03.02.1975
Efri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins gera nánari grein fyrir þeim fjárhagsgrundvelli sem þarna er hugsaður, hvernig þessi ákvæði eru til orðin.

Upphaflega var rætt um að taka til þessara nota sem svaraði söluskatti af bókasölunni í landinu, og upphæðin í þessu frv. er miðuð við áætlaðan söluskatt af íslenskum bókum á árinu 1972. Það fer ekki hjá því, að um upphæðina sjálfa hljóta að verða mjög skiptar skoðanir hvað sem um málið í heild er að segja, og auðvitað eru skiptar skoðanir um það líka. En það er rétt að þetta komi hér fram við 1. umr., að þannig er þessi upphæð fengin.

Ég vil enn fremur vekja athygli á þeim ummælum sem fram koma í grg. varðandi þetta atriði og hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Þótt hugmyndir um endurgreiðslu til rithöfunda á söluskatti af íslenskum bókum hafi upphaflega hrundið máli þessu af stað, telur n. ekki heppilegt, að fjárveiting verði til frambúðar bundin söluskatti. Skattur af þessu tagi kann að verða lagður niður, breyta um nafn með einum eða öðrum hætti eða felldur inn í aðra skatta. Þá hefur og sýnst nokkrum örðugleikum bundið að staðreyna með nákvæmni hversu hárri upphæð þessi hluti söluskattsins kynni að nema og að fylgjast með breytingum á honum frá ári til árs.“ Mér finnst rétt að þetta komi hér fram. Ég er ekki með þessu að fitja upp á neinum deilum við hv. 2. þm. Norðurl. e., heldur fannst mér rétt að gera grein fyrir þessu, af því að það hafði fallið niður hjá mér í framsögu.