28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna þessarar fsp. þykir mér rétt að rifja upp í fáum dráttum aðdraganda þessa máls.

Það er orðið æðilangt síðan rætt var fyrst um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þ.e.a.s. viðbótarlífeyri við þann grunnlífeyri almannatrygginga, sem menn fá skv. lögum um almannatryggingar. Var þá haft í huga að lífeyrisgreiðslur, sem kæmu til viðbótar lífeyri almannatrygginga, yrðu að einhverju leyti í hlutfalli við starfstíma og ævitekjur, á svipaðan hátt og gert hefur verið víða á Norðurlöndum.

Það mun hafa verið á árinu 1964 að þáv. félmrh. fól fyrrv. sendiherra Haraldi Guðmundssyni að semja um það álitsgerð, hvort ekki væri tímabært að setja lög um almennan lífeyrissjóð sem allir landsmenn, sem ekki væru aðilar annarra lífeyrissjóða, gætu átt aðgang að. Í álíti Haralds segir að tímabært sé að hefjast handa um nýja löggjöf hér að lútandi.

Í apríl 1966 skipaði þáv. félmrh. n. til að semja frv. til l. um almennan lífeyrissjóð. Þetta frv. var aldrei lagt fram á Alþ., því að áður en af því yrði skipuðust málefni lífeyrissjóða með öðrum hætti í sambandi við samninga verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og eru þessir sjóðir undir umsjón fjmrn. eins og aðrir lífeyrissjóðir. Síðan mál skipuðust á þann veg mun af hálfu fjmrn. hafa verið gerð könnun á því hverjir væru utan lífeyrissjóða og með hverjum hætti mætti leysa mál þeirra, og munu frv.-drög um lífeyrissjóð fyrir þá landsmenn, sem ekki eiga rétt í neinum lífeyrissjóðum, hafa verið samin að tilhlutan þess rn., en ekki verið lagt fram frv. á Alþ. bar að lútandi.

N. þeirri, sem fyrrv. heilbr.- og trmrh. skipaði til endurskoðunar almannatryggingalaga skömmu eftir að fyrrv. stjórn tók til starfa haustið 1971, var ekki falið í byrjun að gera breytingar á almannatryggingalögum í þessa átt eða semja frv. um almennan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það var ekki fyrr en undir lok tímabils þeirrar ríkisstj. að formanni n., Geir Gunnarssyni, var ritað bréf þar sem n. var falið að semja frv. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, en n. kom ekki saman í tilefni af því máli síðar. Hins vegar tók n. þetta mál upp að eigin frumkvæði í upphafi starfs síns á árinu 1971 og fékk tryggingafræðing til þess að gera yfirlit um lífeyrissjóði, sem starfandi væru, og fyrirkomulag þeirra. Og í des. 1973 réð n. Guðjón Hansen tryggingafræðing til að gera yfirlit um hvernig standa mætti að því að stofna allsherjarlífeyrissjóð fyrir landsmenn eða allsherjarþátttöku í lífeyrissjóðum.

Í þeirri grg., sem Guðjón Hansen lagði fram 4. des. 1973 til þessarar endurskoðunarnefndar almannatryggingalaga bendir hann á eftirfarandi fimm leiðir til að tryggja öllum lífeyrisréttindi umfram bætur almannatrygginga:

1. Allsherjarlífeyrissjóður með þátttökuskyldu fyrir alla sem atvinnutekjur hafa og innlimun núv. lífeyrissjóða.

2. Allsherjarlífeyrissjóður með þátttökuskyldu fyrir alla, sem atvinnutekjur hafa, og réttindaneyslu frá stofnun sjóðsins.

3. Lífeyrissjóður fyrir alla þá sem ekki eru nú þegar orðnir félagar í einhverjum þeirra sjóða sem nú eru starfandi.

4. Lífeyrissjóður með þátttökuskyldu fyrir þá sem ekki eru skyldir að vera í öðrum lífeyrissjóðum eða eiga með öðrum hætti aðild að þeim. — Þess má geta að þessi leið er í samræmi við frv.-drög sem samin voru af fjmrn. á árinu 1971 og áður er getið um.

