12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1975

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti síðan ég kom hér á hv. Alþ. að ég tek þátt í umr um fjárlagafrv. og kem upp í ræðustólinn hálffeiminn, því að nú eru hv. þm. farnir að hæla mér og það kann ég miklu verr við heldur en það sem áður var.

Það var margt merkilegt í 1. umr. um fjárlfrv. hér í fyrra. Ég sé t.d. að þær spanna yfir 99 dálka í þingtíðindunum. Að vísu tekur ræða fjmrh. þar næstum því helming eða 44 dálka, en þetta stóð í nokkra daga og sýnir að hv. þm. höfðu áhuga á fjárlfrv. og er vel að svo sé.

Að mínu mati er fjárlfrv. eitt það merkilegasta frv. sem fyrir Alþ. kemur á hverju þingi og svo verður einnig að þessu sinni, og sem betur fer sjá hv. þm. á því kosti og lesti og þannig þarf það einnig að vera.

Ég verð að segja það að þessi ræða mín, sem ég flyt nú, mun að sjálfsögðu verða með öðrum hætti heldur en þær sem ég hef áður flutt. En nokkur atriði eru þó sem ég vildi víkja að og leiðrétta sumt sem fram hefur komið hér í þessum umr. Til þess að gleyma því ekki ætla ég að taka þetta í öfugri röð og leiðrétta það sem hv. þm. 1. landsk., Jón Árm. Héðinsson, sagði hér áðan um vexti þá sem ríkissjóður þurfi að greiða Seðlabanka Íslands. Ég hef hér vaxtagreiðslur fyrir árið 1973 og þá greiddi ríkissjóður í vexti af hlaupareikningsviðskiptum sínum 33 millj. rúmlega. Það voru 6–8%, sem hann greiddi þar. Og af skuldabréfi því, sem gert var til 4 ára, greiðir ríkissjóður 8% vexti sem var þá eftir á greitt og voru 80 millj. kr., því að þar var um 1 milljarð að ræða, en afborgunin af því var 250 millj. á árinu í fyrra og annað eins verður á yfirstandandi ári. Þetta vildi ég að kæmi hér fram til þess að menn haldi ekki að Seðlabankinn noti refsivexti í viðskiptum sínum við ríkissjóð, því að um þetta er samið.

Ég vil í sambandi við þetta fjárlfrv. minna á það að á síðustu 3 árum komst á viss regla í samskiptum fjmrn. og fjvn. sem ég veit að núv. hæstv. fjmrh. mun halda og ég tel að sé af því hinu góða. Einn þáttur af því, sem ég vildi í því sambandi nefna, var það að fjvn. öll, bæði minni hluti sem meiri hluti, fékk í sínar hendur grg. þá sem Efnahagsstofnunin gerði fyrir tekjuöflun ríkissjóðs. Á viðreisnarstjórnarárunum fengum við, sem þá vorum í minni hl. í fjvn., ekki þessa grg., heldur aðeins frásögn af henni, og ég tel að þetta þurfi að haldast, að fjvn. í heild fái þessa grg. til þess að hún geti metið það eins, bæði minni hluti og meiri hluti. Ég tel mér það mikils virði að hafa afhent fjvn. þetta sem grg. fyrir árið 1974, því að ljóst er að tekjur ríkissjóðs verða á því ári miklu meiri en gert var ráð fyrir, en það var ekki byggt á spádómi fjmrh., heldur á spádómi hlutlausrar stofnunar sem mat þetta á þann veg eftir þeim forsendum sem þá lágu fyrir.

