28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Rétt er að það komi fram við þessa umr. hvert var tilefni þess að fyrrv. ríkisstj. tók það mál, sem hér er til umr., til meðferðar, þó að það hafi því miður ekki enn hlotið fulla afgreiðslu. Tilefnið var það, að við þm. Alþfl. fluttum á þinginu 1972–73 till. til þál. um lífeyrissjóð allra landsmanna og var ég 1. flm. þeirrar till. Í tillgr., þar sem rætt var um það sem við töldum eiga að vera hlutverk lífeyrissjóðsins, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk lífeyrissjóðs allra landsmanna skal vera að vinna að því að þeir, sem nú njóta ekki lífeyrisréttinda, öðlist þau og að samræma störf þeirra lífeyrissjóða, sem nú starfa, bæði að því er varðar réttindi þau, sem þeir veita, og ráðstöfun á fjármagni þeirra. Enn fremur skal lífeyrissjóður allra landsmanna stuðla að því að rekstur lífeyrissjóðanna verði sem hagkvæmastur.“

Þegar till. var flutt hafði þetta mál legið í láginni alllangan tíma. Er ástæðulaust annað en að þess sé getið þegar slíkar umr. sem þessar fara fram, að málið er engan veginn eins nýtt og komið hefur fram í ýmsum ummælum sem hér hafa fallið. Það eru um 15 ár síðan að af hálfu félmrh. Alþfl. í fyrrv. stjórnum tveim var höfð um það forusta að málíð væri kannað ítarlega. Rækilegasta könnunin, sem gerð hefur verið á þessu máli, var gerð fyrir um það bil 15 árum af Haraldi Guðmundssyni fyrrv. forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, er samdi stóra og og stórmerka álitsgerð um þetta mál. Hins vegar fór svo, að málið tók í heild aðra stefnu en Alþfl. hafði gert ráð fyrir og fylgt hafði verið annars staðar þar sem þessi mál eru komin í fullkomið horf, svo sem í Svíþjóð. Stofnun lífeyrissjóða fyrir þá, er ekki nutu slíkra réttinda, varð að þætti í kjarasamningum launþegasamtaka og vinnuveitenda, og var þar að sjálfsögðu um mikilvægar hagsbætur að ræða sem voru mikið fagnaðarefni á sínum tíma og í fólst stórkostleg kjarabót. En því miður varð þetta til þess að drepa hugmynd um löggjöf um lífeyrissjóð allra landsmanna á dreif. því var það að við þm. Alþfl. fluttum þáltill. um málið, sem fékk einróma undirtektir hér á hinu háa Alþ., og var málinu samhljóða vísað til hæstv. ríkisstj.

Ég vil að síðustu taka undir það sem hér hefur verið sagt, að málið er þrautrannsakað, málið er þaulkannað og í rauninni er ekki annað eftir en að taka jákvæða ákvörðun.