30.01.1975
Efri deild: 39. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

129. mál, fisksölusamstarf við Belgíumenn

Stefán Jónsson:

Herra forseti: Ég vil lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill. í öllum meginatriðum. Ég held að hér sé hreyft mjög merkilegu máli, það sé óhæfilegt að við sitjum með hendur í skauti einmitt nú þegar kreppt er að okkar hag á meginlandsmarkaðinum fyrir fiskinn. Við eigum einmitt nú þessi missirin að hefja aðgerðir í þessu máli til þess m. a. að sýna vestur-þjóðverjum að við séum e.t.v. ekki svo mjög upp á þeirra náð komnir með að koma fiski á markað í Mið-Evrópu. Þótt ekki væri nema vegna þess eins, þá tel ég till. merka. Svo bætist hitt við, að hér er hugsað lengra, hér er miðað að langtímalausn á því vandamáli okkar að losna við ísaðan fisk sem hlýtur að verða okkur hentugt á komandi árum, jafnvel þó að frystiiðnaðurinn þróist mun meira en hann hefur gert.

Í sambandi við þessa till. vil ég minna á þáltill. sem samþ. var fyrir þremur árum, þar sem því var beint til ríkisstj. að hafa forgöngu um samstarf fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf að markaðsmálum og verndun fiskstofna. Nánar tiltekið var þarna um að ræða samstarf við norðmenn og þá aðallega norður-norðmenn, færeyinga og grænlendinga, sem munu skv. upplýsingum Hafrannsóknastofnunarinnar þegar við útfærslu fiskveiðilögsögu í 50 sjómílur hafa yfirráð yfir 80% af öllum ýsu-, þorsk- og lönguafla við Atlantshafið. Við höfum þegar dágóða reynslu af samstarfi við færeyinga í fisksölumálum. Við seljum nú þegar megnið af hraðfrysta fiskinum þeirra með dágóðum ágóða fyrir báða. Og það eitt er víst, að stæðu þessar þjóðir saman að fisksölumálum sínum betur en þær nú gera, þótt ekki kæmist á alger samvinna, stæðu þær betur saman að fisksölumálum sínum, þá væri engin hætta á því að neinni einni þessara þjóða væru settir afarkostir um sölu á fiskinum á meginlandinu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að Vestur-Evrópuþjóðirnar þarfnast þessarar góðu vöru, og kynni þá svo að fara að við sættum betri kjörum í tollamálum með þessa vöru okkar en við sætum nú.

Ég vek aðeins athygli á þessari þáltill. sem samþ. var um að beina þessu til ríkisstj., — mér vitanlega hefur ekkert verið í því gert, — ég vek aðeins athygli á henni í sambandi við þessa að mínum dómi gagnmerku þáltill., sem hér er borin fram, og ítreka stuðning minn við hana.