29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

130. mál, fóstureyðingar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki nú við 1. umr. að orðlengja um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Hér er um ákaflega stórt, vandasamt og viðkvæmt mál að ræða, og ég tel að það sé ákaflega erfitt að fullyrða um hvað er rétt og hvað er rangt í þessu máli, svo einstaklingsbundið sem það er. En einhverri meginreglu verðum við þó að ganga út frá í okkar löggjöf.

Ég vil taka undir það, að I. kaflinn, um fræðslu og ráðgjöf, er ákaflega mikilvægur, og það er einmitt vegna þessa atriðis um fræðsluna og ráðgjöfina, að mér fannst frv. eins og það lá fyrir áður ganga of langt, miðað við það að við erum hér á Íslandi í dag engan veginn viðbúinn að annast þá fræðslu og ráðgjöf sem I. kafli laganna gerir ráð fyrir. Með því að leggja mikið upp úr þessu atriði án þess að sé hægt að veita þessa fræðslu og ráðgjöf í raun tel ég að við værum að fara út á mjög hála braut.

Ég vil aðeins í þessum örfáu orðum vitna til þess sem kemur fram í grg. n. sem fjallaði um þetta mál. Hún vitnar í reynslu grannþjóða okkar, að einmitt þessi þáttur í sambandi við fóstureyðingalöggjöfina, varnaðarstarfið, hafi verið svo stórlega vanræktur, að nú sé þeim löndum, þar sem fóstureyðingalöggjöfin hefur verið rýmkuð verulega og gefin alveg frjáls, orðið auðveldara að fá fóstureyðingu heldur en leiðbeiningar um getnaðarvarnir. Og með það í huga að utan Stór-Reykjavíkursvæðisins var alla vega ekki á s.l. ári einn einasti starfandi félagsráðgjafi og það er ekkert enn komið inn í okkar fræðslulöggjöf sem iðkað er í skólunum í þessa átt, þá sé ég ekki annað en að í dag yrði þessi lagakafli lítið meira en orðin tóm. Þar fyrir tel ég að einmitt þessu þurfum við að flýta, að eitthvað raunhæft gerist, þetta komi raunverulega inn í skólana og verði skýrt fyrir börnum og unglingum, En ég tel það langt í land, enda þótt við flýtum okkur og knýjum á um úrbætur í þessu efni, að fræðslan og varnaðarstarfið verði í molum fyrst í stað og þess vegna sé réttara að fara sér hægar, en hraðar í þessu efni.

Í stuttu máli vil ég tjá mig samþykka frv. eins og það liggur fyrir nú, án þess þó að ég hafi kannað nógu vel breyt. frá því í fyrra til þess að geta rætt um einstakar greinar. Mér sýnist greinilegt að 7. gr. og 13. gr. þurfi nánari athugunar við. En ég vil að lokum treysta því að hv. heilbr.- og trn. leggi sig vel fram og kanni eftir bestu samvisku hvaða leið er réttast að fara þar. Hvort hún skilar því óbreyttu eða ekki legg ég ekki mikið upp úr, heldur vil ég taka undir með hv. þm., sem hér hafa talað, að við þurfum að flýta þessu máli og ganga frá því á þessu þingi.