28.01.1975
Sameinað þing: 33. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

85. mál, kostnaður á veitt kíló af bolfiski

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 93 hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi till. um rannsókn á kostnaði á veitt kg af bolfiski hjá fiskiskipaflotanum:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Þjóðhagsstofnuninni sérstaka rannsókn á kostnaði á veitt kg af bolfiski hjá ýmsum flokkum fiskiskipaflotans. Einkum skal lögð áhersla á athugun á eftirtöldum kostnaðarliðum pr. veitt kg: stofnkostnaði, olíu, veiðarfærum, tryggingum, viðhaldi og launagreiðslum. Athugunin nái yfir árin 1971–1974.“

Um þetta mál mætti hafa mörg orð og gera hér langa athugun á sjálfur. En ég tel það ekki rétt þar sem ég geri í grg. grein fyrir hvers vegna ég set þetta fram, en þar segir:

„Hafrannsóknastofnunin hefur látið þá skoðun í ljós að aflamagn þorsks muni enn fara minnkandi og verði aðeins um 350 þús. lestir árið 1975. Ætla má að þorskafli landsmanna á þessu ári verði um 370 þús. lestir.“ Þetta var árið 1974, þegar ég samdi grg., og reyndist svipað og spáð hafði verið. „Árið 1970 nam þorskaflinn 470 þús. lestum. Þegar menn hugleiða þessa þróun og svo fjárfestingu í togurum hlýtur að vera meira en tímabært að gera sér fullkomlega grein fyrir því, með hvaða hætti best verður staðið að veiðum á bolfiski.

Það er flestum kunnugt að endurnýjun á fiskiskipum landsmanna á sér stað í stórum stökkum, en ekki eftir vel gerða athugun á hverju hver tegund skip skilar og hvað verður eftir í þjóðarbúskapnum þegar allt er gert upp að loknu starfsári. Ýmsar ástæður valda þessu. Oft á tíðum ræður hér skammtíma hagnaðarsjónarmið á vissri fisktegund. Flm. telur að gagnger rannsókn á þeim þáttum, sem hér eru upp taldir muni stuðla að rökréttari og jafnari endurnýjun fiskiskipaflotans.

Ekki er einhlítt að hafa í huga kostnaðarþáttinn einan sér, heldur verðum við að meta hvaða tegundir fiskiskipa hagnýti fiskveiðilögsögu okkar sem ákjósanlegast. Staðreynd er að óhóflegt dráp á smáfiski ógnar nú sjálfum þorskstofninum og er ekki réttlætanlegt, þótt sumir telji það illa nauðsyn til þess að hafa eitthvað betri rekstrarútkomu á sjálfu úthaldi skipsins. Einnig er jöfn og skipuleg endurnýjun skipanna afar þýðingarmikil fyrir íslenska skipasmíði og allt atvinnulíf í landinu. Endurnýjun í eins stórum stökkum og gerð hefur verið hér á landi um margra ára tímabil knýr menn til þess að kaupa skipin að verulegu leyti erlendis frá.

Sú skoðun hefur komið fram, að við höfum fjárfest á stuttum tíma um of í togurum og sú mikla fjárfesting, sem þar er, muni ekki skila sér, einkum þegar bolfiskaflinn fer ört minnkandi, eins og staðreyndir sýna nú. Á norrænu fiskimálaráðstefnunni, sem haldin var í Tromsö í ágúst s.l., hélt Guðni Þorsteinsson gagnmerkt erindi um fjárfestingu í veiðiflota landsmanna og komst að þeirri niðurstöðu að greinilega hefði undanfarið verið um of fjárfest einhliða í skuttogurum og sú mikla fjárfesting, sem þar væri bundin, gæti ekki skilað sér á næstunni vegna minnkandi afla. Miklar umræður urðu um þetta erindi og var það samdóma álit ræðumanna að Guðni Þorsteinsson hefði hér rætt um eitt mesta vandamálið við útgerð togara á Íslandi á líðandi stundu, en ekki aðeins hjá íslendingum, heldur gilti hið sama hjá öðrum fiskveiðiþjóðum við Norður-Atlantshaf.

