28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Nokkru fyrir jól bar þessi mál á góma hér í þinginu og ég tók þá til máls. Það er á mjög svipaðan hátt sem þessi mál eru nú rædd, þ.e.a.s. þær almennu umr. sem hér fara fram.

Í fyrsta lagi vildi ég segja það, að hið sögulega yfirlit, sem hér hefur verið gefið, er sjálfsagt í öllum aðalatriðum rétt. En þegar almennu verkalýðsfélögin sömdu um lífeyrissjóði í maí 1969 höfðu umr. um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn staðið í æði mörg ár og eins og við orðuðum það þá, 1969, gátum við ekki annað séð í verkalýðsfélögunum en að þessi lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, það væri mál sem einhvers staðar væri í blámóðu fjarskans, því að alltaf strandaði á því hvernig ætti að fjármagna slíkan lífeyrissjóð. Þetta var ekkert annað en orðin tóm allan tímann. Skýrsla Haralds Guðmundssonar var mjög merk og ágæt á sína vísu. En það vantaði framkvæmdina, það vantaði fjármagnið og þess vegna var það sem við sömdum um lífeyrissjóðina 1969.

Þetta mál er mjög vandasamt og ég undirstrika það að þessum málum verður að sjálfsögðu ekki ráðið til lykta nema í fullu samráði við lífeyrissjóðina og fyrst og fremst við verkalýðshreyfinguna í landinu. Aðferðirnar til þess að verðtryggja þessa sjóði geta verið ýmsar, en spurningin, sem ég varpaði fram hér fyrir jólin, er: Á að safna í svona sjóði? Það er það, sem við verðum fyrst og fremst að gera upp við okkur. Á að mynda þessa stóru sjóði, sem þá verður að verðtryggja á einhvern þátt og verður ekki gert nema með mjög miklum fjármunum ef verðbólguþróunin verður eitthvað á svipaðan hátt og hún hefur verið. Það er vafasamt, verð ég að segja, hvort verkalýðshreyfingin út af fyrir sig á að standa undir meginhluta sparifjármyndunar í landinu með slíkri sjóðsöfnun og hafa síðan ekki meira öryggi en nú er.