20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

1. mál, fjárlög 1975

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það eru hér till. sem fjvn. flytur.

Það er í fyrsta lagi á þskj. 237, að við 6. gr., XXXI komi nýr liður: „Að taka lán vegna kostnaðar við að byggja laxastiga í Laxá í Þingeyjarsýslu vegna samnings í sambandi við virkjun Laxár.“ Þessi till. skýrir sig sjálf og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um hana frekar.

Þá er á þskj. 241 brtt. varðandi fyrirhleðslur, en þar er aðeins um leiðréttingu að ræða. En undir 2. tölulið er brtt. við 4. gr. undir töluliðnum 999, og þar er lagt til að 22. liður orðist svo: Orlofssjóður húsmæðra, þar af starfskostnaður landsnefndar orlofs húsmæðra 300 þús. kr., 7 millj. 800 þús. kr. Hér er um 50% hækkun að ræða á þessum lið, því að hann er 5 millj. í fjárlagafrv. Sú tala, sem er í frv., hefur staðið óbreytt síðan 1972 og er miðuð við kostnað í nóv. 1972, svo að það er full ástæða til að leiðrétta það þar sem allur kostnaður við þessa starfsemi hefur aukist verulega á þessu tímabili. N. leggur því til að liðurinn hækki um 2 millj. 800 þús. kr.

Þá er á sama þskj. undir V. till. frá n. þar sem er um brtt. að ræða varðandi stofnlinu. Það er að stofnlínan frá Þórshöfn til Bakkafjarðar verði tekin inn í áætlun á fjármögnun Rafmagnsveitna ríkisins. Bakkafjörður hefur enga samtengingu við dreifikerfi frá vatnsvirkjum. Það er einungis dísilstöð, sem raforkuframleiðslan þar byggist á, og hefur verið stefnt að því að reyna að tengja þá staði, sem mögulegt er án mikils óviðráðanlegs kostnaðar, við veitukerfi frá vatnsorkuveitunum. Það kostar ekki nema 10 millj. kr., að talið er, að tengja Bakkafjörð við Þórshöfn, og því er lagt til að sú lína komi inn á áætlunina fyrir næsta ár.

Að lokum vil ég, herra forseti, lýsa hér einni brtt. skriflegri, sem kemur væntanlega prentuð innan stundar, en till. sú hljóðar svo, með leyfi forseta: Við 6. gr. XXXI. Nýr liður: Að verja allt að 5 millj. kr. til undirbúnings byggingu skólahúsnæðis fyrir þroskahömluð börn. — Hér er um skólahúsnæði að ræða sem talin er brýn nauðsyn á að verði komið upp sem fyrst, og með þessari fjárveitingu er gert mögulegt að hanna þá væntanlegu byggingu og undirbúa að öðru leyti þannig að hún komist á framkvæmdastig þegar næst verður gengið frá fjárlögum.

Ég vil biðja herra forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt.