12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1975

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú búið að teygja æðimikið úr þessum umr. og ég skal reyna að vera ekki mjög langorður.

Ég held að það hljóti að hafa verið talsverðum erfiðleikum háð hjá hæstv. núv. fjmrh. að mæla fyrir því frv. til fjárl. fyrir árið 1975, sem hér er nú til umr., eftir allt það sem á undan er gengið þ.e.a.s. allt sem hann og hans flokksbræður hafa á undanförnum þremur árum sagt um fjárlagastefnu fyrrv. ríkisstj. — og nú brosir formaður þingflokks Framsfl. sé ég er.

Það hafa oft komið fram hér í ræðum á Alþ. að undanförnu ádeilur á fyrrv. fjmrh. fyrir óstjórn í peningamálum þjóðarinnar. Fyrst og fremst hafa átt hér hlut að máli talsmenn þess flokks sem nú ræður ferðinni í hæstv. ríkisstj. Það er því ekki úr vegi að rifja hér aðeins upp það sem áður hefur komið fram.

Ein af merkustu ræðum, sem talin er hafa verið haldin á síðasta Alþ., var fjárlagaræða þáv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. samgrh. Og mér finnst þessi ræða hvað merkust fyrir það að hún gæti núna orðið talsvert lærdómsrík, ekki bara fyrir núv. hæstv. samgrh., heldur Framsfl. í heild við þá fjárlagagerð sem við erum hér að ræða.

Eitt af aðalárásarefnum fyrrv. stjórnarandstæðinga var sú gífurlega hækkun á fjárl., sem þeir töldu hafa orðið í tíð þeirrar ríkisstj., og þá fyrst og fremst sú hækkun sem átti sér stað á milli ára. Það vill svo til að ég hef hér upplýsingar um hækkun milli ára á fjárl., milli ára frá 1968. Fjárlög milli áranna 1968 og 1969 hækkuðu um 12.5%, fjárlög milli áranna 1969 og 1910 hækka um 17%, en fjárlög milli áranna 1970 og 1971, sem er kosningaár, það skal tekið fram, hækka um 40.8%. Mesta hækkun, sem átti sér stað á fjárl. milli ára hjá fyrrv. ríkisstj., var 44% og sú hækkun var harkalega gagnrýnd, en þess var ekki getið að einmitt milli þeirra ára eða milli þeirra fjárlagagerða var framkvæmd breyting á tekjustofnunum þannig, að ríkissjóður yfirtók gjöld af sveitarfélögunum svo að nokkrum hundruðum millj. skipti.

Ég skal ekkert vera að kvarta yfir þessari gagnrýni þeirra sjálfstæðismanna á þetta. En ég vil með leyfi hæstv. forseta vitna hér í nokkur ummæli úr þessari hinni merku ræðu fyrrv. hæstv. fjmrh. og með þá tilvitnunum eða kannske ráðleggingum til hans og þeirra framsóknarmanna sem nú eru aðilar að ríkisstj. Hæstv. fjmrh. sagði á einum stað í sinni ræðu með leyfi forseta:

„Eitt af því, sem mikið er rætt nú, er hvað fjárl. hafa hækkað. Þá er rætt um það hvað fjárl. hafi hækkað frá því núv. ríkisstj. tók við. Nú ætla ég ekki að fara að telja einu sinni enn til það sem var vantalið í fjárl. 1971, þ.e.a.s. hjá viðreisn. Ég vil hins vegar minna á það sem ég nefndi áðan að ef framlög sveitarfélaga og persónuskattar til sjúkrasamlaga hefðu ekki verið felld niður, þá væru fjárl. 2000 millj. lægri.“

En svo heldur hæstv. þáv. fjmrh. áfram og segir:

