20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

1. mál, fjárlög 1975

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaga flutti ég þrjár litlar brtt. Ég fagna því að hv. fjvn. hefur tekið þeim þann veg að ég get þar vel við unað.

Í forföllum hv. 2. þm. Austf., Lúðvíks Jósepssonar, mæli ég hér fyrir brtt. í 4 liðum varðandi heilsugæslumál á Austurlandi:

Í fyrsta lagi er brtt. um heilsugæslustöð á Seyðisfirði. 1 millj. er þar á fjárlögum. Við leggjum þar til 4 millj. Við Austfjarðaþm. höfum lagt á það mikla áherslu að sæmileg fjárveiting fengist til þessarar stöðvar sem er helsta áhugamál þeirra seyðfirðinga í dag. Það er að vonum. Þeir búa við gamalt hús, ónothæft að miklu og þykir sárt við þetta að búa. Okkur hefur ekki tekist að ná fram þessari fjárveitingu, sem við gjarnan hefðum viljað. En freista skal þess þó að upphæðin verði hækkuð, a.m.k. til þess að seyðfirðingar sjái að okkur sé nokkur alvara með að þeir nái sinni heilsugæslustöð sem fyrst og henni sem stærstri.

Í öðru lagi: Í upphaflegri áætlun varðandi sjúkrahús í Neskaupstað hjá fjvn. sem víð sáum, — þ.e. áætlun innan ramma fjárlagafrv. en ekki samkv. óskalista rn. — upphæð sú var 28 millj., en með einhverjum óskiljanlegum hætti eftir enn óskiljanlegri till. eða upplýsingum ákveðins embættismanns í kerfinu var þessi upphæð sem sagt skorin niður um 10 millj. þrátt fyrir það að ég veit ekki betur en þessi embættismaður hafi leiðrétt afglöp sín, því að svo sannarlega var fjárveitingin 28 millj. Það var sú eina fjárveiting sem nægði til að fullgera þann áfanga sem hér um ræðir. Þrátt fyrir það hefur þetta ekki fengist leiðrétt á nýjan leik. Nú hafa mál í Neskaupstað svo skipast að ég hygg að ekki verði á móti þessari till. staðið og skal ekki frekar um hana ræða.

Varðandi liði 3 og 4 vil ég aðeins segja þetta: Varðandi Neskaupstað mun vera um skuld að ræða upp á nálega 3 millj. kr. 1/4 af þessari skuld er tekinn inn á till. fjvn., 800 þús. Okkur þykir þetta vægast sagt litið og viljum fá greiðslu í þessa skuld að 2/3 eða í 2 millj. — Varðandi Fáskrúðsfjörð, sem er 4. liðurinn, vil ég aðeins benda á brýna nauðsyn þeirra fáskrúðsfirðinga á að skapa lækni sínum viðunandi aðstöðu til lækninga í bústaðnum sjálfum. í millj. í till. fjvn. hygg ég að sé rétt fyrir gamalli skuld þar varðandi læknisbústaðinn, þ.e. greiðsla fyrir það sem þegar hefur verið gert. Okkar till. um 2 millj. í þess stað mundi þá aðeins nægja til þess að skapa þar þá aðstöðu sem læknirinn telur óhjákvæmilega fyrir víðunandi starfsaðstöðu sína.

Aðeins tvennt að lokum: Hv. 5. þm. Vestf. hefur mælt fyrir till. okkar þremenninga um hækkun um 10 millj. kr. á till. fjvn. um jöfnun á námskostnaði. Þarna er um að ræða lækkun um 20 millj. frá upphaflegri till. okkar við 2. umr. fjárlaga. Ég hygg að samkv. gildandi lögum um þetta mál liggi það fyrir mjög ljóst, að einmitt á næsta ári á að jafna námskostnað landsbyggðarnemenda að fullu. Ég held að staðreyndin sé sú að þörfin sé ótvíræð og hafi verið sýnt fram á það með gildum rökum að hún sé 140 millj. Við göngum þó ekki alveg svo langt, einmitt í trausti þess að hv. þm. samþ. frekar þessa fjárveitingarhækkun og höfum við því breytt þessu í 120 millj. í stað 140 millj. og trúum vart öðru en að menn sýni hug sinn í verki á þann veg að samþ. þá till.

Ég lýsi yfir mikilli hryggð yfir því að hv. menntmn. Sþ. — eða meiri hl. hennar — skuli, eins og frsm. þeirra sagði hér áðan, fylla skörðin í heiðurslaunum listamanna með þeim hætti sem hann gerði grein fyrir. Á ég þá vitanlega við skörð eftir þá öndvegismenn Þórberg Þórðarson og Guðmund Böðvarsson. Eftir orð hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um tvo aðra öndvegishöfunda, Snorra Hjartarson og Ólaf Jóhann Sigurðsson, og hvað sem um ágæti þeirra manna má segja sem í till. meiri hl. n. er lagt til að fylli þessi skörð, þá verð ég að láta í ljós skoðun mína á áliti meiri hl., með leyfi hæstv. forseta, á þennan hátt:

Nefndin, illa áttavillt,

engan finnur gerðum stað.

Opnu skörðin eru fyllt,

þó enginn maður sjái það.