29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

130. mál, fóstureyðingar

Bjarnfríður Leósdóttir:

Herra forseti. Fóstureyðingafrv. er hér á dagskrá. Í þjóðfélaginu er það rætt, hefur verið rætt og verður rætt á siðferðilegum, tilfinningalegum og trúarlegum grundvelli, og ég tel það vera alveg rétt og þannig hljóti það að vera rætt. Við vitum að um aldaraðir höfum við búið við trú sem mælir á móti því að þetta sé gert. Siðferðiskennd, sem er sprottin frá þessari trú, er einnig sterk, þess eðlis að þetta skuli ekki gert. En svo vitum við hvernig ástandið er í þjóðfélaginu. Siðferðiskennd hefur farið niður á við í þessu eins og svo mörgu öðru. Þegar við ræðum um I. kafla í þessu frv. — og sumir telja að við séum kannske ekki tilbúin að ræða um þetta — þá hygg ég að það sé einmitt hugsað að það eigi að ræða um þetta læknisfræðilega, enda kemur á daginn að það er skólayfirlæknir sem á að gera það. Ég tel að þetta sé rangt, ekki af því að það þurfi ekki að ræða þetta frá læknisfræðilegu sjónarmiði, en ég tel að það, sem miklu meira varðar, sé að ræða um það frá siðferðilegu sjónarmiði. Það getur hvaða kennari sem er gert og það gera reyndar hverjir foreldrar og það verður hver og einn að meta við sjálfan sig, bæði karl og kona.

Það er vegsemd, en því fylgir vandi að vera maður. Og það er einmitt það, sem á að vera sterkasti þátturinn í þessu, að kenna ungu fólki, efla hjá því virðinguna fyrir manninum, fyrir lífinu og að í einu og öllu hagi það sér þannig að það sé ábyrgt. Það er ábyrgð að vera móðir, og það á engin kona að verða móðir nema hún taki því fagnandi. Ég held að það sé mjög sorglegt og mjög ömurlegt hlutskipti fyrir móður, fyrir foreldra og fyrir barn, sem fæðist án þess að vera velkomið.

Ég skal ekki lengja orð mín. Ég er meðmælt frv. þessu. Ég er meðmælt því, og ég er meðmælt því að það skuli vera fræðsla um þessi mál. En mér finnst rangt að það sé eins og er í þessu frv. Það er vegna þess að það er hugsað frá rangri forsendu, það á að byggja þetta upp siðferðilega. Einnig finnst mér í 13. gr., þar sem segir í V. kaflanum að ef konu hafi verið synjað um aðgerð í einu sjúkrahúsi sé henni ekki heimil framkvæmd í öðru sjúkrahúsi, mér finnst þetta afskaplega mikil fjarstæða. Mér finnst yfirleitt allt fjarstæða sem er ætlað að gera þetta erfitt og eftir því sem það verður erfiðara þegar út í þetta er komið. Ég tel að það eigi að reyna að byggja það upp frá upphafi að þetta verði ekki svona. Ég held að þetta eins og allt annað fari eftir því hvernig siðfræði er í heiminum, hvaða virðingu við berum fyrir lífi og hvaða ábyrgð við teljum það vera að vera maður.