„Ég minni einnig á það, að hafnalögin“ — og þá komum við einmitt að þeim málaflokkum, sem eru hvað viðkvæmastir, a.m.k. fyrir kjördæmi eins og núv. hæstv. samgrh. er úr og ég ásamt fleirum þm. dreifbýlisins, — hann segir: „hafnal. og heilbrigðisl., sem voru sett í fyrravor og sett í ákveðnum tilgangi, og það var að hækka framlag ríkisins til þess að létta af höfnunum og þar með byggðarlögunum úti á landsbyggðinni. Ég get ekki heldur stillt mig um að minna á það, að ef fjárl. frá 1968, 1969, 1970 og 1971 eru skoðuð, þá verður öllum ljóst að þau voru niðri í algerum öldudal í ríkisframkvæmdum. Það hefði ekki verið fært að halda því áfram nema með þeim hætti að þjóðin hefði beðið tjón af. Þessu held ég að hv. alþm. verði að gera sér grein fyrir, og þeir gera sér grein fyrir því þegar er rætt um þær framkvæmdir sem þeir sjálfir hafa áhuga á.“

Og hann heldur áfram og segir: „En ég ætla að nefna nokkur atriði, sem hafa valdið þessari hækkun á fjárl. frá 1971. “Og hann nefnir þar í fyrsta lagi hækkun á fjárl. til byggingar skóla. Ég vil í þessu sambandi minna á það að í frv. til fjárl. nú er reiknað með yfirleitt 10–15% minnkun á framkvæmdum.

Fjmrh. heldur áfram og segir: „Eru ekki hafnirnar undirstaðan undir aðalatvinnuvegi okkar? Er það ekki ljóst, að breyta þarf hafnal. og byggðarlögin treysta sér ekki til að standa undir fjárveitingum til þeirra.“

Og hann bætir við: „Talið þið um byggðastefnu og leggið svo jafnhliða til að skera niður hafnarframkvæmdir, það hljómar ekki vel.“ Hér er komið að atriði sem ég held að sé vert að íhuga því að ef við lítum á póst eins og hafnamálin, þá er ljóst að fjárveiting til hafna á árinu 1971, þegar vinstri stjórnin tók við, var 99 millj. kr. Hún var á síðustu fjárl. vinstri stjórnarinnar, þ.e.a.s. fjárl. ársins í ár, 838 millj. kr. Núna er hækkun á þessum lið til hafnarframkvæmda á öllu landinu 89 millj. kr. Þetta þýðir sennilega í reynd niðurskurð upp á 30–40% og þessi áminning fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. samgrh., á því vel við. Það fer ekki vel saman þegar menn eru að tala um byggðastefnu eins og núv. stjórnarliðar hafa gert, en skera svo jafnframt niður stórlega framkvæmdir sem eru þess eðlis að byggðastefna verður ekki í reynd, nema því aðeins það fáist aukið fé til þessara framkvæmda.

Ég sagði áðan að gagnrýni fyrrv. stjórnarandstæðinga hafi fyrst og fremst verið á útþenslu í fjármálum ríkisins, og þeir drógu ekkert undan hvort þar var um að ræða rekstrarútgjöld eða beinlínis fjárveitingar til framkvæmda, enda sýnist mér að hin fyrstu fjárlög eða frv. til fjárl. hjá núv. hæstv. ríkisstj. beri þess merki, að hér er gerður allmikill greinarmunur á, því að í frv. til fjárl. nú fyrir árið 1975 kemur í ljós að þar er um að ræða allt að 82% hækkun á útgjaldaliðum rekstrarútgjalda, en stórlegan niðurskurð í framkvæmdaliðum.

