20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

1. mál, fjárlög 1975

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs fyrst og fremst til að leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir að hafa tekið jafnvel og hún gerði, og reyndar einnig hæstv, ráðh., í þær till., sem ég beindi til n., og þá sérstaklega till. í sambandi við öryggismál sjómanna.

Ég hef leyft mér að flytja hér tvær till. sem eru komnar á þskj. Það er annars vegar till. sem ég ásamt 3 öðrum hv. þm. leyfi mér að flytja um styrk til Heilsuræktarinnar í Reykjavík, 4 millj. kr. Þetta fyrirtæki hefur verið viðurkennt af heilbrrn. sem fyrirtæki sem getur og á að taka að sér sjúkraþjálfun. En að sjálfsögðu verður það skilyrði að fylgja að það sé ráðinn að fyrirtækinu bæði sjúkraþjálfari, einn eða fleiri, og læknir og hægt verði að útvega húsnæði á staðnum þar sem stofnun þessi er. Þessu mun að sjálfsögðu fylgja nokkur stofnkostnaður og því er lagt til að þessi styrkur verði veittur.

Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um að það er ákaflega mikill skortur á slíkri starfsemi, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur að sjálfsögðu um allt land. Ég þekki þetta mætavel vegna þess að í stofnun, sem ég hef nokkuð með að gera stjórnun á, vantar allt slíkt húsrými. En ef hægt er að komast inn á jafnfullkomna stöð og Heilsuræktin er í þessu skyni, þá mundu að sjálfsögðu ekki aðeins sparast hundruð þúsunda í stofnkostnaði við að koma slíkri aðstöðu á fót hjá þeirri stofnun, sem er Dvalarheimili aldraðra sjómanna, heldur og — vil ég leyfa mér að segja — fleiri skyldum aðilum hér á suðvesturhorni landsins, og bendi þá m.a. á Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og reyndar fleiri aðila en Hrafnistu sem þarna kæmu fram til álíta.

Eins og sést á þskj. legg ég þessa till. fram. Hins vegar hafa nokkrir ráðamenn þjóðarinnar heitið því við okkur flm., eða við mig fyrir þeirra hönd, að gera hvað þeir gætu til að leysa þetta vandamál. Ef það verður áður en til atkvgr. verður gengið; þá mun ég draga þessa till. til baka.

Aðra till. á sama þskj., 234, hef ég leyft mér að flytja, heimildarákvæði við 6. gr. um að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af myndsegulböndum sem eru til afnota fyrir áhafnir íslenskra skipa.

Við erum búin að hafa margar till. til umr. á hv. Alþ. varðandi sjónvarp til íslenska flotans. Það er viðurkennt og vitað, að í flestum hinna nýrri og stærri skipa, jafnvel þótt lítil séu, eru sjónvarpsviðtæki. Ef þetta væri til staðar, að það þyrfti ekki að kosta hið fulla verð sem slík tæki kosta, þá er möguleiki á því fyrir skipshafnir, sem dvelja fjarri heimilum sínum, að njóta sjónvarpsefnis, sérstaklega þó fræðslumynda, kennslumynda, en ég veit hins vegar að venjulegar kvikmyndir munu verða of dýrar enn um langan tíma til þess að þær komist til skipshafna. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við hugsum alvarlega til þess á næstu árum að íslenska sjónvarpið geti, á sama hátt og Fræðslumyndasafnið útvegar skólum landsins slík myndsegulbönd, eins útvega þau til íslenskra skipshafna sem dvelja fjarri sjónvarpsstöðvum, þannig að þær megi nokkurs njóta frá þeirri stofnun, sem þeir í mörgum tilfellum greiða skatta af sem heimilisfeður, þó að þeir njóti ekki þess að geta horft á sjónvarp langtímum saman.

Ég vil þá leyfa mér að lýsa tveimur brtt. sem ég leyfi mér að flytja hér.