Hið mikla stökk í kaupum á togurum nú ætti að gefa okkur nokkurt svigrúm til þess að hugleiða með hvaða hætti endurnýjun á fiskiskipum okkar er æskilegust, hafandi þá í huga ákveðin tímabil, t.d. næstu 5 ár og svo aftur þar næstu 5 ár. Þess vegna hef ég hreyft þessu máli.

Þótt ég nefni hér togarana sérstaklega, þá er það vegna þess að þeir eru nú þyngstir á metunum í okkar uppbyggingu fyrir bolfiskveiðar, en engu að síður er nauðsynlegt fyrir vissa staði á landinu að hafa jafna og eðlilega skipasmíði og endurnýjun fyrir sitt svæði. En þegar stofnkostnaður togara er kominn yfir 300 millj. verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvort þessum 300 millj. er best varið í togara eða í 3 eða 5 aðra fiskibáta.

Því miður er þessi spá óhugnanleg, ef hún rætist, en ekkert vil ég fjölyrða um það. Ég tel að með því viðhorfi, sem við höfum nú allir hér á hv. Alþ. og þjóðin öll, að tryggja okkur stærri landhelgi, þá muni hér fljótt skipast betur til og aukinn afli togaranna muni innan skamms koma í ljós, — þó að sú fjárfesting sé erfið í bili, þá sé vonandi ekki langt í það að hún beri góðan árangur fyrir alla þá aðila sem að henni hafa staðið. Engu að síður tel ég eðlilegt að á þessu verði breyting, líka hafandi í huga að hér er innlend skipasmíði fyrir hendi og hún þarf eðlileg verkefni, en þegar ráðist er í svona stór kaup eins og við þekkjum allt frá eftirstríðsárunum fyrstu, þá hafa innlendar skipasmiðastöðvar auðvitað engan veginn getað mætt þeirri eftirspurn eftir skipum sem fram hefur komið í bylgjum með nokkurra ára millibili.

Þessi athugun á að vera hlutlaus. Hún á að fela það í sér, að veiðifloti landsmanna er flokkaður í ákveðnar stærðareiningar og athugað hver stofnkostnaður er, hve mikið mannahald er við skipin og annar rekstrarkostnaður, og þessir kostnaðarþættir gera langt yfir 90% af öllu úthaldi, svo að hér mun koma fram með hvaða hætti við getum staðið að eðlilegri samsetningu veiðiflotans. Eftir staðháttum deila menn oft um hvað henti hér og hvað henti ekki. En ég er á því, að eins og fiskur hagar sér við landið og hinar ýmsu verstöðvar eru settar, þá hljótum við alltaf að hafa fiskiskipaflota allbreytilegan að útbúnaði og stærð. Með því móti munum við hagnýta best okkar landhelgi og skila sem jöfnustum og bestum afla á land. Ég vil þess vegna ekki gera upp á milli neinna tegunda. Þeir verða að velja sem kaupa skipin. En ég tel eðlilegt, að þeir eigi kost á því að fá um þetta sérstaka athugun, því að þrátt fyrir reikningaskrifstofu hjá Fiskifélagi Íslands, þá koma þar ekki fram gögn eins og ég er hér að óska eftir. Þar er öllu slengt saman og mikið meðaltal fundið út sem segir mönnum oft sáralítið. Með því móti að leggja vinnu í að athuga þetta nánar og flokka þetta meira liggur það fyrir. Ég hef átt kost á því að sjá athugunargerð hjá norðmönnum í þessu efni, hliðstæða því sem ég legg hér til, þó að sú athugun þar hafi verið yfir þrengri hópa fiskiskipa. En sú athugun var gerð með aðstoð tölvutækni og leiddi margt mjög athyglisvert í ljós.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. að lokinni minni framsögu verði vísað til atvmn. til frekari athugunar.