20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

1. mál, fjárlög 1975

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég stend ásamt nokkrum öðrum þm. að flutningi ýmissa till. um nokkrar hækkanir á fjárveitingum til ýmissa mála og ætla að víkja að hverju þeirra í stuttu máli.

Ég flyt ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni og Kjartan Ólafssyni á þskj. 234 tvær brtt. í sambandi við hafnarmannvirki og lendingarbætur, sem áður hafa komið til umr. hér á hv. Alþ. Það eru tvær till. sem við fluttum við fyrri umr. frv. og var þá gerð náin grein fyrir. Það er annars vegar um Ísafjörð, að þangað verði veitt 8 millj. kr. hærra framlag til þess að ljúka við frágang á eldri höfn þar, til þess að ljúka við frágang á vatnslögn, á raflögn og á malbikun hafnarsvæðisins, og auk þess um framkvæmdir við höfnina í Súðavík, sem í upphaflegri till. okkar var að upphæð 6 mill. kr., en við höfum nú lækkað niður í 3 millj. kr.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessar till. einfaldlega vegna þess að það hefur þegar verið gert. Ég ætla aðeins að benda á það að varðandi Súðavík höfum við lækkað okkar upphaflegu till. úr 6 millj. niður í 3 í þeirri von að hv. Alþ. fáist til að samþ. þá fjárveitingu. Ég ítreka enn að hér er um lítið sjávarpláss að ræða sem berst í bökkum. Hafnaraðstaða þar er fyrir neðan allar hellur. Hún er þannig, eins og lýst var hér af hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, að það eru ekki einu sinni „pollar“ til staðar á hafnarkantinum, þar sem skipin leggja upp að, til þess að festa þau við, heldur verður að bregða tógi um olíutank upp á land, og ef eitthvað kæmi fyrir tæki ekki aðeins skipið út, heldur tankinn þá sennilega líka. Súðvíkingar telja sig hafa loforð fyrir því að fá þessa framkvæmd unna í ár. Og þeir hafa sagt að ef þetta fáist ekki fram, þannig að þeir geti treyst því nokkuð örugglega að skip þeirra geti legið í vari í höfninni svo að sæmilega öruggt sé, þá sjái þeir sér ekki fært að halda áfram útgerð á sama hátt og þeir hafa gert hingað til.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 234, sem ég flyt ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni. Till. er um sjúkraflug og á þá lund að framlag til sjúkraflugs verði hækkað úr 2.5 millj. í 3.5, sem sagt um 1 millj. kr. Ástæðan fyrir þessari hækkun er sú, að vestur á Ísafirði er rekið flugfélag, Flugfélagið Ernir hf., sem hefur annast mjög mikilvæga þjónustu í samgöngumálum vestfirðinga og lífsnauðsynlega þjónustu varðandi sjúkra- og neyðarflug. Þetta flugfélag er nú ákaflega illa statt og við blasir að um n.k. áramót muni flugfélagið neyðast til þess að hætta rekstri, leggja vélum sínum og leggja upp laupana, sem mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir vestfirðinga og Vestfirðingafjórðung, ekki aðeins hvað samgöngur varðar innan fjórðungsins og milli fjórðungsins og annarra landshluta, heldur ekki síður varðandi sjúkra- og neyðarflug. Ég vil í þessu sambandi vitna í bréf frá Fjórðungssambandi vestfirðinga, dags. 11. nóv. 1974, þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Yður er hér með sent ljósrit af bréfi félagsins, þ.e.a.s. Flugfélagsins Ernis hf., til Fjórðungssambandsins, þar sem gerð er grein fyrir stöðu félagsins, þjónustu þess á tíma bilinu 1/9 1973–1/9 1974 og viðhorfum þess til opinberrar aðstoðar við aðra þætti samgöngumála á Vestfjörðum. Af upplýsingum þeim, sem í fyrrgreindu bréfi greinir, á að vera ljóst við skjóta athugun, að án þessarar þjónustu geta vestfirðingar ekki verið nema bíða verulega hnekki við, þar eð þá yrði kippt burtu mikilvægri öryggisþjónustu og samskipti milli byggðarlaga mjög skerðast frá því sem verið hefur. Þess er hér með farið á leit við þm. vestfirðinga að þeir geri nú samstillt átak til þess að tryggja félaginu þann opinbera fjárhagslega stuðning, sem nauðsynlegur er til að félagið geti áfram haldið uppi a.m.k. sambærilegri þjónustu við það sem verið hefur.“