Í þessari tilvitnuðu ræðu núv. hæstv. samgrh. fjallar hann einnig um flugvallarmálin. Þar eins og í öðrum flokkum að því er varðaði framkvæmdaliði var gert stórátak í tíð fyrrv. ríkisstj. Árið 1971, þegar viðreisnarstjórnin fór frá völdum, var fjárveiting í þennan málaflokk 31 millj. kr. Hún er á fjárl. þessa árs 172 millj. Nú gerir hæstv. ríkisstj., nú gerir hæstv. fjmrh. till. um 12 millj. kr. hækkun á þessum framkvæmdalið, þ.e. flugvallargerð. Það er í kringum 7% hækkun þegar framkvæmdakostnaður hefur hækkað yfir 50%. Hér á einnig við hin góða áminning fyrrv. hæstv. fjmrh. um að það fer ekki saman að tala um aukna byggðastefnu, en svo stórkostlegan niðurskurð á framkvæmdamagni úti í dreifbýlinu.

Ég sagði áðan að það fjárlagafrv., sem hér væri til umr., bæri þess greinilega merki að það hefði verið um of, ef menn ættu að vera sér sjálfum samkvæmir, gagnrýni hjá fyrrv. stjórnarandstæðingum á vinstri stjórnina vegna aukinna útgjalda hjá ríkissjóði, ekki bara í rekstrarútgjöldum, heldur og í sambandi við framkvæmdaliði.

Ein af þeim skrautfjöðrum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hampar hvað mest, er sem þeir kalla hina stórkostlegu hækkun fjárframlaga úr ríkissjóði til Byggðasjóðs. Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan: „Í fjárl. þessa árs eru 153 millj., í fjárlagafrv, eru 877 millj.“ Ef lítið er nánar á þennan lið kemur í ljós að það er rétt hjá fjmrh. að því leyti til að í fjárl. þessa árs eru 153 millj. Auk þess er svokallað álgjald sem verður upp á 250 millj. á þessu ári + lántökuheimild sem Byggðasjóður hefur á þessu ári, 300 millj. kr., þannig að í reynd getur Byggðasjóður á þessu ári haft til ráðstöfunar 703 millj. kr. En fjmrh. gleymdi að geta þess að í þessum 877 millj. er einmitt álgjaldið innifalið. Það er innifalíð í þessari upphæð. Það er sett þannig upp, þannig að hér er ekki um eins mikinn mismun að ræða og núv. stjórnarliðar vilja vera láta. Hér er um að ræða mismun upp á 175 millj. kr. eða svo. En samfara þessu, 175 millj. kr. hækkun framlaga í Byggðasjóð, er gerð till. um í fjárlfrv. að skera stórkostlega niður aðra framkvæmdaliði fjárl., þannig að hér er í reynd verið að færa í milli hluta af þessu. Það er bætt 170 millj. í Byggðasjóð, en teknar svo að nemur hundruðum ef ekki þús. millj. kr. af fjárlagaliðum sem hafa verið til framkvæmda. Þetta sýnist mér ætla að vera í reynd sú hin mikla byggðastefna sem núv. stjórnarflokkar guma hvað mest af. Það er eðlilegt að menn velti vöngum.

Nei, það er engin bót að því í reynd fyrir íbúa strjálbýlisins þó að það séu settar upp svo og svo háar tölur til Byggðasjóðs ef það er jafnhliða gert meira að því að draga úr á öðrum fjárlagapóstum sem hafa verið til framkvæmda.