Það er hins vegar alveg rétt að einn þátturinn í að tekjur fara svo umfram það, sem gert er ráð fyrir á þessu ári, er að innflutningurinn er miklu meiri en nokkru hófi gegnir. Þess vegna vil ég undirstrika það, sem ég sagði í ræðu minni við útvarpsumr. um daginn, að það er ekki hægt að miða við þessa tekjuöflun af því að hún er meiri en þjóðin í heild þolir. Hitt vitum við, að við höfum ekki haft hér á nein höft um innflutning, og þeir, sem inn vilja flytja og hafa fengið til þess gjaldeyri og önnur þau skilríki sem til þess þarf, þeir hafa getað flutt inn vörur hvort sem það hafa verið bílar eða aðrar vörur sem við hefðum getað án verið. Það þarf ekki að draga það í efa að sá takmarkalausi áróður, sem hefur verið hér á landi, bæði í útvarpi, sjónvarpi og blöðum, um efnahagsráðstafanir og efnahagsástand á árinu 1974, hefur gert það að verkum að þessi gegndarlausi og skefjalausi innflutningur hefur átt sér stað. Það var þó lán í óláni að það voru þó innheimtir tollar og söluskattur í ríkissjóð af þessu innflutningsflóði, sem hér hefur átt sér stað. Ég tel að það sé ekki hægt að byggja tekjur fjárl. á slíku því að það er óraunhæft.

Ég vildi minna á þetta í sambandi við yfirstandandi ár. Ég vil líka segja það að þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í efnahagsmálum, hafa margar verið neyðarráðstafanir, sem mjög slæmt er að hafa þurft að gera, og tel ég niðurgreiðslurnar einn þátt af þeim þó að ég viti að þær komi sér að sumu leyti vel fyrir þá sem þeirra þurfa að njóta, en ég er ekki mjög spenntur fyrir því að gefa hátekjufólki hálft matarverð. Hins vegar veit ég, að það kemur öðrum að liði, og þess vegna var til þess gripið þótt að mínu mati hafi verið of langt í því gengið. Hins vegar er ekkert við því að segja og ég hef tekið þátt í að samþykkja það og mér er það fullkomlega ljóst að í slíkum efnum er ekki hægt að stökkva til baka aftur. Þar verður allt að vera með gát ef vel á að fara.

Við þurfum ekkert að vera undrandi yfir því þó að hér á landi hafi verið mikil verðbólga tvö síðustu árin. Þessi tvö síðustu ár jafnast ekki á við nein ár næsta áratugsins á undan eða þótt lengra sé leitað í sambandi við verðhækkanir á innfluttum vörum. Við þurfum ekki að halda að við séum einir í heiminum, og þegar við flytjum inn verðbólgu upp á 24% eins og við gerðum á árinu 1973 og upp á 48–49% eins og við gerum á árinu 1974, þá þurfum við ekki að láta okkur detta annað í hug en það komi við. Verðhækkunin á olíu kostar okkur 3 milljarða á þessu ári umfram það sem áður var svo að það þarf enginn að halda að það sjáist ekki bæði í ríkisútgjöldum og útgjöldum almennings í landinu. Þetta er eins eðlilegur hlutur og lífið sjálft, og sveiflur af hinu verra koma eins við okkur og sveiflur af hinu betra. (Gripið fram í: Trúir hæstv. ráðh. á 15% verðbólgu næsta ár?) Ég er ekki kominn að því, en ég skal svara hv. þm. strax, að ég ætla mér ekki að vera að taka þátt í spádómi því að mér sýnist ástandið í verðlagsmálum í veröldinni vera það ótraust að ég mun hvorki spá 15% né öðrum prósentuhækkunum á næsta ári. Það er alls ekki séð fyrir endann á því enn þá hvernig verðlagshreyfingarnar verða í veröldinni á næsta ári, því er nú verr. Ég las í blöðunum í dag að Bretar eru að láta sitt gengi fara á flot á nýjan leik, svo að mér sýnist það ekki stefna til þess að um festu verði að ræða. Hitt er annað mál, að það væri æskilegt að verðbólgan þyrfti ekki að vera meiri, en ég hef aldrei trúað því og trúi því ekki enn þá að við komumst hjá því að þurfa að taka afleiðingunum af verðbólgunni í veröldinni eins og hún hefur verið og er enn þá. — Þetta vildi ég segja um þá hluti.