Flugfélagið Ernir annast flug, bæði reglubundið áætlunar- og póstflug innan Vestfirðingafjórðungs og flug eftir beiðni þeirra aðila sem á þurfa að halda. Samanlagður fjöldi lendinga flugfélagsins 1. sept. 1973–1. sept. 1974 var alls 1625, þar af voru 53 flug í beinu sambandi við heilsugæslu, annaðhvort sjúkraflug, flug með lækni í vitjanir eða flug með lyf. Við þessi beinu heilsugæsluflug bætast svo flug sem félagið hefur farið með ýmsa sjúklinga sem leita hafa þurft lækninga, án þess þó að hér hafi verið um neyðarflug að ræða, t.d. tugi fólks sem þarf að leita tannlækninga til Ísafjarðar, sjúklinga sem leita til augnlækna o.s.frv.

Flugfélag þetta er ákaflega mikilvægt fyrir vestfirðinga og Vestfirðingafjórðung og ríður á miklu að það geti haldið rekstri sínum áfram. Eins og nú horfir virðist ekki annað sjáanlegt en að félagið verði að hætta starfrækslu um n.k. áramót ef ekki kemur til stuðnings annarra aðila og þá fyrst og fremst Alþ. og ríkisvalds.

Það, sem gerir það að verkum að flugfélögin úti á landi eiga mjög erfitt uppdráttar, er m.a. að það er töluvert hærra verð á flugvélabensíni úti um landið en hér í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum flugfélagsins munar þetta það miklu, að þeir hafa sagt okkur þm. Vestf. á fundi, sem við höfum átt með forsvarsmönnum félagsins, að á því tímabili, sem líður á milli þess að flugfélagið þarf að kaupa nýja mótora í sínar flugvélar, sé mismunurinn á bensínverðinu hér og þar orðinn svo mikill að samsvari nokkurn veginn verði nýs flugvélamótors. Nú hefur hv. þm. Steingrímur Hermannsson flutt hér mál þar sem stefnt er að því að koma á verðjöfnun á bensíni án tillits til þess hvar á landinu það er selt. Það mun að sjálfsögðu hjálpa þessum litlu flugfélögum verulega mikið, en þó ekki leysa þann vanda sem Flugfélagið Ernir býr við í dag. Með þessari 1 millj. kr. fjárveitingu, sem við leggjum til að veitt verði á þskj. 234, erum við að fara þess á leit við hv. fjvn. og fjárveitingavaldíð að það hlaupi undir bagga með þessu litla félagi og tryggi því möguleika til áframhaldandi rekstrar.

Þá höfum við Karvel Pálmason flutt á þskj. 234 brtt. um framlag til orkumála, þ.e.a.s. Önnur rekstrargjöld, fyrir „158 167“ komi: 160 787. Tilgangurinn með þessari till. er sá að verja nokkuð auknu fjármagni til virkjunarrannsókna á Vestfjörðum. Ég hef áður á Alþ. gert nokkra grein fyrir því, hvernig staða virkjunarmála er í Vestfirðingafjórðungi. Það gerði ég í ræðu þegar á dagskrá í Nd. var frv. til l. um virkjun Suðurfossár. Ég ætla ekki að endurtaka þær upplýsingar sem ég gaf þá, en aðeins drepa á nokkur atriði.

Samkv. upplýsingum Svavars Jónatanssonar forstjóra Almennu verkfræðiskrifstofunnar, sem hann gaf á Fjórðungsþingi vestfirðinga, mun koma til með að vanta á núv. vatnsafl á Vestfjörðum, þegar Mjólká II er tilbúin til orkuframleiðslu, það raforkuver sem nú er verið að vinna að því að setja upp, til þess að fullnægja þörfinni samkv. orkuspá Rarik árið 1975 56 gwst. á ári og árið 1980 60 gwst. á ári, og þá er viðbótarþörf 19 mw., og 1985 vantar 90 gwst. og viðbótarþörf 23 mw. Hér er miðað við það að upp verði tekin rafhitun húsa á Vestfjörðum. Það er mjög aðkallandi fyrir þá vestfirðinga og koma þar til tvær ástæður. Í fyrsta lagi sú, að olíuverð hefur farið mjög hækkandi, og í öðru lagi sú, að hús á Vestfjörðum eru yfirleitt gömul og krefjast því meiri kyndingar og því meiri kyndingarkostnaður en ella, enda hefur komið í ljós við rannsókn, sem Fjórðungssamband vestfirðinga hefur látið gera á húshitunarmálum vestfirðinga, að um 18% dýrara er að kynda hús á Vestfjörðum en að kynda hús hér í Reykjavík. Ástæðurnar eru í fyrsta lagi kaldara veðurfar á Vestfjörðum og í öðru lagi eldri og lélegri húsakostur.

