20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

1. mál, fjárlög 1975

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fyrri spurningu hv. 12. þm. Reykv. varðandi launaumslög og það sem í þeim væri, þegar þau væru sótt af viðkomandi eftir að skattyfirvöld hafa innheimt sitt, þá vék ég að því í ræðu minni áðan að eitt af þeim verkefnum, sem ég teldi brýnust nú og tel eðlilegt að jafnvel núverandi þing taki afstöðu til, væri með hvaða hætti við gætum komið á staðgreiðslu skatta.

Það vandamál, sem við stöndum frammi fyrir nú, er að tekjuaukning á milli áranna 1973 og 1974 er talin vera 51%. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir nærri því eins mikilli tekjuaukningu á milli áranna 1974–1975. Ef sú regla gilti að 50% af álögðum sköttum ársins 1974 væru innheimt 1975, þá væru nærri því 2/3 hlutar, nærri 70% eftir þegar kæmi að síðari hluta innheimtunnar. Þess vegna hefur skattalögunum verið þannig breytt að það er á valdi fjmrh. að ákvarða það hlutfall af sköttum liðins árs sem innheimta skal á fyrri hluta þess árs sem innheimtan fer fram á. Þess vegna mun það falla í minn hlut á næstu dögum að ákvarða, hvaða hlutfall af skatttekjum ársins 1974 skuli innheimta fyrir fram á árinu 1975. Ef við héldum okkur við 50% yrði þunginn svo gífurlegur á síðari hluta ársins að vel gæti farið svo að einstaklingar, þegar þeir sæktu launaumslagið sitt, fengju ekki margar krónur í því. Þess vegna er til athugunar hvernig hægt er að komast hjá slíku sem hv. þm. hér minntist á, enda þótt ég kannist ekki við erindi borgarstjórnar til fjmrn. eftir að ég kom þangað. Það erindi mun hafa borist til fyrirrennara míns meðan hann gegndi störfum fjmrh. En það er og verður skoðað með hvaða hætti hægt er að koma fyrir staðgreiðslu skatta hjá ríki og sveitarfélögum.

Ég vonast til að þetta svar, að svo miklu leyti sem um þetta er hægt að ræða öðruvísi en fram fari umræður um skattamál og innheimtu skatta, sé fullnægjandi fyrir hv. þm.

Síðara atriðinu á ég dálítið erfiðara með að svara hv. þm. Ég hef fyrir framan mig tölur um það hversu stórt hlutfall er innheimt af skatttekjum ríkisins héðan úr Reykjavíkurborg. Hins vegar er mjög erfitt að gera sér grein fyrir hvað hefur verið greitt til hinna ýmsu framkvæmda í Reykjavík á árinu 1974. Ef miðað væri við fjárl. 1974, kæmi út algerlega óraunhæf tala því að þar er verið að tala um 29 milljarða, en mun reynast á ríkisreikningi nærri 40 milljarðar. Eftir því sem ég komst næst er mjög erfitt að gera sér grein fyrir þessu í fljótu bragði, en að sjálfsögðu hægt á lengri tíma að átta sig á því hver hlutur Reykjavíkurborgar er. — Ég skal hins vegar ekki hætta mér út á þá braut að giska á þetta, ég held að það sé enginn bættari með því, miklu fremur segja að það er erfiðleikum bundið að ná þessari tölu og ég hef ekki getað gert það fyrir þessar umr.