5. Lífeyrissjóður með frjálsri þátttöku fyrir alla sem atvinnutekjur hafa og eru ekki félagar í öðrum lífeyrissjóðum.

Af því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst að allmikið hefur verið um það hugsað, rætt og ritað síðustu 10 ár með hverjum hætti lífeyrisvandamál landsmanna skyldi leysa. Skv. þeim athugunum, sem liggja fyrir, munu lífeyrissjóðir vera á milli 90 og 100 og má gera ráð fyrir að 90–95% launþega 20 ára og eldri séu innan vébanda einhvers lífeyrissjóðs. Hins vegar munu tiltölulega fáir, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, að bændum undanskildum, vera félagar í lífeyrissjóðum.

Þegar undan eru skildir séreignasjóðir eða séreignadeildir lífeyrissjóða má í stórum dráttum skipta íslenskum lífeyrissjóðum í 3 flokka með tilliti til þess hvernig brugðist er við verðbólguvandamálinu. Í fyrsta lagi má nefna sjóði sem enga áhættu taka á sig vegna kaupgjaldsþróunarinnar, hver iðgjaldagreiðsla veitir tiltekinn rétt, þ.e. krónutölu, miðað við iðgjaldsfjárhæð og aldur sjóðfélaga á greiðsludegi. Á miklum verðbólgutímum koma lífeyrisréttindi af þessu tagi að sjálfsögðu að mjög takmörkuðum notum þótt iðgjaldagreiðslur fylgi kaupgjaldsþróuninni og hækki með aldrinum. Í öðrum flokki eru lífeyrissjóðir sem taka á sig takmarkaða áhættu vegna kaupgjaldsþróunar. Algengast er að lífeyrir þeirra sjóða miðist við áunnin stig og kauplag næstu 5 árin áður en taka lífeyris hefst ellegar við iðgjaldagreiðslutíma og meðallaun hlutaðeigandi sjóðfélaga 5 síðustu starfsár hans. Í þriðja flokknum eru sjóðir sem taka á sig ótakmarkaða áhættu vegna kaupgjaldsþróunar eða hafa bakhjarl sem ber ábyrgð á þess konar skuldbindingum að meira eða minna leyti. Sjóðir af þessu tagi greiða yfirleitt lífeyri í hlutfalli við laun eins og þau eru á hverjum tíma, en ábyrgðaraðilinn, svo sem ríkissjóður eða Reykjavikurborg o.fl., stendur sjóðnum skil á lífeyrishækkunum með sérstökum aukaframlögum.

Það er augljóst af þeim könnunum, sem gerðar hafa verið, að ýmsar leiðir eru til að þessu marki og getur verið erfitt að vega og meta hvaða leiðir eru auðveldastar eða falla best að því kerfi sem þegar hefur verið byggt upp. Hins vegar er enginn vafi á því að mesta vandamálið í sambandi við lífeyrissjóði landsmanna almennt er það, á hvern þátt er hægt að verðtryggja lífeyrisgreiðslurnar, þ.e.a.s. að bætur lífeyrissjóða séu í samræmi við kaupgjald og verðlag á hverjum tíma. Það vandamál geri ég ráð fyrir að öllum þm. sé ljóst og ætla því ekki að fjölyrða um það á þessu stigi málsins. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að hvað sem líður endurskoðun almannatryggingalaga, þá verði málið tekið upp í heilbr.- og trmrn. og ríkisstj., ef komist verður að þeirri niðurstöðu að ekki verði um að ræða breyt. á l. um almannatryggingar, heldur sérstaka löggjöf um lífeyrissjóð. Þá má gera ráð fyrir, að málið verði tekið upp af fjmrn. að nýju þar sem frá var horfið á árinu 1971, vegna þess að lífeyrissjóðirnir heyra undir það rn.