Hafa verið athugaðar ýmsar leiðir til viðbótarorkuöflunar fyrir Vestfjarðaveitu. Helstu leiðirnar eru þrjár. Það er í fyrsta lagi virkjun Dynjandisár með um 8.3 mw. orkuveri í Dynjandisvogi og um 48 gwst. orkuvinnslu. Í öðru lagi háspennulína frá byggðalínunni í Hrútafirði að Mjólká, sem er ca. 50 km að lengd. Í þriðja lagi virkjun Þverár á Langadalsströnd í 7–12 mw. orkuveri með 40–70 gwst. ársorkuvinnslugetu. Ýmsir aðrir virkjunarmöguleikar koma til greina þá má nefna stórvirkjun í Hvalá og Rjúkanda í Ófeigsfirði á Ströndum og ýmsar smærri virkjanir við norðanvert Ísafjarðardjúp. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á þessum virkjunum en þó hvergi nærri þær sem til þyrfti til þess að hægt væri að hefja undirbúning að virkjununum sjálfum. Það kom t.d. fram á Fjórðungsþingi vestfirðinga sem haldið var í Bolungarvík 23. og 24. ágúst 1974, hjá sama Svavari Jónatanssyni og ég vitnaði til hér áðan, þar segir hann, með leyfi forseta:

„Mér finnst of lítið hafa verið að þessu unnið í sumar,“ þ.e.a.s. virkjunarrannsóknunum. „Við lögðum til í vetur við Rarik, að unnið yrði að gerð loftmyndakorts af Þverársvæðinu í sumar. Einnig lögðum við til að settir yrðu upp rennslismælar og síritar á nokkrum stöðum, m. a. við Hvalá og viðar. Við lögðum einnig til að jarðfræðiathuganir yrðu gerðar í sumar, a.m.k. við Þverá. Þá lögðum við til að endanlegar mælingar við Dynjanda yrðu gerðar á þessu sumri. Ekkert af þessu hefur verið gert vegna skorts á fjármagni, að því er mér skilst, en þessi dráttur getur hæglega orðið til þess að næsta virkjun á Vestfjörðum komi ári síðar í gagnið en ella hefði verið hægt“ — þ.e.a.s. að ekki sé að vænta nýrrar virkjunar á Vestfjörðum fyrr en eftir árið 1981.

Síðan heldur verkfræðingurinn áfram og segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að þm. kjördæmisins gætu strax stuðlað verulega að framgangi þessara mála og hindrað frekari drátt. Ég vil gjarnan benda þeim á, að Alþ. og fjárveitingavaldið er líklega flöskuhálsinn í sambandi við hröðun virkjunarraunsókna og undirbúningsframkvæmda.“

Alþ. og fjárveitingavaldið eru flöskuhálsinn í þessu sambandi,“ segir sá verkfræðingur sem um málið hefur fjallað. Við hv. þm. Karvel Pálmason erum nú að gera tilraun til þess að koma í gegnum flöskuháls nokkurri fjárveitingu, til þess að unnt verði að vinna að þeim nauðsynlegu rannsóknum sem til þarf næsta sumar svo að hægt verði að ráðast í virkjunarframkvæmdir á Vestfjörðum sem bráðnauðsynlegar eru. Það verður svo að koma í ljós á morgun, hvort flöskuhálsinn er of þröngur fyrir okkur vestfirðinga eða hvort við sleppum í gegn.