Ég vil svo segja um aðra hluti og sérstaklega þá sem snúa að framkvæmdaliðum fjárlfrv., að það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. gerir grein fyrir í grg. fjárlfrv. og í sinni ræðu, að auðvitað hafði hann mjög takmarkaðan tíma til að undirbúa þetta fjárlfrv. Ég get vottað það að meðan ég sinnti því starfi í sumar sagði ég hagsýslustofnuninni að ég mundi engin áhrif hafa í sambandi víð undirbúning fjárlfrv. Þeir yrðu að vinna það sem embættismenn af sinni venjulegu samvískusemi sem ég þekkti þá vel að, en stefnumörkun gæti ekki átt sér stað fyrr en séð yrði hver stjórnarmyndun yrði í landinu og hvaða fjmrh. hefði þar mest um að segja. Mér er það alveg ljóst að fjárl. íslenska ríkisins eru flóknari en svo að það verði hægt að breyta þeim á einhverjum víkum eða mánuðum. Þess vegna lagði ég saman hlustirnar í fyrravetur og hlustaði ekki á það þegar menn voru að tala um að hægt væri að lækka fjárl. með einu handtaki um 1–2 eða 3 milljarða. Slíkt er tal út í loftið og verður hvorki á færi mínu né núverandi hæstv. fjmrh. Hvort sem menn treysta sér til þess eða ekki þá mun lífsreynsla sanna þeim að þetta er ekki hægt, að þeir verða að byrja á því að fá hv. alþm. til þess að breyta mörgum lögum, áður en slíkt er framkvæmanlegt. Og mér er sem ég sjái það gert hér á hv. Alþ. Ég vona að við þurfum ekki að lenda í því að menn geri það með glöðu geði. (Gripið fram í: Heldur þú að menn viðurkenni það?) Menn viðurkenna ýmislegt á stundum, en stundum geta þeir komist fram hjá því líka og þá gera þeir það.

Það eru t.d. ýmsir hlutir í fjárlfrv. sem er eftir að vinna. Mér er það ljóst og hæstv. fjmrh. er það líka ljóst. Áætlun um Póst og síma er ekki raunhæf. Við vissum það ósköp vel. Það var samkomulag milli okkar að við settum þetta dæmi upp, færum ekki að sýna Póst og síma með halla, en að Póstur og sími kæmist af með 200 eða 300 millj. í framkvæmdir á heilu ári, það datt hvorugum okkar í hug því að það er algerlega óframkvæmanlegt. Það mundi verða til þess að skerða tekjumöguleika Pósts og síma verulega ef út í það ætti að fara. Það er algerlega óframkvæmanlegt að hugsa sér þetta enda datt okkur það ekki í hug. — En við höfðum ekki, hvorki ég sem samgrh.hæstv. fjmrh., tíma til að vinna að þeim málum þannig að þau væru svo undirbúin sem nauðsyn bar til. Nú er verið að vinna að þessu og ég get fullyrt að það verða engar 200 eða 300 millj. sem við þurfum til framkvæmdanna. Ég veit að við getum ekki fengið eins mikið fé til framkvæmda hjá Pósti og síma og nauðsyn ber til vegna þess að við getum ekki hækkað tekjur stofnunarinnar svo mikið sem þar þarf til. Hitt munum við leggja okkur fram um, að finna þá leið í því sem við teljum okkur sæmilega geta staðið að og skynsamlegt er vegna stofnunarinnar sjálfrar.

Sama er að segja um landshafnirnar. Nú vil ég taka fram að það eru til fleiri landshafnir heldur en Njarðvík, því að Rif á Snæfellsnesi er einnig til, það er landshöfn og við megum ekki gleyma því. En þetta mál er líka óunnið af okkar hendi. Það er mjög stutt síðan ég fékk frá vitamálastjóra áætlun um hugsanlegar framkvæmdir eða framkvæmdaþörf í þessum tveimur landshöfnum. Þetta verður eitt af því sem verður unnið í meðferð fjvn. núna á þessu tímabili fram að því sem fjárl. verða afgreidd.

