi þessi orð ekki fleiri. Það ríkti góður andi í n. og var góð samvinna, að því er mér þótti. Þó hafa tveir hv. nm. skrifað undir nál. með fyrirvara og munu vafalaust gera grein fyrir sínu máli hér á eftir, ef þeim þykir einhverju skipta.