Önnur er við 6. gr., og af einhverjum ástæðum hef ég grun um að hún hafi ekki verið skilin, þegar ég var að reyna að útskýra hana fyrir hv. fjvn.-mönnum eða fjvn.- manni. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af búnaði lyfjabúra (sbr. reglugerð heilbrrh. nr. 113 1974) til spítala, hæla, elliheimila og annarra heilsugæslustofnana, sem falla undir nefnd reglugerðarákvæði.“ Um er að ræða reglugerð sem gefin var út af fyrrv. heilbrrh., mjög strangar og ítarlegar og ég vil ekki segja annað en sjálfsagðar reglur, sem gilda eiga um meðferð lyfja og búnað á þeim stofnunum sem ég hef þarna talið upp. Þetta yrði vitaskuld ákaflega auðvelt fyrir ríkisspítalana, sem geta fengið sér þennan búnað og sent svo reikninginn til ríkissjóðs, sem aftur greiðir hann. En um er að ræða hér á landi fjöldann allan af slíkum stofnunum, sem eru reknar af áhugamannasamtökum og fá ekki og hafa ekki fengið neitt leyfi til að taka slíkan aukakostnað sem hinn opinberi aðili fyrirskipar inn í sín vistgjöld og verða því að mæta þessu á einhvern annan hátt, sem þá venjulega verður á þann veg að þjónusta verður máske lélegri en vera ætti. Þar sem þarna er um fyrirskipun hins opinbera að ræða, eins og reyndar margt annað sem kemur fram frá því opinbera, finnst mér eðlilegt og það sé sjálfsögð krafa, að það komi þá nokkuð á móti með því að gefa eftir aðflutningsgjald og söluskatt af þessum búnaði, en það þarf að flytja inn töluverðan hluta hans. Ég endurtek að þarna er ekki átt við lyfjabúðir, heldur við þann búnað sem þarf að vera innan viðkomandi stofnana. Það verður nógur kostnaður þrátt fyrir það. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að flytja þessa skriflegu brtt. við 6. gr.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. við till. sem er hér komin fram á þskj. 237 frá Svövu Jakobsdóttur o.fl. um að ákveðinn styrkur verði veittur til Félags ísl. myndlistarmanna og Menningar- og friðarsamtaka ísl. kvenna til að standa straum af yfirlitssýningu á list íslenskra myndlistarkvenna vegna alþjóðakvennaársins 1975. Þótt þær séu litfagrar í Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, fæ ég ekki séð hvað þær eiga að gera inn í íslenska myndlist í sambandi við íslenskar konur á þeirra alþjóðlega kvennaári 1975. Því leyfi ég mér að leggja hér fram skrifl. brtt. þess efnis að orðin: „og Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna“ falli niður úr till. þessari. Ég mun hins vegar styðja það að Félag ísl. myndlistarmanna fái nokkurn styrk til að koma því fram sem vakir fyrir listafólkinu sem till. flytur. Því leyfi ég mér, herra forseti, að flytja þessa skriflegu brtt. við brtt. á þskj. 237.

Ég mun þá ekki þurfa að hafa fleiri orð um mínar till. eða aðrar sem hér hafa komið fram. Ég vil aðeins benda á orð tveggja þm. sem hér hafa talað í kvöld. Annar var hv. þm. og bolvíkingur, Karvel Pálmason, sem hafði miklar áhyggjur af því að sannfæring fengi ekki að ráða í þingflokki Sjálfstfl. Ég held að þar sé um mikinn misskilning hjá hv. þm. að ræða. Við fáum að njóta okkar og koma fram okkar málum í þeim flokki. Og alla vega veit ég að hann mun þá samþ. þau orð mín, að það er mjög stór hluti fyrrverandi samtaka, sem hann tilheyrir víst enn, sem naut sinnar sannfæringar og lét hana koma fram í síðustu kosningum, því að mér skilst að það hafi verið meira en helmingur fyrrverandi kjósenda, sem yfirgaf hann vegna þess að þeir létu sannfæringuna ráða, en bendi hins vegar á að hjá okkur í Sjálfstfl. var um nokkuð aðra þróun að ræða.

Ég get tekið undir mörg orð hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, þegar hann talar um gamla fólkið og hvað við þurfum að gera í tryggingamálum gagnvart því. Flest sem hann sagði er alveg hárrétt. Þetta eru þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem verst hafa orðið úti í þeirri óðaverðbólgu, sem hefur geisað hér á Íslandi s.l. 4 ár, einmitt að mestu leyti í hans eigin stjórnartíð, þótt ég muni aldrei draga úr því að hann gerði margt gott meðan hann var tryggingaráðh., gagnvart þessu gamla fólki. Þótt ég sé ekki reiðubúinn til að standa með honum og hinni ítarlegu till. hans, sem lengst gengur, að við reynum að koma á móti erfiðleikum þessa fólks, sem ég tel hvað sjálfsagðast í okkar þjóðfélagi í dag, þá mun ég a.m.k. greiða atkv. með varatill. hans,

En um leið og ég lýk orðum mínum þá vekur það furðu mína að um leið og hv. þm. Magnús Kjartansson leggur að líku okkar deilumál við vestur-þjóðverja og ákveðin atriði í fjárl. og leggur þá till. fram að við leggjum niður sendiráð eða fastanefnd okkar hjá NATO í Brüssel, af hverju hann leggur ekki frekar fram till. um það að við leggjum niður sendiráðið í Bonn. Við fáum þó „for fanden“ að landa fiski í Belgíu enn þá, en ekki í Þýskalandi.