Að lokum vil ég minnast á brtt. á þskj. 241, sem ég flyt, þar sem ég legg til að nokkuð aukið fjármagn verði veitt til iðnfræðsluráðs. Mér var ekki kunnugt um það, þegar ég samdi þessa till., að önnur sambærileg till. hefði þá verið samin, sú sem flutt er á þskj. 237 af þeim hv. þm. Ragnari Arnalds, Benedikt Gröndal og Magnúsi T. Ólafssyni. Brtt. þessar tvær er nákvæmlega sama eðlis, þó að orðalagið bendi til annars. Ástæðan er sú, að samkv. þeim. upplýsingum sem ég fékk frá fjvn. hafði framlaginu, sem iðnfræðsluráð sótti um, verið skipt niður annars vegar á laun og hins vegar á önnur rekstrargjöld, að 4 millj. kr. hækkun kom á gjaldaliðinn laun og 2 millj. kr. hækkun á önnur rekstrargjöld, og þetta var, að því er mér var sagt, bókhaldsatriði. Iðnfræðsluráð sótti um alls 12 millj. kr. til þess að vinna að gerð námsskrár fyrir verklega menntun, en fjárveitingavaldið skar það niður um helming og úthlutaði iðnfræðsluráði 6 millj. kr. í þessu skyni. Það er auðvitað ekkert atriði, hvernig þetta er orðað í brtt. eða í fjárl. í endanlegri gerð þeirra. Ég get fyllilega fallist á það orðalag sem er á till. þeirra hv. þm. Ragnars Arnalds, Benedikts Gröndals og Magnúsar T. Ólafssonar, og dreg því till. mína til baka um þetta efni á þskj. 241. Ég vil þó nota tækifærið til þess að fara nokkrum orðum um mál það sem hér er til umr.

Samkv. lögum, sem sett voru um iðnfræðslu árið 1966, er farið inn á nokkuð nýja braut í iðnfræðslumálum. Þar er m. a. gert ráð fyrir því að færa nám iðnnemanna frá meistarakerfinu og yfir í skólanám, þannig að jafnhliða gamla meistarakerfinu, þar sem iðnnemar sóttu sitt bóklega nám í skóla, en verklega námið til iðnmeistara, geti iðnnemar farið beint í skóla, lokið þar bæði verklegu og bóklegu námi og útskrifast sem fullgildir iðnsveinar. Þetta var stefnan í lögunum frá 1966. Það var einnig ýmislegt sagt um hvernig þetta skyldi framkvæmt, m.a. er sagt svo í 11. gr., með leyfi forseta:

„lðnfræðsluráð skipar 3 manna fræðslunefnd hverrar iðngreinar. Skal einn nefndarmanna vera meistari og annar sveinn þeirrar iðngreinar sem um er að tefla, en hinn þriðji nefndur af Sambandi iðnskóla á Íslandi. Skipar iðnfræðsluráð einn nm. formann, en að öðru leyti skipta nm. verkum með sér. Hlutverk fræðslunefndar er að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis og gera till. um nám og kennsluháttu, enda ber stjórnvöldum að leita umsagnar n. um slík mál eftir því sem við á.“

Ég starfaði um skamma hríð, 2–3 ár, hjá iðnfræðsluráði og kynntist því þá þegar verið var að reyna að setja þessa starfsemi í gang. Hér er um rúmlega 60 fræðslunefndir að ræða fyrir jafnmargar iðngreinar, og þessum n. var ætlað að semja námsskrá um verklegt nám fyrir allar iðngreinar á Íslandi, hver fræðslunefnd fyrir hverja iðngrein. Hér var um gríðarlega efnismikið og viðamikið mál að ræða sem hefði þurft að leggja ótrúlega mikla vinnu í, en það fékkst aldrei heimild til að greiða þessum n. fyrir sín störf. Reynslan varð sú, að ég hygg, að ein n. lauk því starfi sem hún átti að sinna, vann það án þess að þiggja eyri að launum fyrir, og eftir námsskrá þeirri, sem sú n. setti, hefur síðan verið kennt.

