29.01.1975
Neðri deild: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

114. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir vinsamlegar undirtektir um þetta mál og grundvallaratriði þess. Ég get einnig fallist á það með ráðh. að það geti verið fyllsta ástæða til þess að líta frekar á þingsköpin. Það eru að vísu ekki mörg ár síðan sérstök n. fór í gegnum þau frá byrjun til enda og flutti allvíðtækar breytingar, en engu að síður er það rétt hjá honum, að það eru mörg atriði í þingsköpum sem ástæða er til að líta á. Mundi ég síst hafa á móti því ef sú n., sem fjallar um þetta, sæi ástæðu til að flytja till. um fleiri breytingar á þingsköpunum en eru í þessu frv.

Eins og ég tók fram í framsöguræðu er ég til viðtals um ræðutímann, hvað mönnum sýndist að hann ætti að vera langur, og ég skal játa það, að það er þröngt sniðið að ráðh. skv. síðustu málsgr. 1. gr. Kann að vera að það sé rétt athugað hjá hæstv. dómsmrh. að ráðh., sem viðkomandi umræðuefni fellur undir, þurfi að hafa rýmri tíma en honum er ætlaður hér. Ég get vel fallist á það. Að vísu hugsaði ég þetta þannig, að þrátt fyrir slík ákvæði mundu gilda önnur og almenn ákvæði, sem eru í þingsköpum og rík hefð styður, á þá lund að forsetar leyfa mönnum yfirleitt að gera athugasemdir eða verja hendur sínar ef bein ástæða virðist vera til. En ég hef ekkert á móti því, að þetta mál verði athugað, og mundi ekki setja mig á móti því, þó að hlutur ráðh. við þessar aðstæður yrði gerður rýmri en hann er í síðustu málsgr. 1. gr.