Ég verð nú að þakka vini mínum hv. 5. þm. Vestf. sem er nú í hverri ræðu, sem hann heldur, alltaf að gráta vinstri stjórnina, sem mér finnst ekkert undarlegt. Mér finnst bara að hann hefði átt að átta sig á þessu fyrr. En betra er seint en aldrei. Ég hef verið að segja það og það er alveg rétt að það varð stórfelld hækkun á fjárveitingum til hafnargerðar á s.l. ári. Ég lít svo á að þegar tekið er svo mikið stökk þá þurfi ekki að gera það á hverju ári. En framkvæmdirnar í höfnunum á næsta ári, þó að sé miðað við fjárlfrv., eru allverulegar. Við megum ekki gleyma því að það er verið að framkvæma stærstu hafnargerð á Íslandi sem er í Þorlákshöfn og gert ráð fyrir að nokkrum hundruðum millj. kr. verði varið til framkvæmda á árinu 1975. Hitt er svo ljóst, að það er nú búið að gera drög að áætlun um framkvæmdir í höfnum til næstu 3 ára, og ég vona að það sýni sig að þar sé miðað við verulega áframhaldandi uppbyggingu í hafnagerð landsins, miðað við þá þörf sem nú er orðin þar, því að það er með hafnargerðina eins og margt fleira að þetta hefur breyst svo á síðari árum vegna þess að skipin hafa stækkað verulega og skuttogararnir, sem komið hafa til lands nú á síðustu árum, krefjast auðvitað miklu meiri og stærri hafna en litlu skipin sem þar voru fyrir. Ég vona að þessi hafnaáætlun muni koma til fjvn. mjög fljótlega. Það er ekki reiknað með að þeir fjvn.- menn gefi út þá þætti hennar sem ekki varða árið 1975, þar sem þetta kemur sem sérstakt þskj. síðar og verður farið að undirbúa það fljótlega til prentunar, en eins og stendur er það ekki alveg að fullu frágengið, en till. um árið 1975 eru komnar í form.

Ég vona að þm. sjái að það sé stefnt að verulegum framkvæmdum í höfnum á næsta ári og geri sér grein fyrir því að eins og fyrr muni frv. eitthvað hækka í meðförum fjvn. Ég hef alltaf litið svo á að fjárlfrv. ætti aldrei að vera með þeim hætti að fjvn. breytti ekki einhverju frá því sem áður hefur verið. Ég lít svo á að það eigi að vera hennar hlutverk.

Ég vil líka segja það út af því sem hefur verið rætt hér um, þátt íþróttamála og félagsmála almennt: Ég treysti því fastlega að það verði haldið við þá stefnu, sem fyrrverandi ríkisstj. tók upp, að sinna íþróttamannvirkjum með þeim hætti að það verði ekki meira um framkvæmdir en það, að það verði greitt til þeirra jafnharðan og framkvæmdirnar eiga sér stað .og haldið verði við þann samning að greiða upp gömlu skuldina sem ég veit líka að verður gert. Þess vegna verður að vera samband á milli þeirra íþróttamannvirkja, sem á að vinna á næsta ári, og þeirra fjárveitinga, sem verða í fjárl. þegar þau verða afgreidd. Þetta hefur venjulega farið svo, að það hefur hækkað í meðförum fjvn., og ég geri ráð fyrir að svo verði enn þá.

Sama er að segja um styrki til ýmissar félagsstarfsemi. Ég held að ég muni það rétt að þar sé nú fylgt sömu reglu og við höfum áður fylgt, að hækka yfirleitt ekki í fjárlfrv. til slíkrar starfsemi, nema má vera að við höfum gert það í sambandi við leikstarfsemina, sérstaklega Leikfélag Reykjavíkur. Hins vegar hefur verið talið að betra væri að fjvn. afgreiddi þessa þætti, félagssamtökin ættu sér þar marga formælendur sem mundu vinna að þeirra málum og eðlilegra væri að gera það í n. heldur en í fjárlfrv. Ég treysti því að þessum líð verði sinnt svo sem verið hefur. Ég legg á það mikla áherslu sem ég hef gert fyrr, að starfsemi eins og hjá Leikfélagi Reykjavíkur njóti verulegs framlags frá ríkinu. Það er afskaplega mikils virði fyrir menningarlíf höfuðstaðarins að hafa hér tvö leikhús og ég mundi ekki vilja styðja að því að Leikfélag Reykjavíkur gæti ekki haldið sinni starfsemi áfram. Ég vona að meðan ég á hér sæti á hv. Alþ. styðji ég að þeirra málum og veit að það mun verða gert eins nú.

