28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það er vissulega merkt mál sem hér er verið að ræða, og ég hygg að allir alþm. séu sammála um að það sé mikið nauðsynjamál. Engu að síður hefur það vafist fyrir mönnum að koma skipulagi á þessi mál. Ég minnist þess þegar verið var að útbýta álitsgerð Haralds Guðmundssonar fyrrv. ráðh., ég hygg að það hafi verið 1966, og síðan hefur sú álitsgerð legið fyrir án þess að nokkurri þeirri ríkisstj., sem setið hefur að völdum allan þann tíma, hafi auðnast að koma málinu í viðunandi horf. Ég hygg að menn þurfi ekki beint að metast um það hvers sé sökin mest í þessu efni, heldur eigi menn að sameinast til nýrra átaka um að koma málinu í höfn. Þess vegna er ég fagnandi yfir því að þessu máli skuli hreyft og það fá þær undirtektir sem rann ber vitni hér í þessum umr.

Ég ætlaði mér að reyna að hressa upp á sögukunnáttu alþm. í þessu máli með því að minna á hvenær það var sem Ólafur Jóhannesson núv. dómsmrh. flutti, að ég hygg fyrstur manna, þáltill. um að stofna lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. En því miður er minni mitt ekki svo trútt að ég geti farið með það hvenær þetta var, en það er auðvitað til í skjölum Alþ. og mun verða rifjað upp þegar þessu máli verður ráðið til lykta.