03.02.1975
Neðri deild: 38. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

128. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Hv. fyrri flm. þessa frv. hefur nú gert ítarlega grein fyrir því, en frv. felur í sér tvö meginatriði: annars vegar að heimilað sé að veita meira fé en nú er til kaupa á eldri íbúðum og hins vegar er ákvæði í frv. um lánveitingar til hinna 1000 leiguíbúða sem sett voru ákvæði um fyrir tveimur árum. Ég vænti þess að frv. gangi til n. og þar verði það skoðað vandlega ásamt ýmsum fleiri atriðum í sambandi við húsnæðismálin.

Varðandi síðara atriðið, um hinar 1000 leiguíbúðir, sem gerð var lagabreyting um snemma árs 1973, þá taldi fyrri flm. og frsm. að við það hefðu verið bundnar mjög miklar vonir hjá sveitarstjórnum og er það rétt. Hitt er sjálfsagt að hafa í huga, að það var tvennt sem láðist í sambandi við flutning og afgreiðslu þess máls. Annað var það að sjá fyrir fjármagni til að reisa þessar 1000 íbúðir. Nú hefur það yfirleitt verið þannig, að þegar ríkisstj. eða einstakir ráðh. hafa lagt fram till. og frv. varðandi húsnæðismálin, þá hafa a.m.k. oftast nær, að ég ætla, verið gerðar tillögur um fjáröflun í því skyni. Þetta var ekki gert þegar hinar 1000 leiguíbúðir voru samþykktar, enda fór það svo að fyrstu missirin eftir að þessi lög voru samþykkt komu þau ekki til framkvæmda. Hins vegar hefur nú verið tekið til vandlegrar athugunar hvernig hægt er að afla fjár til þessara leiguíbúða, og eins og hv. fyrri flm. tók fram hafa þegar verið afgreiddar nokkrar þeirra umsókna sem fyrir liggja. En í sambandi við fjármögnun þessara bygginga virðist mér sjálfsagt að Byggðasjóður komi þar til. Nú eflist Byggðasjóður verulega vegna aukinna tekna, eins og kunnugt er. Þessar 1000 leiguíbúðir eru fyrst og fremst miðaðar við að greiða úr húsnæðisvandræðum víðs vegar úti um land, þar sem mikil þörf er á. Ég ætla að það félli mjög vel að hlutverki Byggðasjóðs að koma þarna til aðstoðar.

Annað atriði, sem einnig þarf nokkurrar skoðunar við, er að þegar lögin um hinar 1000 leiguíbúðir voru samþykkt hafði einnig láðst að skoða það nægilega hvernig þessar framkvæmdir féllu inn í húsnæðismálakerfið að öðru leyti. Nú hefur komið í ljós, að því er bæði húsnæðismálastjórn hefur tjáð mér og ýmsir fleiri aðilar, að þetta mál hefur m.a. haft alvarleg áhrif fyrir verkamannabústaðina. Eins og kunnugt er hefur hér lengi verið löggjöf um verkamannabústaði og hefur verið gert mjög myndarlegt átak viða um land samkv. þeim lögum, sem hvað eftir annað hafa verið endurskoðuð. Ég held að allir séu sammála um að starfsemi verkamannabústaðanna hafi orðið að miklu gagni. Nú hefur komið í ljós að í sumum sveitarfélögum hafa þegar verið lögð til hliðar eða gert ráð fyrir að leggja til hliðar fyrirætlanir um byggingu verkamannabústaða, til þess að sveitarfélögin snúi sér fremur að leiguíbúðum. Ég veit, og það kom m.a. fram í viðræðum sem ég átti í s.l. viku við fulltrúa Alþýðusambands Íslands um húsnæðismál, að það eru margir sem hafa nokkrar áhyggjur af því ef þetta leiguíbúðakerfi yrði til þess að draga úr eða lama að einhverju leyti verkamannabústaðakerfið. Þegar slík ráðstöfun eins og þessi lagabreyting var gerð fyrir tæpum tveim árum hefði að sjálfsögðu þurft að skoða málið betur, hvernig þetta félli saman.

Ég nefni þessi atriði sem að sjálfsögðu eru nú til athugunar. Að öðru leyti vil ég aðeins taka fram, að húsnæðismálin í heild eru til endurskoðunar og athugunar hjá félmrn. og í síðustu viku var viðræðufundur við fulltrúa Alþýðusambandsins og formann húsnæðismálastjórnar um ýmsa þætti þessara mála. Meðal margra atriða, sem hér koma til meðferðar, er að sjálfsögðu fjáröflunin, bæði samningar við lífeyrissjóðina um fjármögnun Byggingarsjóðs, einnig að hverju leyti Byggðasjóður getur komið inn í þetta dæmi, eins og ég gat um, sérstaklega í sambandi við leiguíbúðirnar og e.t.v. á fleiri vegu. Þá þarf að sjálfsögðu einnig að athuga hversu mikil hækkun húsnæðismálalánanna eigi að verða. Hún er nú, eins og kunnugt er, samkv. ákvörðun fyrrv. ríkisstj. 1 millj. 60 þús. kr. á hverja íbúð, en byggingarvísitala hefur eins og kunnugt er og kom fram í ræðu fyrri flm., stórhækkað síðan þessi ákvörðun var tekin og sú ákvörðun raunar byggð á byggingarvísitölu sem þá var orðin meira en hálfs árs gömul og hafði orðið mikil hækkun á í millitíð. En fjárhæð lánanna er að sjálfsögðu til athugunar. Meðal þess, sem einnig er verið að skoða, er alveg sérstaklega byggingar- og lánaþörf unga fólksins og hvernig hægt er að greiða betur en nú er fyrir heimilamyndun þess. Bæði inn í það dæmi og einnig í öðrum samböndum kemur fyrirgreiðsla við kaup á eldra húsnæði, sem er fyrra aðalatriðið í frv. sem hér liggur fyrir.

Um leið og rætt er um leiguíbúðir skulum við hafa í huga að meginstefna í húsnæðismálum íslendinga hefur um alllangan aldur verið sú að greiða fyrir því að sem flestir eignuðust sjálfir sínar íbúðir, og ég ætla að það sé nú ósk flestra íslendinga að þeirri meginstefnu verði haldið. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu verður einnig að hafa nokkuð af leiguíbúðum til þess að greiða úr þessum málum.

Ég vil að lokum segja það, að í sambandi við athugun og endurskoðun á húsnæðismálunum er eitt atriði, sem e.t.v. er stærst þeirra allra, og það er hvort hægt er að finna einhverjar leiðir til þess að draga úr byggingarkostnaði og gera íbúðabyggingar ódýrari en þær hafa verið. Það eru margir sem hafa á því trú að með breyttu og bættu skipulagi þessara mála megi lækka byggingarkostnað eða draga úr hækkun hans, hvernig sem maður vill orða það. Það er ljóst, að ef hægt væri að ná verulegum áfanga í því efni og gera húsnæðiskostnaðinn lægri en nú er, þannig að t.d. launamenn þyrftu ekki að borga jafnhátt hlutfall af sínum tekjum í húsnæðiskostnað og nú er, þá er það að sjálfsögðu besta kjarabótin sem völ er á.

Ég vildi aðeins á þessu stigi nefna þessi atriði, en mæli með því, að frv. fari til 2. umr. og félmn. og verði þar skoðað vandlega.