Ég skal ekki fjölyrða ýkjamikið um þessa liði frekar, en ég vil þó vekja athygli á einum lið. Þar á líka við sú áminning sem fyrrv. hæstv. fjmrh. talaði um í sinni fjárlagaræðu 1973, en það er í sambandi við orkumálin. Ég held að enginn geti verið í vafa um að það er lífsnauðsyn að unnið sé vel og dyggilega að fjáröflun og framkvæmdum að því er varðar orkumál í því ástandi sem við nú lifum í. Það er einmitt í þessum líð sem hæstv. fyrrv. fjmrh. talar um að megi síst spara og það er rétt. Mér hnykkti því hálfgert við þegar ég varð þess vís að einmitt í þessum mikilvæga málaflokki, sem eru orkumál, voru gerðar till. til rn., þar með fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem voru frá Orkustofnun um, hvað gera skyldi og hvað fjármagna þyrfti mikið í þessum framkvæmdum á næsta ári. Einn er sá landsfjórðungur sem er hvað vanþróaðastur í þessum efnum. Það ern Vestfirðir. Orkustofnun hafði gert till. um að varið yrði til rannsókna í þessum efnum á Vestfjörðum 9.8 millj. kr. á árinu 1975, heilum 9.8 millj., í vanþróaðasta landshluta að því er varðar orkumál. Og maður skyldi nú ætla að hæstv. ríkisstj. hefði tekið slíka till. góða og gilda. En það er ekki aldeilis. Þarna hefur verið um of mikla bjartsýni af viðkomandi stofnun að ræða því að undir skurðarhnífnum hjá hæstv. ríkisstj. hafa þessar 9.8 millj., sem ætlaðar voru til rannsókna á Vestfjörðum í raforkumálum, verið skornar niður í 3.2 millj. Það nægir Vestfirðingum til öflunar og rannsókna á raforku næstu árin. Þetta er eitt ljósasta dæmið um það hve mikill munur er á milli orða og gerða. Ég fyrir mitt leyti trúi því ekki fyrr en ég tek á að hæstv. fjmrh. geri ekki bragarbót þarna á, ég treysti honum til þess og ég skal láta hann njóta sannmælis eftir að hann gerir það, fyrr ekki, ekki í þessum efnum.

Ég ætla að víkja hér í örfáum orðum, af því að það hefur lítið verið komið inn á það, að ýmsum liðum fjárlagafrv., ekki framkvæmdaliðum, heldur ýmsum menningar-, æskulýðs- og íþróttaliðum. Það hefur verið lítið talað um það hér en ég tel að það sé ástæða til þess að gefa því gaum.

Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. telur sig þurfa að hækka útgjöld í sínum stofnunum um 65% ætlar hún svo til öllum félagsmálaaðilum í landinu, æskulýðs- og íþróttafélögum, menningarfélögum og líknarfélögum að búa við nákvæmlega sömu krónutölu í fjárveitingum og eru á fjárl. þessa árs. Ég fletti að gamni mínum einmitt þessum líðum og ég varð mikils vísari í þeim efnum. Ég veitti fyrst athygli lið sem er undir félagsmálastarfsemi og er liður um æskulýðsmál. Þar eru allir undirliðir í liðnum æskulýðsmál óbreyttir að krónutölu. Liðurinn íþróttamál, allir undirliðir óbreyttir að krónutölu og meira að segja einn lækkaður, Í liðnum ýmislegt undir menntmrn., sem er með 74 undirliðum, sem eru styrktir til margs háttar félags- og menningarmála, er allt óbreytt í krónutölu. Liðurinn listir, framlög, með 23 undirliðum, allir óbreyttir í krónutölu nema 6. Og liðurinn ýmisleg framlög hjá félmrn. með 33 undirliðum, sem eru styrkir fyrst og fremst til líknar- og menningarmála, þar er allt óbreytt í krónutölu nema 3. Ég held því, að þó að leitað væri með logandi ljósi í gegnum fjárlfrv., þá væru þeir líðir fáir, sem sæist hækkun á, þegar litið væri til þessara pósta í fjárl., til félags- og menningarmála og líknarmála, til samfélagslegrar þjónustu við hin ýmsu menningar- og líknarfélög.

