03.02.1975
Efri deild: 40. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það má segja, að það hljóti að vera með nokkurri djörfung að hæstv. menntmrh. komi hér og flytji þetta frv. nú, eins og árar í okkar þjóðfélagi. Hitt er svo annað mál, að þetta er gamall kunningi hér á Alþ. þetta viðfangsefni, að leita eftir auknu fjármagni til að styðja rithöfunda, og hafa mörg orð fallið um þá nauðsyn að gera slíkt.

Ég vil taka undir orð 2. þm. Norðurl. e., að þetta er slíkt mál í dag, að það þarf góðrar athugunar við, bókstaflega vegna fjárhagsástands í þjóðfélaginu. Ef fregnir eru réttar í þá átt að jafnvel verði að endurskoða gildandi fjárlög fyrir yfirstandandi ár, þá virðist ekki blása byrlega fyrir þessu frv.

Hæstv. menntmrh. drap á að það þyrfti að athuga um réttlátlega skiptingu milli listgreina. Á sínum tíma minntist ég á það, þegar hugmyndir um viðbótarsjóð fyrir rithöfunda voru hér á döfinni, að ég tel ekki rétt að skilja eftir tónskáld. Svo kunna menn kannske að koma með víðbótarlistamenn og þá fer málið að vandast. Ef rithöfundar eiga að fá úr sjóðnum, þeir sem eru skáld í þeirra hópi, mun ég hiklaust standa að því í menntmn., það er mín persónulega skoðun, að tónskáld fylgi hér með, alveg afdráttarlaust. Alþ. hefur verið tómlátt um stuðning við tónskáld á Íslandi og það er engan veginn sæmandi að halda því áfram. Ég mun því binda efnislegan stuðning minn við þetta frv. því að við reynum að finna því farveg að tónskáld fljóti hér með og breytum frv. í þá átt. Ég vildi að þetta lægi fyrir strax í upphafi, jafnvel þó að gildistöku frv. verði seinkað og það öðlist ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 1976, en í 5. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Ég held að það sé borin von að ætlast til þess að þetta mál nái fram á þessu ári, bókstaflega vegna efnahagsafkomu þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál, hvort við treystum okkur til að reikna með einhverri ákveðinni upphæð við gerð næstu fjárlaga.