Þannig tek ég undir það, að það eru margir liðir í fjárlfrv. sem eftir er að endurskoða og munu taka breytingum í meðferð hv. fjvn. eins og eðlilegt er.

Ég vil svo segja það út af því sem hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, sagði í sambandi við endurskoðun á lögunum um Lánasjóð. Það mun hafa verið fyrir fjárlagaafgreiðslu 1973 að námsmenn boðuðu mig og þáv. menntmrh. á fund til þess að ræða till. um fjárveitingar til Lánasjóðs námsmanna. Á þeim fundi sýndi ég fram á það með útreikningum sem starfsmenn fjmrn. höfðu gert, að miðað við þau lánakjör, sem þá voru í landinu, hagnaðist námsmaður, sem fékk námslán og var eðlilegan tíma við nám hér við háskólann, á þessu láni um rúma millj. kr. miðað við það að hann hefði fengið þetta lán með víxilvöxtum og hefi haldið því eins lengi í endurborgun og lánaskilyrðin í sjóðnum sögðu til um. Þetta er veruleg fjárhæð og nú er þetta vafalaust orðið meira. Ég tek undir það með hv. 1. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, að það er auðvitað eðlilegt að verðtryggja þetta fé að einhverju leyti, því að þetta fé er endurgreitt eftir að þessir menn eru komnir í störf og fá þá sínar launagreiðslur miðað við þau kjör sem þá eru í landinu og geta þess vegna endurgreitt það með svipuðum hætti. Þetta mundi líka þýða það að menn, sem ekki þurfa á þessum lánum að halda, væru ekki að sækja í þau. Ég sé enga ástæðu til þess á þessu sviði frekar en öðrum að verið sé að lána fé alveg út í bláinn. Ég sé ekki heldur að það sé réttmætt að unglingurinn sem fer í vinnu strax og hann er hættur í skólanum á vorin og er í vinnu þangað til skólinn byrjar á haustin, eigi að sitja við verra, eins og nú er, af því að hann hefur það miklar tekjur, en hinn sem fer í utanlandsferðir og skemmtir sér verulegna hluta sumarsins, að ríkið eigi að hygla honum betur. Ég er of gamall til þess að tileinka mér svona hugsunarhátt og sé ekki að þjóðfélagið eigi að byggja á þessu. Þess vegna er ég sammála, enda er verið að vinna að þessari endurskoðun. Það er mikil nauðsyn að endurskoða þennan þátt í útgjöldum ríkisins, og má gera það með þeim hætti, sem nauðsyn ber til, að styrkja eða styðja þá sem þurfa á þessu að halda, en láta þá skila aftur með þeirri afkomu sem þeir hafa síðar í lífinu.