Ég trúi því vart, að hæstv. ríkisstj. ætlist til þess, að allur sá fjöldi fólks, sem hefur varið sínum tíma að meira að minna leyti til þjónustu við svona málefni leggi á sig enn aukna sjálfboðavinnu og fái sem sagt 50% niðurskurð á fjárveitingum, sem verið hafa á fjárlagapóstum til þessara mála, á sama tíma og útþensla ríkiskerfisins, kerfisins sjálfs, sem núv. hæstv. fjmrh. gagnrýndi hvað mest í stjórnarandstöðu, fær að leika svo að segja lausum hala með hækkun upp á a.m.k. 65%. Ég held a.m.k. að það verði eftir því tekið hjá hinum ýmsu einstaklingum og félagasamtökum ef þetta á að vera í reynd stefna hæstv. ríkisstj. í þessum málaflokkum. Og það er enginn vafi á því að fólk víðs vegar í kringum landið, sem hefur haft fyrir augum undanfarin 3 ár alla þá uppbyggingu á atvinnulífi og alhliða uppbyggingu sem átt hefur sér stað, verður fyrir sárum vonbrigðum, þegar það sér í reynd þann niðurskurð sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur uppi hugmyndir um og hefur lagt fram till. um í formi fjárlagafrv. Hafi einhver trúað því, að núv. stjórnarflokkar ætli að stuðla að aukinni byggðastefnu, þ.e.a.s. uppbyggingu þeirra svæða, sem um langan tíma hafa verið vanrækt, — hafi einhverjir trúað slíku tali, þá er ég viss um, að fólk sannfærist um það eftir annaðhvort að hafa fengið upplýsingar eða lesið frv. til fjárl. fyrir árið 1975 að hér er um fagurgala einan að ræða. Það er svo að segja sama, hvar er borið niður í fjárlfrv., alls staðar nema í rekstrarútgjöldum ríkiskerfisins sjálfs, þar er um stórkostlegan niðurskurð að ræða. Ég unni fyrrv. hæstv. fjmrh. þess vel, að hann hefur fengið í þessum umr. nokkuð margar skrautfjaðrir í sinn hatt, eftir að hann er farinn frá fjmrh: embættinu, sem að sjálfsögðu eru þá á kostnað hans arftaka. Það var sagt um það leyti sem ráðherraskipti urðu að fyrrv. hæstv. fjmrh. hefði lagt eftirmanni sínum margar lífsreglur og þær góðar. Og það voru líkur á því að hann ætlaði að hafa þær flestar í heiðri og taka til lít til þeirra, a.m.k. að því er varðaði skattlagningu. En í þessum efnum hefur núv. hæstv. fjmrh. orðið mikill eftirbátur síns fyrirrennara og það er því nánast átakanlegt til þess að vita að núv. hæstv. samgrh. skuli í reynd ætla að leggja sína blessun yfir það sem hér er að gerast.

Hv. síðasti ræðumaður sagðist vart trúa því að núv. samgrh. gerði ekki tilraun til þess að ýta á hæstv. fjmrh. til þess að afla meira fjármagns í hinar ýmsu framkvæmdir og þá fyrst og fremst hafnirnar. Þó að ég hafi aldrei verið neinn aðdáandi framsóknarmanna almennt talað, þá verð ég að segja að ég tek undir þessi orð þessa hv. ræðumanns. Ég treysti því að núv. samgrh. beiti afli sínu til þess að hér verði breyting á. Ég vona að núv. hæstv. fjmrh. verði auðsveipur í meðförum, eftir að búið er að tala hann til, þannig að sanngirnin, réttlætið, réttlætiskenndin fái að ráða. Og það skulu vera mín síðustu orð við þessa umr. að ég vonast til þess að hæstv. ríkisstj. sjái að sér í þessum efnum og byrji ekki á þeim háttum, sem voru viðhafðir í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að ætla að láta framkvæmdir þær, sem verið hafa í gangi í uppbyggingu atvinnulífs og alhliða uppbyggingu úti á landinu, fyrst og fremst verða fyrir skurðarhnífnum. Ef sú þróun á sér stað, þá er rétt sú vantrú eða kannske réttara sagt það öryggisleysi sem orðið hefur vart viða útí á landsbyggðinni frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum. Og ég óttast að ef þessir tveir hæstv. ráðh. láta ekki réttlætiskenndina ráða umfram annað þá verði það svo í reynd og þá er illa farið.