Allt frá þessu, frá árinu 1966 og til þessa dags, hefur iðnfræðsluráð barist við Alþ. og fjárveitingavaldið til að reyna að knýja út fjárveitingu til fræðslunefndanna, svo að hægt yrði að framfylgja lögum um iðnfræðslu frá 1966. Það hefur aldrei tekist. Þess vegna hafa þessar fræðslunefndir aldrei getað komist á fót. Þess vegna hafa þessar fræðslunefndir aldrei getað starfað. Þess vegna er það svo, að þrátt fyrir anda laganna frá 1966 um að færa hið verklega iðnnám inn í skólann hefur það ekki tekist nema að litlu leyti. En svo gerist dálítið skrýtilegur hlutur. Svo gerist það að ákveðið er að koma á fót fjölbrautaskóla, og nú er verið að vinna að því að skipuleggja þennan fjölbrautaskóla. Þeir menn, sem hafa skipulagt hann, hafa látið sér detta þá firru í hug að eitt af hlutverkum þessa fjölbrautaskóla eigi að vera að bjóða iðnnámsbraut, þ.e.a.s. að fjölbrautaskólinn nýi eigi að geta tekið upp á sína starfsskrá hinar rösklega 60 iðngreinar í landinu, boðið nemendum, sem skólann sækja, einhverja töflu þar sem þeir krossi við hvaða iðngrein þeir vilja fara í, og síðan annist skólinn alla kennslu, bæði verklega og bóklega. Þetta ætlar skólinn sér að vera búinn að setja á stofn fyrir næsta haust. Iðnfræðsluráð, iðnfræðsluskólarnir og iðnfræðsluyfirvöldin í landinu eru búin að berjast í þessu máli áratugum saman, svo koma góðir hugsjónarmenn, sem setja upp fjölbrautaskóla og ákveða að gera þetta á einu ári. Þetta er einhver sú vitlausasta hugmynd sem ég hef nokkurn tíma augum lítið og hef ég þó skoðað margar skrýtnar.

Iðnfræðsluráði barst erindi frá þessari n., sem á að fjalla um fjölbrautaskólann, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta. Þar segir svo:

„Við undirritaðir, sem vinnum að undirbúningi fjölbrautaskólans í Breiðholti, förum þess á leit við iðnfræðsluráð að það sjái um námsskrárgerð í faggreinum iðnaðar- og iðjubrautar skólans og tryggt verði að því verki sé lokið ekki síðar en um miðjan ágústmánuð á næsta ári.“

Hér er um að ræða samningu námsskrár fyrir verklegt nám í rúmlega 60 iðngreinum, sem búið er að reyna að berjast í síðan árið 1966 að koma á legg. Síðan koma ágætir hugsjónamenn, Jónas B. Jónsson fyrrv. fræðslustjóri og Guðmundur Sveinsson væntanlegur skólastjóri, og biðja iðnfræðsluráð vinsamlegast að ljúka þessu verki fyrir ágústlok næsta árs.

Þetta varð til þess að iðnfræðsluráð sendi enn eitt erindi til fjvn. Alþ., óskaði eftir því að ráðið fengi nú undirtektir við margra ára gömul tilmæli sín, sem ítrekuð hafa verið á hverju ári, um að fá fjárveitingu til að koma fræðslumálum iðnaðarins á þann kjöl sem lögin frá 1966 gáfu tilefni til. Jafnvitlaust eins og tilefnið var, jafngóðar voru undirtektir n. að vissu leyti. Fjvn. heimilaði ekki þá fjárveitingu sem iðnfræðsluráð óskaði eftir til þess að geta komið þessu í kring, heldur helminginn af henni. Ef fjárveitingin verður sú, sem meiri hl. fjvn. leggur til, þá er um tvennt að ræða. Annaðhvort er hægt að ráða fræðslunefndir til að semja námsskrá í verklegri kennslu fyrir helming iðngreinanna í landinn, sem væntanlega yrði þessum ágæta fjölbrautaskóla til nokkurs gagns árið 1975, í ágústmánuði, svo að maður leiði nú ekki einu sinni hugann að því vandamáli þegar þeir þurfa að fara að afla sér tækja til að koma þessu fjölbrautanámi upp, ellegar þá hitt, að ekkert verk verður hægt að vinna í þessu sambandi. 6 millj. kr. fjárveiting í þessu skyni er jafnmikilvæg og engin. Annaðhvort verður að setja n. á stofn, einsog lög gera ráð fyrir, og gera þeim kleift að starfa með því fjárframlagi, sem nauðsynlegt er til starfsemi þessara n., eða gera það ekki. Það er ekki nema um tvennt að ræða.

Við leggjum til að till. iðnfræðsluráðs verði teknar upp í fjárl. yfirstandandi árs, ekki vegna þess að það sé svo rík nauðsyn á því að fjölbrautaskólinn, sem á að taka til starfa í sept. eða októbermánuði á næsta ári og á þá m.a. að opna verklegt nám fyrir 64 eða 65 iðngreinar, sennilega í byggingu sem er með stærstu skólabyggingum á öllu landinu, þegar maður hugsar um allan þann tækjakost og vélbúnað sem til þarf, — ekki aðeins vegna þessa óskadraums margra ágætra manna, heldur vegna hins, að við teljum orðið ríka nauðsyn á því að iðnfræðslulögunum frá 1966 verði framfylgt.