Ég skal svo ekki fara út í marga þætti þess sem fram hefur komið í þessum umr. Ég vil segja það, að ég held að það hafi venjulega verið svo að það hafi gætt verulegrar íhaldssemi í ráðningu á starfsfólki hjá ríkinu og stundum hafi kannske verið gengið lengra í því en góðu hófi gegnir, bæði hjá mér og öðrum, vegna þess að það hefur þá orðið að fá þessa vinnu unna annars staðar. Og mér er sérstök ánægja að því, að segja það hér að í þjónustu ríkisins, a.m.k. að því leyti er ég kynntist því fólki, er margt af afbragðs starfsfólki, svo að það gerist ekki betra á öðrum stöðum á atvinnumarkaðinum. Hins vegar verður oft og tíðum að krefjast af þessu fólki alveg óhemjumikillar vinnu. Eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. var það ekkert lítið álag sem var á þeim mönnum s.l. vetur sem unnu að gerð launasamninganna og allt sem í kringum það var. Það hefur nú farið í skapið á mér að lesa í blöðum alls konar aðdróttanir að þessu fólki, sem lagt hefur nótt við dag til þess að skila sínu verkefni, um það að þessi og hinn ætti eftir að fá einhverjar greiðslur langt aftur í tímann, með mikilli fyrirhöfn og alls konar vinnu sem því fylgir þegar þannig þarf að vinna. Ég held að þær aðdróttanir, sem þar hafa komið fram, hafi ekki haft við rök að styðjast því að þetta fólk hefur lagt á sig miklu meira en í raun og veru er hægt að krefjast af nokkrum í sambandi við vinnuafköst því að það hefur orðið að leggja svo mikið á sig. En það er ekki orðið neitt smáfyrirtæki að reikna laun aftur í tímann hjá jafnfjölmennu starfsliði og er farið að vera hjá ríkinu. Ég er fylgjandi því sem hér er komið fram í frv. um aðhald í sambandi við starfsmenn ríkisins. Þetta frv. var samið að mestu leyti í fyrravetur, en þá var ástandið slíkt hér á hv. Alþ. að það þýddi lítið að vera að flytja fram góð mál, því að þau stönsuðu öll. En það, sem er mergur málsins í þessu, er að þarna er verið að reyna að girða fyrir það að lausráða fólk sem var oft og tíðum sú leið sem farin var. Með þessu frv. er líka tekið tillit til þess, sem kannske hefur skort á hjá okkur áður, að þeir, sem á sækja, fái að gera grein fyrir sínum málum fullkomlega, svo að fullkomins skilnings gæti á því þar sem þarf að fjölga því að það hefur auðvitað þurft að fjölga í ríkiskerfinu eins og annars staðar.

Ein af þeim ástæðum, sem hafa valdið því að ekki þótti fært að láta launaskrá fylgja fjárlfrv. í fyrra eða nú, er einmitt þessi breyting sem hefur átt sér stað að launadeildin hefur verið að taka fleiri og fleiri fyrirtæki á sin snæri og ríkisbókhaldið í sitt uppgjör og hefur verið svo mikil breyting á þessu, t.d. þegar farið var að greiða fyrir svo stórar stofnanir eins og Póst og síma, að launadeildin taldi sig þurfa nokkurn tíma til að geta skilað þessari skýrslu svo að hún væri örugg.

Eins vil ég segja um það, þó að það sé ekki beint í sambandi við þetta fjárlfrv. þá er það einn angi á því frv., um að ríkisstofnanir hafi ekki möguleika á lántöku án þess að fjmrn. viti þar um. Fyrirmæli um þetta voru gefin bæði af fyrirrennara mínum, Magnúsi Jónssyni, og endurtekin af mér. Það hefur hins vegar sýnt sig að þetta hefur ekki verið haldið og þess vegna er mikil nauðsyn á að setja lagafyrirmæli um þetta. Það er meiri nauðsyn á aðhaldi af hendi fjmrn. með ríkisfyrirtækjum heldur en ég gerði mér ljóst, ég skal fúslega játa það. Það hefur reynslan sannað og ber brýna nauðsyn til að það verði gert.

Ég skal svo ekki þreyta hv. alþm. með fleiru í sambandi við 1. umr. þessa fjárlfrv. Ég held að ég hafi skýrt það sem fram hefur komið hér í umr. og ég gat gefið skýringu á. Ég veit það eins og fyrr að hækkun á fjárlfrv. er alltaf gagnrýnd, auðvitað ekki af ósanngirni, það hef ég áður sagt, en af því að það skortir samhengi í það að meta á hverju fjárlfrv. er byggt.

Ég hef svo ekkert á móti því að heyra lesið úr mínum ræðum. Ég sagði við vini mína hér, sem voru í stjórnarandstöðu áður fyrr, að besti kafli úr þeirra ræðu væri það sem þeir læsu upp úr ræðunum sem ég hafði áður flutt, og ætli það verði ekki eins núna. Ég verð að meta það á sama og get látið mér vel líka.